Heima er bezt - 01.02.1978, Qupperneq 35
George J. Houser: Saga hestalækninga á (slandi.
Akureyri 1977. Bókatorlag Odds Björnssonar.
Þetta er mikil bók og nýstárleg. Höfundurinn, sem er ameríkani. hefir
lært islensku svo vel, að hann semur og skrifar bókina á íslensku, sem
fátítt er um útlendinga. En það sem merkilegra er, hann hefir safnað
öllu. sem tiltækt var í bókum og handritum um hestasjúkdóma og
lækningar á þeim, svo langt sem seilst varð aftur í tímann og frásagnir ná
til. Þá hefir hann sent spurningar til fjölda manns, sem enn lifa víðsvegar
um land. En auk þessa hefir hann borið hin islensku fræði saman við
erlendar bækur um þessi efni, en þar er geysimargt ritað á þessu sviði.
Þetta er í stuttu máli sagt efniviður bókarinnar, en svo vel og vísindalega
er að unnið að Háskóli íslands hefir sæmt höfundinn doktorsnafnbót
fyrir. og verður vísindariti vart veitt meiri viðurkenning. En nú mætti
ætla. að þar sem svo miklu efni er til safnað og með það farið á vís-
indalegan hátt. að það væri þungt undir tönnina fyrir hinn almenna
lesanda. En svo er ekki. Höfundi hefir tekist að gera efnið hverjum
manni aðgengilegt, og víða er bókin bráðskemmtileg, a.m.k. fyrir alla þá,
sem hafa hug á hestum eða íslenskum þjóðháttum. Enda þótt margt sé
skráð í seinni tíð um íslenska þjóðhætti, er víðast fljótt farið yfir sögu um
dvrasjúkdóma og læknisráð við þeim, og á það jafnt við hreinar bábiljur
og raunverulegar læknisaðgerðir. Bók þessi fyllir því upp í eyðu, sem
verið hefir í meðferð þessara fræða. Enginn getur vænst þes, að höf-
undur hafi gjörtæmt efnið svo, að ekki kunni að finnast einhverjir smá-
munir óskráðir, en varla eru þeir margir né mikilsvirði. Og þegar bókin
er nú komin í almennings hendur, gefur hún þeim. sem eitthvað þykjast
vita betur, tækifæri til að bæta við eða leiðrétta. þyki þeim þess þörf.
Frágangur allur er með ágætum, og bókin prýði í safni íslenskra þjóð-
fræða. þvi að til þeirra vil ég fremur telja hana, en læknisfræði.
Laurence J Bendit: Yoga.
Rvík 1977. Bókaútgáfan Þjóðsaga.
Margt er nú rætt um Yoga vísindi bæði hér og annars staðar á Vestur-
löndum. Það er eins og mönnum hafi nú á síðustu áratugum skilist fyrst
að sitthvað í hinum fomu fræðum Indverja, geti komið oss vestrænum
mönnum einnig að haldi bæði andlega og líkamlega. Þetta litla kver, sem
breskur sálkönnuður hefur samið, er til þess gert að sýna hvernig hægt sé
að þróa yoga. sem byggð sé á vestrænni þekkingu. Margt er fróðlegt og
forvitnilegt í bók þessari. Höfundur ræðir þar ýmis dulræn fyrirbæri, og
einnig hver áhrif margvísleg ofskynjunarlyf hafi á manninn. og að þau
geti jafnvel skapað mikilvæga andlega reynslu. En allt stefnir þetta að
einu og sama marki, að öðlast þekkingu á sjálfum sér og ná valdi yfir sál
og líkama. ef svo mætti að orði kveða. Vafalaust má margt af bókinni
læra. og ekki flytur hún annan fróðleik en þann, sem er manninum til
gagns og góðs. En mér finnst hún vera full torskilin fyrir byrjendur
þessara fræða. eða að minnsta kosti fær enginn skilið hana til fulls nema
með allmikilli vinnu. En sú vinna fær sín laun, því að vissulega er hér
margt kennt. sem hverjum er til gagns og þroska. Þýðandi er Sverrir
Bjarnason.
Ólalur H. Einarsson og Einar Karl Haraldsson: Gúttóslagurinn 9.
nóv. 1932.
Rvík 1977. Örn og Örlygur.
Árið 1932 var ár harðra átaka í verkalýðsbaráttunni hér á landi, og má
með sanni segja, að þá skipti sköpum að nokkru leyti í þeim málum.
Hápunktur atburðanna var Gúttóslagurinn, er verkamenn Reykjavikur
sameinuðust í baráttu gegn íhaldinu í bæjarstjórn borgarinnar, sem gerði
tilraun til alvarlegra kauplækkana og árá'sar á kjör atvinnuleysingja og
annarra. sem verst voru staddir. Kom til harðra átaka, þar sem allflestir
lögregluþjónar bæjarins meiddust og sumir alvarlega, og einnig fjöl-
margir verkamenn. I raun réttri mátti segja, að höfuðborgin væri á barmi
byltingarinnar. Þeir sem muna þá tíma minnast þess, að óhug setti að
þjóðinni við að heyra slika atburði og standa andspænis því, að hvenær
sem verkast vildi gæti svo farið, að mál manna yrðu afgreidd með
ofbeldisaðgerðum, í því efni skipti ekki máli, hvar í flokki menn stóðu.
Það var þarft verk að safna saman og skrá sögu þessara atburða, meðan
enn voru uppistandandi menn, sem tekið höfðu þátt í baráttunni, og gátu
með minningum sínum fyllt upp í eyður skráðra heimilda í blöðum og
réttarskjölum. Höfundar hafa skráð sögu þessa baráttuárs, þvf margt
fleira kemur þar fram en Gúttóslagurinn einn, í þeim stíl, sem kallast
blaðamennsku sagnfræði. Ef til vill má finna þeirri aðferð sitthvað til
foráttu, en hinu verður ekki neitað, að með því móti verður frásögnin
gædd meira lífi, og lesandinn fær meira svigrúm til að meta og dæma
sjálfur, en þar sem um hina hefðbundnu sagnfræðifrásögn er að ræða.
Enda þótt ljóst sé hvoru megin hugur höfundanna er, þá hefur þeim
tekist furðuvel að gæta hlutleysis, og tilvísanir í skráðar heimildir gera
létt að kanna hin skráðu gögn. Ásamt bókinni 30. mars, er út kom s.l. ár,
er Gúttóslagurinn gagnlegt heimildarrit um sögu samtíðar vorrar.
Rökkur. Nýr flokkur.
Rvík 1977.
Enn heldur Axel Thorsteinsson áfram útgáfu tímarits síns Rökkurs, sem
kemur til manns eins og gamalkunnur, kærkominn gestur, án þess að
eiga nokkum fastan útgáfutíma, en alltaf fylgir því sami þýði andblær-
inn frá rómantík liðins tíma. Rökkur er svo blessunarlega laust við ys og
þys samtíðarinnar, að það er notaleg hvíld að fá það í hendurnar. Þetta
hefti hefst á nýrri útgáfu Alpaskyttunnar í þýðingu Steingríms Thor-
steinssonar, einni hinni sígildu þýðinga hans, og það endar á spennandi
leynilögreglusögu í þýðingu ritstjórans. Annars er heftið einkum helgað
minningum ritstjórans bæði frá bernsku hans í Reykjavík kringum
aldamótin síðustu og um nokkur skáld, sem hann hreifst af í æsku, og
hefir sú hrifning enst honum fram á elliár. Þá er 60 ára minning frá 1.
maí í Noregi, athyglisverð grein enn í dag. Einnig eru þar nokkur kvæði.
Margt af þessu efni hefir áður birst fyrir löngu í blöðum og tímaritum, en
er jafngóð lesning fyrir því. Axel Thorsteinsson er nú gamall maður, sem
margt hefir reynt og séð, en er alltaf ungur í anda. Skyldi hann hafa enst
svo vel, af því að hann gengur þráfaldlega á vit bemsku og æsku og rifjar
upp margt af því, sem þar var fegurst og best sagt.
A.C.Bouchet: Daglegt líf á dögum Krlsts.
Rvík 1977. örn og örlygur.
Það er ekki ýkjaoft, sem vér fáum sagnfræðirit í hendur, sem eingöngu
fjalla um daglegt líf þjóðar eða þjóða á liðnum öldum án atburðasögu
eða mannlýsinga. En svo er því farið um þetta rit, að það segis eingöngu
frá háttum daglegs lífs. Höfundurinn er enskur lærdómsmaður, sem
hefir tekið sér fyrir hendur að opna oss sýn í það umhverfi, sem Kristur
lifði og starfaði í, ekki aðeins í Gyðingalandi, heldur einnig vítt um
Rómaveldi. Þarna fáum vér fylgst með fólkinu frá vöggu til grafar, vér
kynnumst þar mataræði, húsakosti, klæðnaði og vinnubrögðum, allra
stétta, allt frá götusalanum til rómverskra herforingja og höfðingja. svo
að eitthvað sé nefnt. Fyrir þeim, sem lítt eru lærðir í þessum fræðum
opnar bókin nýjan heim, og þeir, sem eitthvað kunna fyrir sér, geta
vissulega lært margt nýtt. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé ómissandi
handbók öllum klerkum og kennurum, sem kenna kristin fræði, og
grunar mig, að frásagnir hennar gætu gefið kristindómsfræðslunni nýtt
líf og laðað unglingana meir að þessum fræðum en oft er. Þá hlýtur hún
einnig að vera harla gagnleg öllum sögukennurum. En hún er þó ef til
vill fremur öðru ánægjuleg bók hverjum fróðleiksfúsum manni, sem
skyggnast vill um í horfnum menningarheimi, þar sem í rauninni er að
finna undirstöðu og uppsprettu menningar samtíðar vorrar. Bókin er
prýdd fjölda mynda. Þýðandinn er dr. Jakob Jónsson.