Heima er bezt - 01.01.1962, Blaðsíða 30

Heima er bezt - 01.01.1962, Blaðsíða 30
andi áhrif á Karlsen, að hann dró ýsur hvað eftir annað. Loks reis stúlkan upp, ýtti teppinu til hliðar og renndi sér niður á gólf. Hún var ekki vel stöðug sök- um veltingsins og greip í rekkjuna sér til stuðnings. Ljóst hárið var allt úfið, hún reyndi að laga það með hendinni, en þorði ekki að líta á Karlsen. Hann stóð upp og sagði henni, að nú skyldi hún setjast í stólinn, meðan hann færi og sækti kaffisopa. Stúlkan beið þar til fótatak hans var hljóðnað, þá opnaði hún hurðina og hraðaði sér fram ganginn. Eng- inn var þar sjáanlegur, enda komin nótt, og flestir sofnaðir. Verst var hve henni gekk illa að komast áfram, og um leið og hún opnaði hurðina út á þilfarið, reis það á móti henni, svo að hurðin skall upp að vegg með miklum hávaða. A næsta andartaki var hún kornin út fyrir dyrnar, en þá tók ekki betra við. Nú var eins og brött brekka niður á móti. Stúlkan reyndi að hlaupa, en þá reis þil- farið aftur, og nú skall stefnið niður með háum dynk, og sjórinn gusaðist inn yfir stafninn. Hún saup hveljur og greip eftir einhverju að halda sér í. Þilfarið var flughált. Þarna brölti hún fram og aftur um hríð án þess að komast áfram nokkuð að ráði, og auk þess var hún hætt að átta sig á, hvemig skipið sneri. Allt hring- snerist fyrir augum hennar, og er næsta alda skall á, valt hún eins og hrúga út að öðrum borðstokknum. Þar fórnaði hún Ægi öllu því, er hún gat og átti til, og leið svo hörmulega á meðan, að henni fannst hún varla orka að standa upp aftur. Sjórinn fossaði yfir þilfarið og gegnbleytti föt stúlk- unnar. „Mér er alveg sama,“ hugsaði hún, „bara enda- lokin séu ekki langt undan.“ Þó hélt hún sér dauða- haldi í það sem hendi var næst. Kuldinn var hræðileg- ur, og henni fannst þessar fáu mínútur sem hún var búin að vera úti, ámóta langar og margar klukku- stundir. Karlsen hraðaði sér til baka með kaffið á bakka. Hann horfði undrandi inn í klefann. Stúlkan var farin. Hann greip teppin ofan af hverri rekkjunni eftir aðra, eins og hann byggist við að finna hana þar. Skelfingu lostinn þaut hann upp á þilfarið. Eftir andartak sá hann, hvar hún hékk, og í örfáum skrefum var hann kominn til hennar. Hún hafði kreppt finguma svo fast, að hann varð að taka á til að losa takið. Hann blótaði hraustlega, þegar hann fékk væna sjóskvettu framan í sig. Svo dró hann stúlkuna á fætur og hálfbar hana inn í ganginn og skellti aftur hurðinni. „Hvert varstu að álpast?“ Stúlkan svaraði ekki, heldur stóð með lokuð augun upp við vegginn, gráföl af kulda og rennandi blaut. Karlsen tók um handlegg hennar og leiddi hana af stað. Henni var áreiðanlega ekki vanþörf á að komast í ylinn og úr blautu fötunum. Eftir ofurlitla umhugsun ákvað hann að fara með hana inn í sinn klefa, svo hún væri ekki ein. Reyndar mátti búast við, að sú saga fengi brátt fætur, að hann hefði kvenmann hjá sér í klefanum, því það var ekki vanalegt. Stúlkan lét hann ráða ferðinni án þess að sýna minnsta mótþróa. Alit þrek hennar var nú rokið út í veður og vind. Karlsen tók náttföt upp úr tösku og lagði á rekkjuna, klæddi hana úr jakkanum og blúss- unni, leit svo á síðbuxurnar, setti stút á varirnar og sagði henni svo að fara úr í hvelli og smeygja sér í náttfötin í skyndi. „Ég bíð hér þrjár mínútur fyrir framan hurðina, svo þú verður sannarlega að flýta þér.“ Stúlkan tosaði sér úr blautu fötunum eins fljótt og hún gat og fór í náttfötin. Jakkinn náði niður á hné, og buxurnar fram fyrir tær. Hún horfði flóttalega til dyra. Það er víst betra að hlýða og vera komin úr, þeg- ar hann kæmi inn aftur. Og það stóð heima. Hún var byrjuð að hneppa að sér jakkanum með krókloppnum fingrum, þegar hann kom inn. Karlsen hneppti tölunum sem eftir voru og braut upp á buxnaskálmarnar, síðan lyfti hann henni upp í rekkjuna, vafði teppum vel utan um hana og skrúfaði ofninn á fullan straum. „Nú liggurðu hér grafkyrr, kelli mín,“ sagði hann byrstur, en glettinn svipur hans var ekki í samræmi við röddina, sem hann reyndi að láta hljóma allvalds- mannslega. Karlsen fór nú fram og kom að vörmu spori með heitt kaffi, tók flösku úr skáp og hellti út í bollann. „Drekktu nú,“ sagði hann og lyfti höfði hennar upp með hendinni. Bragðið var hræðilegt, og stúlkan gretti sig og sagð- ist ekki geta drukkið þetta, en Karlsen lét ekki undan. „Þetta er koníak, þér hitnar af því,“ sagði hann og hætti ekki fyrr en bollinn var tómur. Já, víst hitaði það henni. Það streymdi eins og eldur um hana alla, en nú fór sjóveikin að gera vart við sig. Skipið valt töluvert, og í hvert sinn sem það seig nið- ur í öldu dal, fannst henni maginn verða eftir einhvers staðar hátt uppi. Karlsen fór úr rennblautum jakkanum og skyrtunni og fór í þurrt. „Ekki veit ég hvort ég er svona blautur af tárum eða sjó, en salt er það áreiðanlega,“ sagði hann og leit brosandi til stúlkunnar, sem óðar breiddi teppið upp yfir höfuðið án þess að svara. Karlsen lagðist á bekkinn undir rekkjunni, og brátt stigu gráir reykjarstrókar upp í loftið úr pípu hans, en það var meira en stúlkan þoldi. í einu vetfangi var hún komin ofan á gólf og að vaskinum. Karlsen stóð upp og hélt um rennsveitt enni hennar, meðan hún kastaði upp. „Það var ljóta vitleysan af mér að fara að reykja, ég mátti vita, að þú þyldir það ekki.“ Stúlkan skreið aftur upp í rekkjuna, náföl og titr- andi. Hann gaf henni kalt vatn að drekka og þurrkaði framan úr henni með handklæðinu. Dauft bros leið um varir hennar. „Ég er víst engin sjóhetja,“ hvíslaði hún. 26 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.