Vikan


Vikan - 01.08.1940, Qupperneq 12

Vikan - 01.08.1940, Qupperneq 12
12 VIKAN, nr. 31, 1940 Köttur rœðst á örn. Ef ég ætti að greiða atkvæði um, hver væri dásamlegasta skepna jarðar- innar, þá gæfi ég hiklaust kettinum mitt atkvæði. Það er ekki fyrir það, að kötturinn sé svo tiltakanlega hár í lofti eða framúrskarandi vitur, heldur það, að kötturinn hefir í svo ríkum mæli þá eigin- leika, sem hafa verið aflvakar lífsins og lífsbaráttunnar frá örófi alda. Kötturinn er göfugur og vitur, jafnhliða því sem hann er grimmur og hugrakkur. Sjálfstæðisþrá hans og eðlishvöt eru svo sterk, að jafnvel maðurinn hefir aldrei get- að brotið hana niður. Maðurinn, þetta full- komnasta afsprengi efnisins, sem við þekkjum, hefir lagt undir sig heiminn og brotið hann til hlýðni við sig. Mennirnir hafa getað kúgað hverir aðra og sveigt öfl jarðar og lofts í sína þjónustu, en köttinn hafa þeir aldrei getað bugað. Hundurinn, þetta grimma og villta dýr, hefir á vegum mannsins orðið algerður þræll. Hann skríður að fótum þess, sem ber hann, og hefir svo algerlega tapað sínu eigin eðli, að hann deyr úr hungri, ef mað- urinn sleppir hendi sinni af honum, enda þykir manninum vænt um hundinn, eins og flest sem hann getur haft algerlega á sínu valdi. Hvað segir svo maðurinn um köttinn, að hann sé grimmt og blóðþyrst dýr og hon- um sé aldrei trúandi. I þessum orðum felst hin dulda gremja mannsins yfir því, að kötturinn hagar sér algerlega eftir því, hvernig við hann er breytt. Hann tekur atlotum mannsins með blíðu, og er honum trúr svo lengi sem maðurinn virðir rétt hans, en lengur ekki. Aldrei er kisa í svo góðu skapi, ef maður blakar hendi við henni eða gengur á rétt hennar, að hún rísi ekki öndverð með kjafti og klóm, al- búin þess að fórna lífi og limum heldur en láta kúga sig. Kisa getur hörfað af kænsku en ekki af hræðslu, því að sjái hún að flóttinn sé árangurslaus, þá býst hún til vamar, þótt við ofurefli sé að etja, og þurfi hún að láta lífið, þá selur hún það svo háu verði sem hægt er. Svona er kötturinn, og maðurinn getur aldrei að fullu fellt sig við þetta, en kisa veit að hún getur bjargað sér sjálf, og því lætur hún engan bilbug á sér finna. Eru margar sögur sagðar um hugprýði og kænsku kattarins, en þeim er lítt haldið á loft vegna þess, að við viljum undir niðri ekki láta hann njóta sannmælis. Aftur á móti viljum við alltaf ota hundinum fram fyrir göfgi og viturleik, því að við erum svo ánægðir yfir þrællyndi hans og fót- þurrkuskap. Til þess að þetta verði meira en formáli, þá ætla ég að tilfæra eina sögú um kött, sem ég heyrði þegar ég var drengur. Pabbi sagði mér, að þegar hann var unglingur í Fögruhlíð í Jökulsárhlíð, þá hefði verið þar köttur einn mikill, sem ann- álaður hefði verið fyrir veiðiskap og áræði. Þegar fuglinn kom á vorin þá lagðist hann að mestu út og drap margar fuglategundir, sem menn höfðu aldrei vitað ketti leggja í, því að sjaldnast leggjast þeir nema á smá- fugla.’ Þegar haustaði og fugl fór að minnka, þá gerðist hann ennþá áræðnari. Hann sást þá oft skjala til við krumma, en þar hitti skrattinn ömmu sína, og bar krummi ávallt hærra hlut í þeim viðskipt- um. — Haust eitt bar það til tíðinda, að örn einn fór að venja komur sínar þangað og sat tímum saman á kletti einum skammt frá bænum. Menn veittu því at- hygli, að kisa fór að gefa þessum nýja gesti gætur. Fyrst hélt hún sig í hæfilegri fjarlægð og athugaði málið, en fór svo að færa sig nær. Veiðihugurinn óx og hún fór að læðast spöl og spöl, rétta sig upp og veifa skottinu tvo þrjá snúninga, svo að sýnilegt var, að atlagan var í aðsigi. Loks rann upp hinn stóri dagur að menn sáu að kisu var alvara. Hún fikaði sig áfram með föstum ásetningi þar til hún tók stökk og dembdi sér yfir örninn. Örninn vaknaði við vondan draum og hóf sig í dauðans ofboði hátt í loft upp, en kisa hélt fast svo lengi sem menn sáu til. Allir töldu kisu af, og liðu svo nokkurir dagar, að enginn varð nokkurs vísari um örlög þeirra félaga. Svo var það einn morgun að kisa er komin, en að ýmsu leyti breytt. Að ytra útliti sást ekki mikið á henni, en hún var svo dauf og lömuð, að hún hafði vart sinnu á að éta. Um viðskipti hennar og arnarins varð aldrei full-ljóst, en seinna um haustið fannst dauður örn þar í sveitinni, og eftir líkum að dæma töldu menn að þetta hefði verið sá sami. Hvort sem það hefir verið rétt eða ekki, þá er það áreiðanlegt, að kisa hefir náð þannig tangarhaldi á ernin- um, að hann hefir neyðst til að lækka flugið, því að annars hefði kisa ekki kom- izt lífs af. Kisa lifði lengi eftir þetta, en lagði að mestu niður fuglaveiðar og lagði þá ekki nema í smáfugla. Þó kom það fyrir, að menn sáu hana valgogga yfir mófugli, en það gekk aldrei lengra en það, að hún hélt sig í hæfilegri fjarlægð og veifaði skottinu lítið eitt, en sleikti svo út um og sneri frá og labbaði heim án frekari aðgerða. Halldór Pétursson. Þýzkur vísindamaður hefir búið til smá- sjá, sem hann segir að geti stækkað 100000 sinnum, og er það geysimikil framför, því að hámarkið var áður 3000 sinnum. — Elektron-geislar eru notaðir í stað venju- legra Ijósgeisla, til að lýsa upp það, sem skoða á. Eftir því sem franskur sérfræðingur í húðsjúkdómum segir, hefir litarefnið metyl-blátt reynzt vel í baráttunni við holdsveikina. Hann segir, að það sé þrisvar sinnum áhrifaríkara en chaulmoogra-olía, sem notuð hefir verið hingað til. En litar- efnið hefir hann galla, að húðin verður blá á þeim bletti, sem sárið var. * Algengustu ættarnöfn í heiminum eru Wong og Wang. Að minnsta kosti 150 milljónir Kínverja eða nálægt þriðji hver Kínverji heita öðru hvoru þessu nafni. Á fisksölutorginu í Grimsby, aðal fiskiveiða- og útgerðarborg Englands.

x

Vikan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.