Heima er bezt - 01.02.1965, Blaðsíða 14

Heima er bezt - 01.02.1965, Blaðsíða 14
gera uppdrætti af öllu gróðurlendi afréttanna, og jafn- framt að meta haglendin eftir gæðum þeirra, svö að unnt yrði að finna og gefa reglur um, hvernig landið mætti nytja, án þess að landspjöll hlytust af, en búfén- aður gæfi þær afurðir, sem á yrði kosið eftir staðhátt- um. Hafizt var handa um kortagerð þessa sunnanlands og að loknu síðasta sumri var lokið að gera uppdrætti af öllum afréttum sunnan jökla austan frá Hverfisfljóti og vestur að Tvídægru að kalla má, og byrjað var á heiðalöndum Húnvetninga og Þingeyinga. Síðan gróðurkortagerð þessi hófst, hef ég verið mæl- ingamönnunum til aðstoðar við ákvörðun gróðurlenda og önnur grasafræðileg viðfangsefni, en annars ráðið að verulegu leyti starfsháttum mínum og starfstíma. Rann- sóknunum er stjórnað af Ingva Þorsteinssyni, en til starfsins eru ráðnir menn á hverju sumri, mest ungir námsmenn. Síðastliðið sumar var hópurinn stærstur, það sem verið hefur, lengstum 7—8 manns. EFST Á ARNARVATNSHÆÐUM. Eitt samfelldasta gróðurlendið í öllu hálendi Islands eru heiðarnar milli Borgarfjarðar og Húnaþings. Kvæði Jónasar Hallgrímssonar um Réttarvatn hefur varpað á . þær einhverju töfragliti, en í raun réttri eru heiðar þess- ar fremur óaðgengilegt land, en margt eiga þær samt í fórum sínum, fjöld fiskiauðugra vatna, dulúðugt hraun- flæmi og umfram allt fjölbreytilega og mikilúðuga fjallasýn, svo að óvíða getur slíka á íslandi. „ískaldur Eiríksjökull veit allt, sem talað er hér“, hann vakir yfir heiðalöndum þessum, fagurskapaður en kuldalegur og yfirgefur ferðamanninn aldrei. Það var fyrirfram ákveðið, að gera gróðurkort af þessum heiðum í sumar. En þar sem við allir vorum þar lítt kunnugir fórum við Ingvi fyrst stutta könn- unarferð inn að Arnarvatni mikla, til þess fremur öðru að sjá, hvernig bezt yrði hagað ferðalögum um svæðið. Bílar leiðangursmanna i Kerlingarfjöllum. Höfðum við gert svo áður á öðrum stöðum og gefizt vel og sparað við það marga vinnudaga. Við erum fjórir saman auk okkar Ingva, þeir Bjöm Kolbeinsson, rafvirki úr Reykjavík, gamall starfsmað- ur flokksins og einn þeirra manna, sem smíðað getur heila vél úr snærisspotta og vírbút, og enn fremur Kristleifur Þorsteinsson, bóndi á Húsafelli, sem fer með okkur til leiðbeiningar, en vill líka vitja nokkurra sil- unganeta, sem hann á uppi í Arnarvatni, og hafði orð- ið að skilja þar eftir sakir veðurs. Áliðið er dags, þegar lagt er af stað frá Húsafelli. Við stönzum í Kalmanstungu, og ekki er um annað að ræða en þiggja hressingu hjá Kristófer bónda. Með- an við sitjum inni í stofunni rifjum við Kristófer upp gömul ævintýr frá þeim tíma, er við ferðuðumst á hjólum um Jótland fyrir nær fjórum áratugum. Margt hefur breytzt á þeim tíma, nema Kristófer er jafn vasldegur, hress í anda og ókvalráður og þá. Það er eins og árin bíti ekkert á hann. Þegar við ökum úr hlaði í Kalmanstungu ber þar nýjan gest að garði. Er þar komin Sigríður sú, sem mest leitin var gerð að sumarið áður. Er hún nú að leggja af stað í nýja fjallaferð, til að freista þess að finna reiðtygi þau, er hún lét eftir á fjöllunum í fyrra, þegar henni sjálfri varð nauðuglega bjargað, eftir margra sólarhringa útilegu. Ekki er nokkur bilbugur á henni, þótt hrakningar hennar ættu enn að vera henni í fersku minni, og tekin sé hún að eldast. Hún ber sig vel á hesti og sveiflar sér léttilega af baki og heilsar Kristófer bónda með rembingskossi, enda eru þau gamlir kunningjar. Ekki verður ofsögum af því sagt, hversu öræfin hafa heillað Sigríði, get ég að vísu vel skilið það, enda þótt ferð hennar hin fyrri hefði mátt vera farin af meiri fyrirhyggju, en er ekki okkur öllum svo farið, að við treystum á tæpasta vaðið, þegar við viljum njóta unaðssemda öræfanna. Okkur gengur greiðlega yfir hálsinn hjá Kalmans- tungu, en á leiðinni norður af honum heyrum við eitt- hvert hrikt í jeppanum, ekki eru þeir vísu bílafræðing- ar þegar á eitt sáttir um, hvað að sé, en brátt kemur í ljós, að brotinn er hjöruliður, og nú er ekki annars úr- kosti en að snúa aftur niður að Húsafelli og fá jeppa Kristleifs. Að þessu varð allmikil töf, og komið var nær miðnætti, þegar lagt var af stað á ný. En hver skyldi harma það, að vera í heiðaferð á næturþeli að nýliðinni Jónsmessu. Nú gekk ferðin tafalaust en seint. Þótt svo sé kallað, að rudd hafi verið bílaslóð norður að Arnarvatni, er hún víðast grýtt og alls staðar seinfarin, þótt Þorvalds- háls taki þar út yfir, en hann er gömul grágrýtisbreiða, sem götuslóðar liggja um troðnir af fótum hesta og manna um aldaraðir. Lítið hefur verið unnt að laga þá til enn, en allt stendur til bóta. En þó að júnínóttin sé mild, þá sækir þó þreytan á ferðamanninn, og fegnir urðum við alhr, þegar komið var norður á Svartarhæð,. og útsýn opnaðist yfir Arnarvatn með flóum sínum, nesjum og víkum, og jeppinn renndi sér niður brekk- 58 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.