Heima er bezt - 01.12.1958, Page 27
að drekka kaffið og heldur áfram að spjalla við Ástu.
Hann segir:
— Það kemur hingað á hverju sumri, þetta kaup-
mannsdót, og setur hér allt á annan endann. Valur er
þá upptekinn í útreiðartúrum með því dag eftir dag,
því alltaf þarf það að skoða sig um í sveitinni, hvað oft
sem það kemur.
Ásta lítur á Svein, og köldu, sársaukafullu brosi
bregður fyrir á andliti hennar. Hún segir svo:
— Varð Valur ekki glaður við fréttina um gestakom-
una hingað?
— Ekki sá ég nein merki þess, að fréttin sú gleddi
hann sérstaklega. Mér sýnist hann alltaf vera sama prúð-
mennið, pilturinn sá. En Hildur var auðsjáanlega glöð
yfir gestakomunni. Hún er líka svo fjarska hrifin af
þessu fólki. Hún vonast kannske eftir tengdum við það.
Að minnsta kosti lætur hún ósköpin öll með þessa Sísí
kaupmannsdóttur. Ég heyrði hana einu sinni vera að
segja Elínu frá því, að þessi Sísí væri hámenntuð og
margbúin að sigla út í lönd, ég held helzt í kringum
allan hnöttinn, eða því sem næst.
— Það væri þá óskandi, að frú Hildur fengi hana
fyrir tengdadóttur, fyrst ættir og auður, menntun og
metorð eru á svona svipuðu stigi hjá Val og henni.
— Já, ætli það verði ekki líka reynt að stuðla að því
frá báðum hliðum. Kaupmannshjónin eru auðsjáanlega
mjög hrifin af Val, sem mig undrar ekki, en hvað
, honum sjálfum líður í þeim efnum, er mér ókunnugt
um. Þórður fer nú bráðum að segja af sér embættinu,
og þá tekur Valur við þessu öllu saman. Og Hildur
mín kann nú líklega betur við jafnræði, þegar einka-
sonurinn velur konu í sætið hennar, ef ég þekki hana
rétt.
Sveinn hefir nú lokið úr bollanum, og Ásta rennir
aftur í hann handa honum. En hönd hennar er óvenju-
lega óstyrk, og blóðið hverfur skyndilega úr kinnum
hennar. Hún sezt á stól við eldhúsborðið og reynir að
sigrast á þessum óþægindum, sem ásækja hana, en það
verður henni um megn: Allt verður þokukennt og óljóst
umhverfis hana, og máttvana höfuð hennar hallast fram
á eldhúsborðið, og hún fellur í yfirlið.
Sveini verður skyndilega litið á Ástu og bregður
ónotalega við. Hvað gengur að stúlkunni? Hann sprett-
ur upp af stólnum og þýtur fram úr eldhúsinu til þess
að ná í hjálp. í forstofunni mætir hann Þórði sýslu-
manni og Val, og Sveinn segir í flýti:
— Valur, komdu með mér til aðstoðar, Ásta er fall-
in í öngvit inni í eldhúsinu. — Valur lítur snöggt og
spyrjandi á Svein og spyr: — Hvað hefir komið fyrir
hana?
— Ég veit enga orsök til þess, svarar Sveinn.
Valur spyr ekki um fleira, hann þýtur eins og örskot
inn í eldhúsið og nemur staðar hjá Ástu. Með sterkum
örmum lyftir hann henni upp í faðm sinn og þrýstir
henni mjúldega að sér. í annað sinn hvílir hún ósjálf-
bjarga við brjóst hans, og nú meðvitundarlaus. Hann
sezt með hana á stólinn, þar sem hún sat áður, og hjartað
byltist í barmi hans heitt og spyrjandi. Hvað hefir
komið fyrir stúlkuna, sem hann ætlar alltaf að vemda?
Sveinn kemur aftur inn í eldhúsið á eftir Val og nær
í kalt vatn fyrir hann. Svo hjálpast þeir að þvx að vekja
Ástu til meðvitundar á ný. Þórður sýslumaður hefir
gengið inn að eldhússdyrunum og staðnæmzt þar. Hann
sér að hans muni engin hjálpar þörf þar inni, og fer
því ekki lengra, en stendur kyrr um stund og fylgist
af athygli með því, sem fram fer inni í eldhúsinu. Frítt
og barnslegt stúlkuandlitið, sem hvílir náfölt við brjóst
Vals sonar hans, og bærir ekki á sér, veltur hjá honum
hlýjar og viðkvæmar tilfinningar, sem gagntaka huga
hans og gera hann ldökkvan.
Sýslumanninum er nú nokkurnveginn kunnugt um
hagi Ástu, en fátækt og umkomuleysi eru engin lýti
að hans dómi, heldur aðeins köld og miskunnarlaus
örlög, sem svo margar mannperlur hljóta í vöggugjöf,
og fá jafnvel aldrei umflúið, og þessi unga stúlka er
ein þeirra. Hún hefir einu sinni vakið hjá honum traust
og virðingu, og því verður ekki breytt.
Þórður sýslumaður fylgist með hverri hreyfingu son-
ar síns, og honum er það fyllilega ljóst, hver sá aflgjafi
er, sem stjórnar höndum hans á þessari stundu. Hlýtt
og góðmannlegt bros líður yfir andlit sýslumannsins
og endurspeglar göfugt hugarfar hans. Ekki skal hann
á neinn hátt varpa skugga á hamingju sonar síns. Valur
er fullkomlega frjáls gerða sinna fyrir honum.
Ásta bærir nú varirnar og opnar hálflukt augun. Hún
er að vakna til lífsins á ný. Valur lítur til föður síns,
og augu feðganna mætast. Þeir brosa báðir, og bros
þeirra hvísla í þögninni hinu helga leyndarmáli, sem
engin orð hafa sagt ennþá. En þeir skilja hvor annan.
(Framhald).
* • VILLI ••••••
\