Heima er bezt - 01.03.1959, Page 28
GUÐRÚN FRÁ LUNDI
FIMMTÁNDI HLUTI
„Ég var nú að hugsa um hlýindin en ekki fínheitin,“
sagði Rósa. „Ég skammast mín alveg ofan í hrúgu, þegar
ég sé hvað þú ert fín.“
„Ég var að koma úr kirkju. Það er nú kannske annað
en að vera á sjó á opnum báti,“ sagði Karen. „Náttúr-
lega er ég alltaf á peysufötum hversdags. En blessuð,
komdu þér nú inn í hlýjuna.“
Rósa litaðist um í stofunni. — „En hvað þetta er
skemmtileg stofa, sem þú hefur héma. Og þarna hef-
urðu fallega stofuskápinn, sem þú áttir í stofunni á
Hofi. Ég þekki hann, þó langt sé síðan ég sá hann. Og
þarna er skrifborðið mannsins þíns sáluga. Þú hefur
flutt það allt með þér,“ sagði hún svo.
„Auðvitað flutti ég það með mér. Ekki kunni ég við
að fara að selja það á uppboði,11 svaraði nú Karen hálf-
stuttaralega, „og því síður að skilja það eftir.“
Rósa kinkaði kolli til samþykkis, niðursokkin í að
athuga myndirnar á skrifborðinu. „Þarna hefurðu Sig-
rúnu og hennar mann og drengina. Prýðilega laglegir
karlmenn! Og þarna er Rósa mín blessuð. Það er sama
myndin og hún gaf mér, þegar hún kom suður til mín
síðast. Hún var tekin seinni veturinn, sem hún var á
skólanum. En hvar er myndin af manninum hennar og
syni þeirra, honum Jóni litla? Ég trúi ekki öðra en að
hann sé fallegur eins og mamma hans.“
„Það er nú víst lítið gert að því að taka myndir í
sveitinni," gegndi Karen framan úr eldhúsinu. „Það
stendur nú svona vel á fyrir mér, að hér bíður heit
kjötsúpa eftir mér, svo að við getum nú hresst okkur
á henni.“
„Það gat ekki verið æskilegra," svaraði Rósa. Hún
sat með myndina af nöfnu sinni. „En hvað hún er falleg
þarna. Mér finnst hún vera komin til mín og horfa á
mig brosandi. Mikið varð ég hissa, þegar hún gaf mér
þessa mynd og trúði mér fyrir því um leið, að hún væri
trúlofuð, þetta blessað barn, og ætlaði að fara að búa
þá um vorið. — Mamma hjálpar mér, meðan ég er að
læra, sagði hún.“
„Já,“ gegndi Karen framan úr eldhúsinu. „Hún hef-
ur líklega byggt vonir sínar á því, blessað bamið, en
þá þurfti heilsan að bila hjá mér, svo það þýddi ekki
að ætla sér að stússa við búskap lengur.“
Hún var orðin eitthvað svo óstyrk, eins og hún væri
með hitaseyðing. Hún var næstum því skjálfhent, og
hjartað var farið að slá óvanalega hratt í barmi hennar.
Hún óskaði þess, að Rósa fengi sér eitthvert annað um-
talsefni en þetta.
Karen breiddi dúk á borðið í stofunni. „Það var þó
reglulega gaman að þurfa ekki að borða ein í þetta
sinn,“ sagði hún glaðlega. „Ég fæ alltaf saltkjöt að
norðan á haustin. Það er gamall nágranni, sem hugsar
um það fyrir mig.“
„Ójá, þú hefur það nú heldur rólegra héma, en á
meðan þú stjórnaðir stóru búi, en það hlýtur að vera
einmanalegt, nema þú hafir skemmtilegt sambýlisfólk.“
„Já, ég hef ágætt fólk hér í kringum mig,“ svaraði
Karen.
Systurnar settust að borðinu.
„Það var lán að fá þessa indælu súpu,“ sagði Rósa.
„Ósköp hefur þér brugðið við, að hugsa um svona lítil
húsakynni eða stóra bæinn á Hofi,“ hélt hún áfram.
„Já, mér brá við margt. Sumt til þess betra, en þó
fleira á hinn veginn. Svo skulum við ekki tala meira
um það liðna. Segðu mér eitthvað af þínum högum,“
sagði Karen.
„Hvað skyldi ég hafa að segja af mér og mínum hög-
um. Það er heldur lítil tilbreyting á heimilinu því,“
sagði Rósa. „Feðgarnir stunda sjóinn allan ársins hring,
eins og þeir hafa alltaf gert. Ég hef vinnukonuna enn-
þá, sem réðst til mín, þegar ég fór að búa, en það koma
nýir hásetar og hlutarkonur. Það er öll tilbreytingin á
því heimili."
„Hann hugsar lítið um kvenfólkið, hann sonur þinn,“
sagði Karen. „Hvemig ætli þér þætti að eignast tengda-
dóttur?“
„Það er nú það, sem mig langar til, að fara að hafa
ömmubörnin í kringum mig. Ég býst við, að þau lífg-
uðu talsvert upp heimilið,11 sagði Rósa brosandi.
„Þú heldur það,“ sagði Karen.
Svo kom löng þögn, sem maddaman rauf með því að
fara að dásama veðrið.
104 Heima er bezt