Heima er bezt - 01.08.1954, Síða 29
Nr. 8
Heima er bezt
253
Skyggnst um . . .
Framh. af bls. 232.
fánastengur í miðbænum og við
Tjarnargötuna. Hannes Hafstein
bjó þá í stóru húsi á Melunum,
er Valhöll hét, og þar var forsæt-
isráðherra Dana ætlað að gista,
meðan hann dveldist í Reykj avík,
en konungur og fylgdarlið hans
skyldi hafa aðsetur í Mennta-
skólanum. Síðar um daginn (29.
júlí) vorum við fengnir til þess
að vinna við ýmis konar minni
háttar lagfæringum og breyting-
um í Valhöll, bústað Hannesar
Hafstein. Unnum við þar stanz-
laust alla nóttina. Hannes fylgd-
ist vel með öllu, smáu og stóru,
og sagði fyrir, hvernig hvað eina
skyldi vera. Þegar við hættum
vinnu um morguninn, borgaði
hann okkur tíu krónur hverjum.
Þótti okkur það vel borgað.
Af öllum þeim merku mönn-
um, sem ég sá og kynntist í
Reykjavík á þessum árum, er
Hannes Hafstein mér einna
minnisstæðastur. Hann var mik-
ið glæsimenni, fríður sýnum,
mikill að vallarsýn og rammur
að afli. Hann bar og höfuð og
herðar yfir flesta samtíðarmenn
sína hvað andlega yfirburði
snerti, enda var hann virtur og
dáður af öllum, sem kynntust
honum, jafnt samherjum sem
andstæðingum á stjórnmálasvið-
inu. Hann var vel til foringja
fallinn, og má það teljast mikil
hamingja lands og þjóðar, að
þessi víðsýni hugsjóna- og gáfu-
maður skyldi verða fyrsti inn-
lendi ráðherrann.
Daginn eftir, 30. júlí, fengu
allir frí frá störfum. Söfnuðust
bæjarbúar þá saman á götum
bæjarins og niðri við höfn, prúð-
búnir og í hátíðarskapi, til þess
að vera sjónarvottar að því, er
konungur og ríkisþingsmenn og
aðrir gestir gengju á land. Al-
þingismenn tóku á móti ríkis-
þingsmönnum ofan við bryggj-
una og fylgdu þeim að Hótel
Reykjavík og Hótel fsland, en
þar skyldu þeir gista.
Eins og áður segir, hafði kon-
ungur og nánasta fylgdarlið hans
bústað í Menntaskólanum. Yfir
hliðið, sem gengið var um upp
til skólans, var reistur bogi mik-
ill og veglegur, vafinn lyngflétt-
um og blómum skreyttur, með
kórónu efst.
Eftir hádegi þennan dag (30.
júlí) gekk konungur frá skólan-
um til Alþingishússins, en mót-
tökuathöfn fór fram í sal neðri
deildar. Voru þar saman komnir
ríkisþingsmenn og aðrir erlendir
gestir, alþingismenn, bæjarstjórn
og innlendir gestir, blaðamenn
o. fl. Fór þar fram söngur og
ræðuhöld. Hélt Hannes Hafstein
aðalræðuna fyrir konungi og
hinum erlendu gestum, en kon-
ungur svaraði með ræðu fyrir
íslandi.
Hinn 1. ágúst hélt konungur
og föruneyti hans til Þingvalla,
en 2. ágúst var þjóðhátíð haldin
þar að viðstöddu fjölmenni. Voru
þá ræðuhöld og söngur og fjöl-
menn veizla haldin um kvöldið.
Daginn eftir hélt konungur til
Gullfoss og Geysis og síðar aust-
ur í sveitir, allt að Þjórsártúni.
7. ágúst kom svo konungur og
fylgdarlið hans úr austurförinni.
Var veður hið bezta alla þessa
daga, sólskin og bjartviðri, og
voru hinir erlendu gestir ánægð-
ir með förina og stórlega hrifnir
af náttúrufegurð landsins.
Friðrik konungur var mjög al-
þýðlegur maður og blátt áfram í
viðmóti við hvern sem var, jafnt
æðri sem lægri. Gaf hann sig oft
á tal við fólk, sem hann mætti á
förnum vegi, og spjallaði við það
góða stund, en konungur skildi
íslenzku allvel og gat jafnvel
talað málið dálítið. Dag nokkurn
mætti ég konungi og prinsinum
á götu í miðbænum. Var ég þá,
ásamt fleirum, að aka timbri á
vagni. Vék konungur úr vegi fyr-
ir okkur, en um leið og hann gekk
framhjá, var gluggi á næsta húsi
opnaður og gömul kona leit út.
Er hún sá konunginn á götunni,
kallaði hún: „Guð blessi konung-
inn.“ Friðrik konungur nam
staðar við húsið og fór að spjalla
við gömlu konuna. Ekki heyrð-
um við, hvað þeim fór á milli,
því að við héldum áfram ferð
okkar. Öðru sinni var konungur
staddur austur í bæ. Gaf hann
sig þar á tal við bónda nokkurn
austan úr sveitum og ræddi lengi
við hann um landsins gagn og
nauðsynjar.
Hinn 9. ágúst hélt konungur
og fylgdarlið hans svo frá
Reykjavík á tveimur skipum
vestur og norður um land, með
viðkomu á ísafirði, Akureyri og
Seyðisfirði, en þaðan lét konung-
ur í haf heim til Danmerkur.
Þótti konungsheimsóknin hafa
tekizt giftusamlega.
— Svo fluttist þú frá Reykja-
vík til Flateyjar á Breiðafirði?
Já; vorið 1908 varð nokkur
samdráttur í byggingarmáium
Reykjavíkur og því lítið um
vinnu þar í þeirri grein um tíma.
Réðst ég þá um vorið til Magnús-
ar Sæbjörnssonar, læknis í Flat-
ey á Breiðafirði. Skyldi ég
stækka og lagfæra íbúðarhús
hans. Ætlunin var upphaflega,
en það fór á annan veg, því að
ég ílentist þar vestra og var bú-
settur í Flatey í 45 ár, en það er
önnur saga.
Þorvaldur Sæmundsson.
Húsmæðraskóli . . .
Framh. af bls. 226.
Borgarhrauns, en suður til Hafnafjalls, og allt það
land, er vatnsföll deila til sjávar. Hann flutti um
vorið eftir skipið suður til fjarðarins og inn í vog
þann, er næstur var því, er Kveld-Úlfur hafði til
lands komið, og setti bæ þar og kallaði að Borg, en
fjörðinn Borgarfjörð og svo héraðið upp frá kenndu
þeir við fjörðinn.“
Myndin sýnir Borg á Mýrum í dag. Enn er þar
reisulegt heim að líta, þótt kannske sé þar ekki
lengur hjartastaður hins mikla héraðs, og nokkuð
mætti þar að vinna til að halda við fornri reisn.
Hugmyndir um það munu nú vera á döfinni, enda
hefur þegar nokkuð verið að unnið til að halda við
minningu þeirra feðga, Kveld-Ulfs, Skalla-Gríms
og Egils. — (Ljósm. Guðni Þórðarson).