Heima er bezt - 01.02.1958, Page 11

Heima er bezt - 01.02.1958, Page 11
SÖGUR MAGNÚSAR A SYÐRA HOLI í SJÁVARHÁSKA Séra Björn Þorláksson á Höskuldsstöðum (d. 1862) var eitthvert sinn á ferð til Reykjavíkur. í fylgd með honum var Guðmundur Þorsteinsson frá Skeggjastöð- um á Skagaströnd. Þeir voru báðir vaskleikamenn. Séra Björn var snarmenni mikið, harðfengur og verklaginn. Sjómaður var hann góður og stjórnari með ágætum og hafði ungur vanizt sjó í uppvexti sínum á Kjalarnesi. Guðmundur var mikill vexti og rammur að afli og hinn mesti afkastamaður til allra verka á sjó og landi, þegar hann vildi. Báðum þótti þeim sopinn góður. Þeir komu á Akranes og fengu þar léðan bát til Reykjavíkur. Segir ekkert af ferðum þeirra, fyrr en á bakaleið. Þeir höfðu varning nokkurn á bátnum og vænan brennivínskút, er séra Björn átti. Hvasst var á firðinum og öldugangur mikill. Veðrið fór versnandi þegar á daginn leið. Guðmundur hagaði segli, en séra Björn sat við stjórn. Báturinn var lítill og óstöðugur og veltist á öldunum. Kom svo, að prestur fékk ekki varið hann ágjöfum. Gerðist hann all-áhyggjufullur og lá við sjálft, að honum féllust hendur. Hann yrti á Guðmund og sagði honum, að nú skyldu þeir búast við dauða sínum, því landi næðu þeir ekki lifandi. Guðmundur leit til séra Björns, en hvarflaði síðan augum til kútsins og sagði rólega: „Já, séra Björn, en eigum við ekki að súpa vel á kútnum áður?“ Séra Birni fannst svo til um ókærni Guðmundar og trúleysi, að hann fokreiddist. Hann sparn við fæti, þreif fastar um stýrissveifina og gleymdi um sinn guðsorði og bænum. Og með því að heldur dró úr veðrinu, tókst þeim að ná lendingu heilu og höldnu á Akranesi. Sögn Jónasar Illugasonar frá Brattahlíð og fleiri manna. FRÁ STEFÁNI PRESTI ÓLAFSSYNI Á HÖSKULDSSTÖÐUM Stefán prestur var dóttursonur séra Stefáns skálds Ól- afssonar í Vallanesi og bar nafn hans. Foreldrar hans voru séra Ólafur Guðmundsson á Hrafnagili og Anna Stefánsdóttir, kona hans. Stefán prestur fékk Höskulds- staði 1722 og var þar til æviloka. Hann var kallaður kennimaður góður og söngmaður mikill, snoturmenni en enginn lærdómsmaður. Fyrri kona hans var Ragn- heiður Magnúsdóttir á Espihóli, Björnssonar, en hin síðari Sigríður Sigurðardóttir á Geitaskarði, Einarsson- ar. Stefán prestur átti sex börn með fyrri konu sinni, en tvö með hinni síðari. Draumur barnfóstrunnar. Á Höskuldsstöðum var roskin kona á vist með séra Stefáni og fóstraði hún börn hans. Hún var blind hin síðari árin en gætti þó til með börnunum. Hún geymdi stafprik þeirra og vettlinga milli þess, er þau léku sér úti. Var hún jafnan birg af þessum hlutum, svo ekki urðu þrot, þó eitthvað bilaði eða týndist. Það var í rökkri eitt vetrarkvöld, að börn presthjón- anna höfðu tekið prik sín og vettlinga hjá fóstru sinni og léku sér úti. Þá kom krakkaangi að knjám kerlingar, þar sem hún sat á palli við prjóna sína, og bað hana að fá sér staf og vettlinga og sagðist ætla að leika sér með hinum börnunum. Kerlingu grunaði, hvernig standa mundi á barni þessu og að það mundi ekki mennskt vera. Hún fékk því prik og vettlinga, bað það eiga gripina og njóta vel. Nóttina eftir dreymdi kerlingu að kona kom til henn- ar, fölleit og fátækleg, en með gleðibragði', og sagði: „Vel gerðir þú að gleðja barn mitt í gærkvöldi. Nú á ég ekki til að launa þér, en af því að ég veit, hversu kær þér eru b'örnin hérna, skal þakklæti mitt koma þar niður. Vænti ég þess, að þau þroskist vel og verði gæfu- menn.“ Draumur gömlu konunnar varð ekki lengri. En um- mæli huldukonunnar þóttu rætast fullkomlega. Stefán prestur hefur orðið kynsæll. Frá honum er komið margt stórmenni og hinar stærstu ættir hér á landi. Börn hans mönnuðust öll vel, komust til mikilla metorða og þóttu í flestu giftudrjúg. Draumspá Stefáns prests. Svo er sagt, að séra Stefán gisti eitt sinn á Balaskarði á Laxárdal. Um morguninn, er hann var klæddur, sagði hann: „Mig dreymdi undarlega í nótt; mikið um Laxá og svo það, að ég ætlaði að hafa bústaðaskipti við bóndann á Neðri-Mýrum. Má vera, að ég sé skammlífur og eigi að drukkna í Laxá.“ Mælt er, að fleiri drauma dreymdi hann, er hann réð fyrir feigð sinni, þótt eigi séu þeir sagðir. Heima er bezt 49

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.