Heima er bezt - 01.02.1961, Blaðsíða 9
þess vegna heldur tafið ferðina. Þó revndi ég að harka
af mér, en kvaldist hastarlega af þessum sökum.
Markarfljót reyndist sæmilegt yfirferðar, þó að sum-
ir álar þess væru nokkuð vatnsmiklir. Vestan fljótsins
eru nokkrir bæir, sem nefnast Hólmabæir og tilheyra
Yestur-Eyjafjallahreppi. Við skiptum okkur á bæi
þessa, og fékk ég náttstað í Steinmóðarbæ. Mikið varð
ég feginn að njóta hvíldar og hvíla í góðu rúmi, enda
svaf ég vel og nær því í einum dúr til morguns. Vakn-
aði ég þá vel hress og sem nýr maður, nema hvað læri
mín og fótleggir voru næsta aumir viðkomu vegna af-
rifanna.
Brátt voru allir ferðalangarnir þarna saman komnir
og ferðinni síðan haldið áfram, eftir að við höfðum
kvatt heimilisfólkið í Steinmóðarbæ og þakkað' vel
veittar viðtökur í hvívetna. Ferðin vfir Álana og Af-
fallið gekk vel, og voru báðar árnar all-góðum ísi lagð-
ar. Þegar við komum að Hemlu var okkur sagt, að
Þverá væri alls ekki væð og naumast ferjufær. Þar kom
babb í bátinn.
Við frétt þessa var ákveðið að fara út með Bakkabæj-
um, ef ske kynni að einhvers staðar mætti takast að
komast yfir þessa erfiðu torfæru. Þverá var uppbólg-
in svo mjög, að hún hafði flætt yfir alla bakka sína.
Voru þeir ein íshella og sá varla dökkan díl, nema
hvað bæir og gripahús stóðu upp úr eins og smá eyjar
hér og hvar. Á ýmsum stöðum var leitazt við að finna
vað yfir ána en allt reyndist árangurslaust. Loks kom-
umst við þó yfir ána á mjög veikum ís, þar sem Þverá
og báðar Rangárnar eru fallnar í eitt. Þóttumst við nú
heppnir að hafa öll þessi vötn að baki og hröðuðum
ferð okkar upp með Ytri-Rangá á veginn hjá Ægissíðu.
Bar svo ekkert til tíðinda og gekk ferðin mjög greið-
lega allt að' Tryggvaskála við Ölfusárbrú, sem var
greiðasölu- og gististaður. iMan ég ógjörla náttstaði okk-
ar frá Markarfljóti að Tryggvaskála, en þar var síðasti
gististaður okkar. Morguninn eftir héldu félagar mínir
allir áfram ferðinni áleiðis til Reykjavíkur en ég slóst í
för með tveim Árnesingum, sem voru á leið til Eyrar-
bakka. Þeir fylgdu mér svo að húsdyrum á Litla-
Hrauni, þar sem ég átti að vera yfir vertíðina. Ég var
kominn á leiðarenda.
Sem fyrr getur bjó þá á Litla-Hrauni Gissur Bjarna-
son, söðlasmiður. Elann var ættaður frá Steinsmýri í
Meðallandi. Kona hans hét Sigríður Sveinsdóttir. Börn
þeirra voru:
Bjarni, hann var ekki heima þessa vertíð, Þorvaldur,
Skúli, Sveinn, Kristín og Ingibjörg.
Þar var líka á heimilinu vinnu- eða lausamaður, er
Jón hét og var Erlendsson. Hann var formaður á stór-
um sexæring, sem róið var úr Eyrarbakkavörum niður
undan Stóru-Háeyri eða mjög nálægt því.
Svo hófst vertíðin, og átti ég að beita á bát Jóns
Erlendssonar ásamt tveim sonum húsbænda minna. Ég
kunni ekki neitt til þessa verks og gekk þess vegna
fremur illa að vinna það, en reyndi að gera mitt bezta
og vanda mig vel. Mér leiddist allmikið á Litla-Hrauni.
Gömul mynd frá Vík i Mýrdal.
Heimilið var ekki skemmtilegt og vinnufélagarnir ekki
notalegir í framkomu gagnvart mér. Þóttust þeir að
vonum talsvert upp yfir mig hafnir, enda kom það
greinilega fram.
Einn morgun þegar við strákarnir vorum búnir að
koma línunni niður til skips og allt var tilbúið að hrinda
skipinu á flot, sagði formaðurinn við mig: „Þú skalt
koma með okkur á sjóinn, Einar.“
Mig hafði lengi langað til þess að koma á sjóinn og
taka þátt í þeim frægu störfum, en nú . . . nú var ég
vitanlega alveg óviðbúinn þessari skipan. Ekki datt mér
samt í hug að mótmæla skipan formannsins, þorði það
alls ekki, þó ég væri engan veginn búinn þannig, held-
ur aðeins klæddur venjulegum fötum með húfu á höfð-
inu og þvælda vettlinga á höndunum. Ég fór því upp
í skipið, þegar það flaut og settist undir ár þar sem
mér var sagt. Það var í skutnum. Þar höfðu nvlega
verið sett aukaræði, svo að þá voru fjórar árar á borð.
Aldrei fyrr hafði ég lagt út ár og gekk þess vegna
illa að halda róðrartaktinum, áralaginu, við hina ræð-
arana. Nokkrum sinnum hlaut ég högg af hendi for-
mannsins, þegar að ég fór út af laginu, en þó oftar sár
skammaryrði. Auðvitað sagði ég ekki neitt, en ég
heyrði suma skipsmennina taka svari mínu og segja,
að það væri ekki von á betri róðri hjá mér svona í
fyrsta skipti, sem ég legði út ár.
Það hvessti er á daginn leið, kvika óx og talsvert gaf
á bátinn. Varð ég því fljótt gegnblautur frá hvirfli til
ilja, en reyndi að halda á mér hita með því að róa sem
kröftuglegast. Ekki man ég hvernig fiskaðist þennan dag
en hitt man ég, að mikið varð ég feginn þegar að loks
við komum í land. Þá strax sneri formaðurinn sér að
mér og sagði: „Flýttu þér nú heim og láttu engan sjá
þig á leiðinni." Þessu hlýddi ég tafarlaust og var fljótur
heim, þótt nokkur spölur væri heim að Litla-Hrauni.
Mér var hrollkalt og mjög ónotalegt og kalt var í veðri,
en óskemmdur komst ég heim. Fór ég strax upp í rúm
og hlýnaði furðu fljótt.
Daginn eftir var stormur og ekki fært á sjóinn. Ég
var þá orðinn hress eftir sjóferðina. Um kvöldið fór ég
út á Bakka og í sjóbúðina okkar. Margir þar sögðu, að
formaðurinn hefði drýgt sannarlegan og refsiverðan
Heima er bezt 45