Heima er bezt - 01.05.1958, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.05.1958, Blaðsíða 15
sem vorið hafði verið nær misfellalaust. En allt um það tók fénaður jöfnum og öruggum vorbata, og vorsmöl- un og rúningur lambánna fór fram tvo fyrstu daga júlí- mánaðar. Þá daga var sunnan hlývindur og sumar í íofti og á jörðu. Föstudaginn 4. júlí riðum við dalbúar fjórir saman inn fyrir Fossá og sem leíð liggur fram eftir Gnýstaða- dal. Ætlun okkar var að leita að ullarám, sem ekki höfðu komið í réttir í nýafstaðinnni rúningssmölun. Skyldu þær ullarær, er fyndust, verða réttaðar og rúnar á eyði- býlinu Gnýstöðum, sem var í byggð síðast árið 1943. Ekkert gerðist sögulegt í ferðinni, nema við fundum nýgotna tóu í greni við Grjótá, sem rennur í Sunnudalsá laust fyrir utan Sandfell. Grenjaskyttan var einn okkar fjórmenninganna, og þótti honum eðlilega bera vel í veiði. Flins vegar gekk honum illa að átta sig á, hvað tófan hefði gotið seint og þótti hún hafa vaðið vel fyrir neðan sig á jafn góðu vori. Við héldum svo áfram fjárleitinni og fundum nokkr- ar ullarær á víð og dreif, sem við skildum úr nýrúnu lambánum frá Borgum, sem höfðu verið reknar fram á dal að lokinni rúningu. Síðan réttuðum við ærhópinn og rúðum á Gnýstöðum. Um lágnættið héldum við heimleiðis. Vorstörfunum var lokið, og sláttur skyldi hafinn að morgni næsta dags. Miðnæturkyrrðin breiddist yfir allt. Nýrúnar ærnar röltu áleiðis í fang fjalla og frelsis. Dalalæðan færði jörðinni svaladrykkinn, en yfir austurfjöllum reis dökk blika. — Náttfyllan, sögðum við og héldum heim í hátt- inn. Eaugardaginn 5. júlí. Blikan frá í gærkvöldi var orðin að hrákaldri þoku, sem lyppaðist úrsvöl og ill- spáandi frá austurlofti til vesturfjalla. Undir nón tók þokan að sigla hraðbyri suður með heiðinni, en logn hélzt að mestu í byggð. Um náttmál byrjaði að rigna, hægt og meinleysislega í fyrstu, en um miðnætti var komin stórrigning. Hélzt svo linnulaust alla nóttina, og með dagmálum á sunnudag kastaði fyrst tólfunum. Þá meira en rigndi. Það rann bókstaflega úr loftinu, og hélzt það skýfall út allan sunnudaginn. Sunnudalsá, sem hafði á laugardagskvöldið verið niðri „í steinum“, var orðin að flagmórauðu fljóti, því að hvort tveggja fór saman, vatnsrennslið úr loftinu og bráð leysing fannanna í heiðinni, sem hafði verið hálf- runnin til þessa. Ullin á Guðmundarstöðum, sem hafði verið þvegin í ánni á laugardaginn og borin upp á gras- bakka, sem var á annan metra á hæð frá venjulegu vatns- borði árinnar, byrjaði að fljóta út upp úr hádegi á sunnudag. Slík undur höfðu ekki fyrr gerzt í vatna- vöxtum á Guðmundarstöðum í júlíbyrjun, en logn hélzt að mestu niðri um bæi og 5° hiti á Celcius Við hugðum því að fénu væri engin hætta búin kuld- ans vegna, enda með öllu ófært að koma því úr heiðinni sökum vatnagangs, og mátti glöggt heyra þungan vatna- nið í suðurátt. Á sunnudagskvöldið gekk veður meira til norðaust- urs og minnkaði vatnsstreymið úr loftinu. Það hélt að- eins áfram að rigna eins og í upphafi, stórum krapa- dropum, því nú fór veður kólnandi, og klukkan 3 á mánudagsnóttina var 0° hiti út við sjó. Má geta sér til, hvað þá hefur verið kalt uppi á heiði, þó í sjálfum sól- mánuði væri. Á mánudagsmorguninn var dumbungsveður, en fór hlýnandi upp úr dagmálum. Nú hafði mesta offorsið dregið úr Sunnudalsánni. Pósturinn hafði gist tvær nætur á Guðmundarstöðum. Var veðurtepptur þar yfir sunnudaginn. Hann var ung- ur og vaskur ferðamaður, en nú hafði Brunná, smá- spræna, sem rennur milli Guðmundarstaða og Hrapps- staða, hamlað för hans. Brunná er stikluð í venjulegu ástandi á öllum árstímum, en á mánudagsmorguninn, þegar pósturinn reið hana, var hún á miðjar síður, þrátt fyrir frostið um nóttina, og geta menn gert sér í hugar- lund, hvílíkur vatnsflaumur hefur verið í henni á sunnu- daginn. Seinnipartinn á mánudaginn fundust tvær króknaðar ær hjá Sunnudal, og jafn snemma bárust þær fréttir frá Hrappsstöðum, að dauðar ær hefði rekið upp úti á Brunnáreyrum. Þótti þá sýnt, hvernig farið hefði um ærnar, sem komnar voru í heiðina þegar veðrið gekk yfir. Síðari hluta þriðjudags lagði ég gangandi af stað í könnunarferð um heiðina. Veður var kyrrt, en nokkur þoka á, sem þéttist, þegar nær dró heiðinni. Brunná, sem skilur heimalöndin og heiðina, rennur eftir alldjúpu gili. Nú var hún orðin lítil og meinleysisleg, en verks- ummerkin sýndu, hve mjög hún hafði færzt í aukana. Hafði hún sorfið klettaveggina hálfan annan metra ofar venjulegu vatnsborði og bannað öllum skepnum að komast í skjól „niður fyrir á“. Að vísu er afdrep í gil- inu austan við ána, og þangað höfðu bjórvotar ærnar leitað og lagzt fyrir, en á mánudagsnóttina, þegar veðrið gekk til norðurs og stóð upp í gilið, hafði ærnar brostið mátt til að rísa á fætur, og kuldadofinn heltekið þær, unz yfir lauk. Ég hélt fram með gilinu. Dauðar ær voru á strjálingi fram með gili, allt inn að Þverlæk. En þar byrjaði aðal valurinn. Nýsnævi var þar fremra og hafði dregið í alldjúpa skafla, sem um vetur væri. Var ömurlegt að litast um í þessu ríki dauðans. Það var því líkast, sem vel liðtækur sláttumaður hefði farið þar um og slegið í múga. Sums staðar lágu fimm ær í einni kös. Annars staðar ein ær í stað. Margar ærnar virtust sofa. Það var líkast því, sem engill dauðans hefði lostið þær mjúkum helsprota. Nokkrar höfðu stungizt í gjót- ur og skorninga. En afdrep voru þarna engin, hvergi þurr blettur til að liggja á, einungis rennvot, helköld jörðin, á meðan beljandi lækir og nístandi krapahríð sungu dauðaóð hinna hrjáðu skepna. Ég var kominn á leiðarenda, suður að Svartfelli, þar sem útilegumaðurinn Svartur hafðist við, sem segir í Vopnfirðingasögu. Nú fór nóttin í hönd. Þokan var alldimm. Eina hljóðið, sem rauf kyrrðina, var ömurlegt væl, er barst frá Svartfellinu. Líldega tófan að hlakka yfir hræjunum. Tvær dilkær bitu rólegar í flóanum við Steinku. Þær einar höfðu haft þrek til að standast gern- (Framhald á bls. 178). Heima er bezt 161

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.