Heima er bezt - 01.12.1958, Síða 10
spýtur, naglapakki, pakki með sauðfjárbaði, tvær eða
þrjár taupjötlur og teygjubönd, kaffiskjóðan og nokk-
ur pund af strásykri og síðan ekki söguna meir.
Rúsínur höfðu ekki fengizt, sveskjur því síður, já,
það hafði verið með fátæklegra móti í kaupstaðnum,
segir faðir hans, — ekki hægt að fá svo mikið sem
halgdabrauðsbita að stinga upp í krakka.
Meðan á þessu stóð, hefur hann staðið í orðlausri
eftirvæntingu.
Loks hefur allt verið tínt fram, en ekki hefur griffill-
inn komið í ljós.
Nú stenzt hann ekki lengur mátið. Aður en hann
veit af, hefur hann varpað fram þeirri spurningu, sem
brunnið hefur á vörum hans, undanfarin dægur. —
Griffillinn — mundirðu ekki eftir að kaupa griffilinn.
Faðir hans lítur upp, seinlega. — Já, það var rétt. Þú
varst að biðja mig að kaupa fyrir þig griffil, nei, —
grifflar fengust ekki.
Grifflar fengust ekki. Honum bregður hastarlega.
Hafði hann heyrt rétt.
Já, auðvitað hafði hann heyrt rétt. Faðir hans gerir
ekki svona að gamni sínu. Grifflar fengust ekki. Hann
verður gripinn ónotalegri, þrúgandi tómleikakennd.
Honum verður innanbrjósts líkt og manni, sem með
erfiðismunum hefur brotizt langa, örðuga leið, en farið
villur vegar og komið aftur á sína eigin slóð.
— Héma er peningurinn þinn, segir faðir hans og
réttir honum tuttuguogfimmeyringinn.
Hann tekur við peningnum, tómlátlega og stingur
honum í vasa sinn, án þess að líta á hann og hefur eng-
in orð um. Það er ekki siður hér á bæ, að fjargviðrast
útaf smámunum.
Síðan fer fólk að taka á sig náðir og brátt eru allir í
baðstofunni sofnaðir, utan lítill drengur, sem brynnir
músum, hljóðlega, stundarkorn, áður en hann sofnar.
Nú stendur hann hér, miðaldra maður, á þessari
stund og hugleiðir þessa fátæklegu bernskuminningu,
sem líklega hefur verið upphaf þeirrar reynslu, sem
hefur opnað augu hans fyrir fánýti peninga og kennt
honum að óskhyggjan er veikur grundvöllur að byggja
á og eftirvæntingin tvíeggjað sverð, sem varast skyldi.
Hann minnist þess, hvernig öll bernska hans leið, án
þess hann eignaðist nokkurn tíma nokkuð af því, sem
hann langaði í og dreymdi um að eignast.
Þama í búðarglugganum liggur fjöldi vasahnífa, af
margs konar stærðum og gerðum. Það minnir hann á
að það var lengi óskadraumur hans, að eignast vasahníf,
sem hann hafði séð á mynd í útlendum verðlista.
Þetta var enginn venjulegur kuti. Hann var með skel-
plötuskafti, tvíblaðaður með tappatogara, al, dósahníf,
þjöl og sög.
Honum fannst þá að fögnuðurinn yfir slíkum kjör-
grip, hlyti að endast ævilangt. En draumurinn um þenn-
an glæsilega grip var vitanlega allt of stórfenglegur til
þess að geta orðið að veruleika.
Þannig var það lengi fram eftir aldri, að bilið milli
óskanna og raunveruleikans, virtist óræð farlægð.
Með árum og aldri hafði hann að vísu sigrazt á þess-
ari fjarlægð, en jafnótt hafði verðgildi hinna þráðu
djásna fallið að sama skapi og fjarlægðin styttist. Hann
hafði fljótlega brynjazt gegn löngun í fánýta hluti, og
jafnframt glatað hæfileikanum til að gleðjast við smá-
muni.
En einmitt vegna þess, var sem hann fyndi til ein-
hvers konar tómleikakenndar, eins og hann hefði týnt
úr eigu sinni einhverju verðmæti, sem aldrei var hægt
að eignast aftur.
Áður en hann veit af, hefur hann gengið inn í verzl-
unina og staðnæmst við afgreiðsluborðið.
— Eigið þið ekki til fallegan vasahníf, með skel-
plötuskafti, tvíblaðaðan með tappatogara, al, dósahníf,
þjöl og sög, spyr'hann afgreiðslustúlkuna.
Stúlkan kemur með nokkra vasahnífa og sýnir hon-
um.
— Hérna er einn, með skelplötuskafti, al og dósa-
hníf.
— Já, þetta lítur út fvrir að vera góður hnífur. En
eigið þið engan með þjöl og sög að auki.
— Nei, því miður, þannig vasahnífa höfum við ekki
fengið.
— Jæja, það er þá réttast að ég biðji um einn af þess-
um. Nei, það er óþarfi að pakka hann inn. Ég læt hann
bara svona í vasa minn. Þakka yður fyrir.
Hann greiðir andvirðið og hverfur út úr búðinni.
Enn streymir regnið úr loftinu og fólkið eftir göt-
unni.
Hann heldur rakleitt heimleiðis og lítur hvorki til
hægri eða vinstri.
Hann nemur ekki staðar, fyrr en hann er kominn
heim í herbergið sitt.
Þar sezt hann í vandaðan hægindastól, undir glæsi-
legum standlampa.
Síðan dregur hann hinn nýfengna hníf upp úr vasa
sínum, handleikur hann og athugar á ýmsa vegu.
Víst var þetta snotur gripur og eigulegur.
Hann leitast við að hverfa til baka, um langt árabil
og skoða þennan grip með augum lítils drengs, sem
hefur séð ósk sína rætast.
Hann virðir nákvæmlega fyrir sér hin margvíslegu
litbrigði, sem myndast í skaftinu, eftir því hvernig ljós-
birtan fellur á það. Hann opnar bæði blöðin, sitt á hvað,
stafar verksmiðjuheitið á stærra blaðinu og speglar sig
og ýmsa hluti í gljáandi fleti stálsins.
Já, loksins — loksins, hafði hann eingazt þennan lang-
þráða kjörgrip.
Hví skyldi hann ekki, af heilum huga, fagna svo
stórum sigri.
Hann hafði séð einn æskudraum sinn rætast bókstaf-
lega.
Og þó — þjölina og sögina vantaði að vísu, því varð
ekki neitað.
En glæstustu draumar æskunnar rættust heldur aldrei
bókstaflega.
41 2 Heima er bezt