Heima er bezt - 01.01.1959, Page 14
rænum rótum runnin, tóku forfeður vorir þegar í heiðni
upp allmörg nöfn af keltneskum stofni, enda komu
hingað á landnámstíð margir menn með keltneskum
nöfnum. iMiklu minna ber þó á keltneskum nöfnum í
fornritum vorum en ætla mætti eftir þeim fjölda land-
námsmanna, er kom vestan um haf með skylduliði sínu,
þjónustufólki og þrælum. Astæðan er vafalaust sú, að
Keltarnir voru undirstétt í þjóðfélaginu og norræn
tunga það mál, sem allir töluðu. Nöfn eins og Dufan,
Dufþakur, Kalman, Kormákur og fleiri hurfu úr sög-
unni, en örfá héldu velli, eftir að hafa tekið á sig nor-
rænan svip: Kjartan, Koðran, Njáll.
III.
Þegar er kristin trú tók að festa hér rætur, bárust
hingað mörg biblíu- og dýrlinganöfn. Urðu sum þeirra
brátt í hópi hinna algengustu nafna. Þau mannanöfn,
sem komust hér fyrst í tízku með hinum kristna sið,
voru heiti sumra postulanna og nokkurra annarra helgra
manna, einkum píslarvotta frá fyrstu öldum kristninn-
ar. Sum þessara nafna hafa samlagazt íslenzkunni furðu
vel. Eru þar í hópi ýmis viðkunnanleg nöfn, sem engin
ástæða er til að amast við, séu þau notuð í hófi, enda
hafa þau fyrir löngu unnið sér hér fullan þegnrétt og
eru orðin svo gömul og gróin í málinu, að þeim verður
fráleitt útrýmt. Má í því sambandi benda á nöfn eins
og Anna, Andrés, Jón, Margrét, Pétur, Páll og mörg
fleiri. Hið sama má segja um allmörg önnur mannanöfn,
sem eru af erlendum rótum runnin. Séu þau þjál, hljóm-
falleg og fylgi íslenzkum beygingarreglum, geta þau
farið vel í málinu, og virðist þá ástæðulaust að amast við
þeim, þótt uppruni þeirra sé ekki norrænn.
Því verður á hinn bóginn ekki neitað, að hingað bár-
ust með kristninni ýmis biblíu- og dýrlinganöfn, sem
ekki urðu samlöguð íslenzkri tungu, en báru öll merki
hins erlenda uppruna síns. Má í því sambandi benda á
nöfn eins og Laurentzius, Valentinus, Vincentius, Elísa-
beth og Brigida, sem öll koma fyrir hér á landi á 13.
öld. Hafa biblíunöfnin jafnan síðan verið býsna áleitin,
þótt ekki keyri í því efni um þverbak fyrr en á síðari
hluta 18. aldar og á 19. öld. Þá virðist sú skoðun hafa
verið algeng, að öll mannanöfn, sem fyrir kæmu í heil-
agri ritningu væru góð og gild á íslandi, og það bæri
vott um guðhræðslu og ást á hinni helgu bók, að skíra
börn þessum nöfnum. Menn gættu þess ekki, að hversu
viðeigandi sem þessi nöfn voru í sínu rétta umhverfi,
voru þau engu viðkunnanlegri eða samboðnari íslenzkri
tungu og þjóðerni en hver önnur óþjóðleg heiti, til að
mynda erlend nöfn úr rímum og riddarasögum.
Lengi fram eftir öldum ríkti milcil festa um nafngiftir
hér á landi. Þrátt fyrir nokkra ásókn biblíu- og dýrlinga-
nafna, stóðu íslenzku heitin föstum fótum og voru í
yfirgnæfandi meirihluta. Sú regla var algengust, að börn
voru heitin eftir nánum ættmennum. Sé athugað mann-
talið frá 1703 kemur í Ijós, að hin fornu nöfn eru þá enn
nálega ein um hituna. Maður getur flett þar blaðsíðu
eftir blaðsíðu, án þess að rekast á andhælislegt nafn eða
eiginlegt nafnskrípi. Nöfn finnast þar að vísu, sem ég
býst við að ekki þættu nú öllurri viðkunnanleg, enda er
smekkurinn misjafn og breytist, er tímar líða. En ótrú-
lega fá eru þau mannanöfn um aldamótin 1700, sem
ekki hafa á sér íslenzkan blæ. Og þótt leitað sé með
logandi ljósi, munu ekki finnast í manntali þessu hinar
fáránlegu nafnasamsetningar, sem síðar gjósa upp eins
og skæð farsótt og verða einhver Ijótasti kapítulinn í
nafngiftasögu 19. aldar. Frá manntalinu 1703 og til
manntalsins 1855 er að vísu hálfrar annarrar aldar stökk,
enda er munurinn á mannanöfnum furðulega mikill og
átakanlegur. Arið 1855 má segja, að hvers konar ónefni
vaði uppi. Þar getur að líta erlend nöfn úr ýmsum átt-
um, sum tekin úr riddarasögum og rímum, biblíunöfn,
latnesk nöfn og grísk. Mörg dönsk nöfn hafa þá einnig
náð hér fótfestu. Þegar hér er komið sögu, vaða einnig'
uppi afkáraleg kvennanöfn, mynduð af karlanöfnum
með hinum fáránlegustu endingum. Út yfir taka þó
alls konar nöfn, sett saman úr tveimur stofnum, einatt
af ótrúlegu smekkleysi. Er annar liður orðsins oft af er-
lendum uppruna en hinn norrænn, og fer jafnan mjög
illa á því.
Lauslegar athuganir, sem ég hef gert á kirkjubókum
og manntölum benda eindregið í þá átt, að alda srnekk-
leysis og spillingar í nafngiftum hafi tekið að rísa hér á
landi á fyrri hluta 18. aldar, fari síðan vaxandi á 19. öld,
en hafi náð hámarki nokkru fyrir síðustu aldamót. Síðan
hygg ég, að heldur taki að bregða til batnaðar aftur,
þótt batinn sé að vísu hægur og engan veginn alger enn.
Er mér ekki grunlaust um, að á þessari öld gæti jafnvel
nýrra sjúkdómseinkenna, og á ég þar meðal annars við
hinn mikla fjölda hvers konar fordildarnafna, sem mjög
hafa verið i tízku um skeið, svo að ekki sé minnzt á
gælunafnafaraldur síðari ára. En þar sem ég hef því
miður ekki aðgang að neinum handhægum skrám um
íslenzk mannanöfn eftir 1910, fer ég ekki að svo stöddu
lengra út í þá sálma. Væru hin nýju nöfn þó girnilegt
athugunarefni, en það mun bíða að sinni.
IV-
Ég hef reynt að gera mér þess nokkra grein, hverjar
séu meginástæðurnar til nafnspillingar þeirrar, sem hér
átti sér stað á 18. og 19. öld. Orsakirnar eru vafalaust
margar og sumar ef til vill ekki auðraktar. Ein helzta
undirrót þessarar málspillingar hygg ég þó að sé danskr-
ar ættar. Eins og kunnugt er, dvaldist hér á landi á 18.
og 19. öld fjöldi danskra manna, og ýmsir þeirra gerðust
íslenzkir þegnar. Voru það bæði kaupmenn og aðrir
verzlunarmenn, iðnaðarmenn og embættismenn. Þá
höfðu og allir þeir íslendingar, er háskólamenntunar
nutu, náin kynni af dönskum siðum og danskri menn-
ingu. Varð það um skeið hin mesta tízka og þótti „fínt“
á Islandi, einkum í kaupstöðum, að semja sig að háttum
Dana í sem flestum greinum. Hefur það viðhorf eflaust
haft ærin áhrif á ýmsa foreldra, er þeir völdu nöfn
börnum sínum. Hitt er í sjálfu sér ekkert undrunarefni,
þótt danskættaðir menn, er hingað höfðu flutzt, héldu
nafnvenjum föðurlands síns og ættar, enda gerðu þeir
það flestir.
10 Heima er bezt