Heima er bezt - 01.05.1958, Síða 28

Heima er bezt - 01.05.1958, Síða 28
„Það eru nú ekki svo margar kýrnar, að það sé ekki vinnandi verk,“ sagði Geiriaug. Hún fór út, og Rósa og Stína gamla með tifandi prjóna sína komu á eftir. Það kom undrunarsvipur á Rósu, þegar hún kom inn í fjósið og sá þar aðeins tvær kýr og engan kálf, sem alltaf hafði þó verið mest gaman að sjá. „Geirlaug!“ kallaði hún óþarflega hátt. „Hvað er orðið af öllum kúnum? Voru þær seldar líka?“ „Já, auðvitað voru þær allar seldar — nema þessi hvíta, hana átt þú að eiga í nýja búið þitt. Hina keypti Krist- ján. Það er nóg, ef heimilisfólkið verður ekki nema við, þessi fjögur,“ svaraði Geirlaug. „Eg er svo hissa á þessu öllu. Búið að selja allar kým- ar! Voru hrossin seld líka?“ sagði Rósa. „Það er víst. Reyndar veit ég það ekki. En Kristján keypti skilvinduna, svo að þú getur skilið mjólkina þína,“ sagði Geirlaug. „Það er nú líklega ekki mikil mjólk í tveimur kúm,“ sagði Rósa dapurlega. „Jú, það er talsvert í þeim, því nóg er til að gefa þeim, og svo verður náttúrlega fært frá, þó að æmar séu ekki margar,“ sagði Geirlaug. „Skárri er það nú fátæktin!“ andvarpaði Rósa og bjóst til útgöngu. Hún heyrði að Stína gamla nöldraði yfir prjónunum: „Ég er nú bara orðlaus yfir þessu öllu, að manneskjan skyldi ekki vera látin vita um þetta bölvað, ekki sen brambolt. Það er, eins og annað, heldur óskiljanlegt.“ Narsta morgun var komið sólskin en norðansvali. Rósa hafði sofið ágætlega í mjúka rúminu sínu. Geir- laug hafði líka verið svo hugulsöm að kveikja upp í ofninum í húsinu, svo að það hafði verið funheitt inni, þegar hún sofnaði, og nú vaknaði hún við sólaryl um leið og Kristján kom inn og bauð henni brosandi góð- an daginn. „Svafstu ekki vel, elsku stúlkan mín? Þú trúir því ekki, hvað ég er glaður yfir að hafa þig hjá mér,“ sagði hann. „Jú, ég hef sofið vel. Það er bara svo ömurlegt að vakna, því að mig var að dreyma mömmu og pabba, og ég var svo sæl. Það er hræðilegt, að þau skuli bæði vera horfin og ég ein hérna,“ sagði hún. „Þú verður ekki lengi ein hérna, vina mín. Hugsaðu bara um framtíðina, góða mín. Láttu fortíðina eiga sig. í dag skulum við setja upp hringana. Svo látum við fara að lýsa og giftum okkur. Þá sjálfsagt flyt ég inn fyrir til þín í stóra hjónarúmið; til þess keypti ég það. Held- urðu, að það verði ekki yndislegt að sofa í faðmi mín- um á hverri nóttu?“ „Ég, sem var búin að hugsa mér að halda heilmikla veizlu þegar við settum upp hringana. Það átti að syngja og dansa við svo hátíðlegt tækifæri,“ sagði Rósa. „Hvað segir þú annars um það, mannsefnið sjálft?" „Ég vil helzt vera laus við alla þá viðhöfn. Það er langbezt, að hafa þig eina hjá sér. Ég sé hvort eð er engan nema þig, ekki einu sinni sólina,“ sagði hann. „Ég gat nú bara tæplega trúað mömmu, þegar hún sagði, að það hefði aldrei verið stigið dansspor hér á Hofi eftir að ég fór burtu um nýjárið. Hún bjóst við, að þú hefðir ekki getað hugsað þér að dansa, án þess að ég væri í hópnum. Var það kannske ástæðan?“ „Já, það var alveg rétt til getið hjá henni,“ sagði hann hlæjandi. „Hvernig átti ég að endast til að dansa við þessar nautstirðu stelpudyrgjur hérna í sveitinni, þegar þig vantaði í hópinn til að lífga allt og hressa með ynd- islega fallega hlátrinum þínum?“ Rósa kyssti hann fyrir gullhamrana og sagði: „Mamma sagði, að það væri nóg kaffibrauð til hér heima til að halda trúlofunargildi. Mér finnst það svo ógnarlega lágkúrulegt að setja hringana upp einhvers staðar úti í horni, eins og við séum feimin við sveitunga okkar.“ „En ég hef nú bara ekki nokkra löngun til að fara að skemmta hyskinu hérna í Torfunni. Mér finnst það allt hafa einhvern ímugust á mér, þó að ég hafi heldur lítið gert á hluta þess,“ sagði hann. „En vitleysan í þér,“ sagði Rósa. „Mér hefur nú bara alltaf sýnzt fóíkið hérna afar hrifið af þér, einkanleoa stúlkurnar. Þær voru bara skotnar í þér á jólunum. Ég hafði svo gaman af þeim.“ „Kannske mér gangi þá ekki svo mjög illa, ef ég fer að reyna að fá mér kaupakonu. Það verður víst ekki komizt hjá því að hafa eitthvert vinnufólk um sláttinn,“ sagði hann. „Það þarf víst ekki margt fólk til að heyja handa tveimur kúm og ég veit ekki hvað fáum kindum. Voru þær ekki seldar allar?“ spurði hún. „Móðir þín lét þig hafa tíu kindur, það var nú allt og sumt. Svo lét hún náttúrlega kúgildisæmar fylgja jörð- inni. Við verðum að vera dugleg að heyja, svo ég geti sett á mörg lömb í haust. Þá fjölgar fénu fljótlega. Ég má eiginlega ekki við því að taka vinnufólk. Það þarf að borga því kaup. Heldur verð ég að reyna að lifa á hjáleigudótinu, þótt það sé ekki alls kostar gott,“ sagði •hann. „Líklega hafa þó ekki hrossin mín verið seld eða reiðhestar pabba og mömmu?“ spurði hún. „Nei, þau voru ekki seld, hrossin þín, en reiðhestinn sinn lét móðir þín Ásgeir smala fá upp í kaupið. Mér sárnaði, þegar ég sá strákfíflið þeysa á honum úr hlaði, þetta líka litla hreykinn. Hinn hestinn veit ég ekkert um. Siggi hefur sagt, að hann væri með hrossunum uppi á Seli. Hann var ekki seldur á uppboðinu.“ „Hvers vegna máttum við ekki búa við þessar skepn- ur, þar sem ég er þó dóttir mömmu og pabba, sem áttu þetta allt saman?“ spurði Rósa. „Móðir þín á aðra dóttur, góða mín. Þess vegna gaztu ekki fengið nema svo lítið af eignunum,11 sagði Kristjdn óþolinmóður, eins og kennari við skilningslítinn nem- anda. „En hún hefur nú líklega heldur lítið með kýr, kindur og hesta að gera, þar sem hún býr í fínu kaup- staðarhúsi,“ sagði Rósa. „En hún getur vel þegið peningana, sem fengizt hafa fyrir það,“ sagði Kristján. 174 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.