Heima er bezt - 01.12.1958, Blaðsíða 11

Heima er bezt - 01.12.1958, Blaðsíða 11
Björn jóhannsson, Vopnafir&i: SÖGULEGT FERÐALAG Veturinn 1916—17 var ég kennari við barnaskólann á Norðfirði. Heimili mitt var þó í Hjarðarhaga á Jökul- dal, og var fjölskylda mín þar. Það var rétt fyrir jólin þann vetur, að mér datt í hug að bregða mér heim í jólaleyfinu. Var það þó hæg- ara sagt en gert, þar sem leiðin frá Norðfirði til Héraðs var torsótt gangandi manni um þetta leyti árs, bæði færðar og veðurs vegna. Leit því svo út um tíma, sem ekkert yrði úr ferðalaginu. Var kominn 21. desember, án þess að ég sæi nokkra leið til að komast þetta. Þá um kvöldið er mér sagt, að næsta dag sé von á Goðafossi að norðan, muni hann koma við á Reyðar- firði og sé þá vegur fyrir mig að ná í Eskifjarðarpóst, sem eigi að fara upp yfir Fagradal á Þorláksmessu, 23. desember. Þóttu mér þetta góð tíðindi og ákvað strax að grípa þetta tækifæri. Goðafoss kom daginn eftir, eins og til stóð, og tók ég far með honum til Reyðarfjarðar. Þegar þangað kom, fór ég strax að finna eina manninn, sem ég vissi til að4 ég þekkti þar, en það var Sigurður Þorsteinsson frá Sturluflöt í Fljótsdal. Hann var þá kennari í Reyðar- firði, og vorum' við skólabræður. Eg var svo heppinn, að hann gat lánað mér skíði til fararinnar, því að án slíkra farartækja var tilgangslaust að leggja upp. Annað hvort hef ég ekki haft hugsun á að hafa með mér skíði frá Norðfirði, eða þá að ég hef ekki getað fengið þau, sem mér finnst þó frekar ólíklegt. Skíði þau, sem Sigurður lánaði mér, voru frekar veigalítil að mér fannst, en létt og lipur. Var ég hinn ánægðasti og þóttist nú fær í flestan sjó. Ekki stóð ég lengi við á Reyðarfirði, heldur fór ég inn að Áreyjum og gisti þar. Þekkti ég fólkið þar lítilsháttar frá því að ég var í vegavinnu á Þórdals- heiði, sumarið 1914. Ætlun mín var að fara þaðan í veg fyrir póstinn, er hann kæmi að utan. Daginn eftir var líkt veður og undanfarna daga, logn og töluverð snjókoma. Rekið hafði niður mikinn snjó, og mátti lausamjöllin teljast með fádæmum. Komu því skíðin í góðar þarfir. Um klukkan 9 sást til ferða póstsins og fylgdarmanns hans. Hélt ég þá af stað í veg fyrir þá og hitti þá undir svokölluðu Grænafelli. Pósturinn var Kristján Jónsson frá Eskifirði, alkunn- ur dugnaðarmaður í öllum ferðalögum, og hafði lengi haft póstferðir milli Eskifjarðar og Hornafjarðar. Ekki man ég hvað fylgdarmaður hans hét. Báðir höfðu þeir allþunga bagga á baki. Heldur miðaði okkur seint, enda óx lausasnjórinn eftir því sem ofar dró. Skíðin sukku svo í, að við þurft- um oft að vaða mjöllina í hné. Var slíkt erfitt, sérstak- lega fyrir óvana, eins og mig og mína líka. Sá Kristján fram á, að með líku áframhaldi myndum við ekki gera betur en að komast í sæluhúsið, sem er á miðjum dalnum. Við fylgdum símalínunni og gengum hver á eftir öðrum. Skiptumst við á um að vera á undan, því að það var erfiðast. Þar sem ég hafði engan bagga, hefði mátt ætla að það kæmi á mig að fara á undan. En svo varð þó ekki. Ég varð fljótt uppgefinn, og það svo, að seinast treysti ég mér ekki til að vera á undan, nema sem svaraði 100 metrum í einu. Aftur á móti var Krist- ján duglegastur, og kom því mest í hans hlut að hafa forustuna. En allt tekur enda. Um síðir rákumst við á Sælu- húsið, og munu allir hafa orðið fegnir. I húsinu var eldavél og eldiviður, eldspýtur og kerti. Varð því bráð- lega bjart og notalegt inni. Gátum við þurrkað föt okkar, sem orðin voru blaut úr snjónum. Nú tóku þeir Kristján og fylgdarmaður hans upp nesti sitt, og kom þá í ljós, að ég var sá eini, sem ekkert nesti hafði. Ég hafði aðeins með mér dálítið af súkkulaði, minnugur þess, að Ögmundur Sigurðsson, skólastjóri, sagði okkur eitt sinn, nemendum sínum, að gott væri að hafa það með sér á ferðalögum. Þegar Kristján sá, að ég hafði ekkert nesti, bauð hann mér strax að borða með sér, og sem ég auðvitað þáði með þökkum. Ekki var þó frítt við að hann henti dálítið gaman að ferðamennsku minni, og má segja, að full ástæða hafi verið til þess. Allt var það þó græskulaust, og var þetta upphaf að kunningsskap okkar, sem staðið hefur fram á þennan dag. Morguninn eftir, aðfangadag jóla, vorum við snemma á fótum, enda ekki hægt að segja, að ofvel hafi farið um okkur um nóttina. Eftir að hafa fengið okkur matar- bita, lögðum við af stað, og mun þá klukkan hafa verið um 5. Var þá hætt að snjóa og komið bjart veður. Færðin var illskárri en daginn áður, en mestu munaði þó að nú fór birtan í hönd. Upp úr hádegi, eða um kl. 1, vorum við komnir á móts við Dalhús, og áttum með sama áframhaldi að geta komist í Egilsstaði fyrir rökkur. En atvikin höguðu því svo til, að sú áætlun breyttist, hvað mig snerti, því að rétt í þessu varð ég fyrir því óhappi, að annað skíðið Heima er bezt 413

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.