Heima er bezt - 01.04.1981, Síða 34

Heima er bezt - 01.04.1981, Síða 34
á loft, og ekki skeikaði eitt einasta skot, þótt farið væri að skyggja. Hann var með tvíhleypu, og svo var hraðinn mik- ill, að heita mátti, að tveir skothvellir rynnu saman í einn. 3. Bræður við skál Margar furðusögur komust á kreik um fundareglur og fundahegðun reglunnar á Akranesi á fyrstu árum hennar, sumar ekki ósvipaðar ævintýrasögunum um safnaðarsam- komur hinna fyrstu kristnu manna í Katakombunum í Róm. Engum orðum þarf að því að eyða, að sögur þessar voru með öllu tilefnislausar, en fólkið notaði þær nú samt sökum skilningsleysis og skorts á fórnarlund í þjónustu göfugs málefnis. Áðurnefndur heimilisfélagi minn var einna fyrstur manna og fúsastur til að trúa tröllasögum þessum, var hann þó ekki vínhneigður og gerðist góðtemplari eldri að árum og hann góður. Foreldrar mínir voru reglunni fremur hlynntir frá byrj- un, sérstaklega móðir mín og sjálfsagt mest mín vegna. Hún bar alla tíð velferð mína fyrir brjósti, þótt aldrei gengi hún í regluna. Hún var farin að reskjast og aldrei önnur vínnautn á heimilinu en sú, að faðir minn fékk einstaka sinnum þriggja pela flösku af brennivíni. Á þeim tímum var Bramalífselixír talinn margra meina bót — og Voltakrossar. Ekki er mér grunlaust um, að faðir minn hafi átt slíkan kross. Hitt vissi ég, að hann átti oft flösku af Brama í rúmshorninu og dreypti stundum á að morgni dags. Bað hann guð að blessa sér drykkinn, eins og merkur prestur, sem ég kynntist síðar, gerði og enda fleiri hófsemdarmenn. Hins gættu þeir ekki, hvorki faðir minn né fleiri hófsemdarmenn, að þeir áttu mikið á hættu að hafa drykkju fyrir öðrum, þótt þeim fleyttist hófdrykkjan. Föður mínum entist Bramaflaskan lengi. Eitthvað mun hann hafa fengið af honum fyrir Bramameðmæli, sem hann taldi sig geta gefið samkvæmt reynslu sinni af lyfi þessu. Aldrei sá ég pabba hreifan af víni nema í eitt skipti, og er mér það atvik minnisstætt. Fyrst er að geta þess, að fróðum mönnum kemur ekki fyllilega saman um, hvort rekja skuli föðurætt mína í beinan karllegg til Ragnars loðbrókar eða Haraldar hildi- tannar Dana konungs. Samkvæmt síðari tilgátunni er ég talinn 36. ættliður frá Haraldi, en fæ engu um þokað, hvort réttara er, og kann ég vel við báða karlana. Minnist ég þessa hér sjálfum mér og frændfólki til fagnaðar yfir því, að ættin, að mér undanskildum, hefur verið virt og viður- kennd hin mikilhæfasta. Faðir minn mun hafa verið vel minnugur ættgöfginnar, og hún hafa haft góð áhrif á hann. Pabbi átti bróður, sem Jón-Bjarni hét. Var mjög kært með þeim bræðrum. Jón-Bjarni bjó í Dölum vestur. Hann var mikill bóndi og fyrirferðarmaður á marga grein. vel látinn höfðingi, spakur að viti, listfengur og sláttumaður svo mikill, að talið er, að kapp hans og áhugi á þeirri íþrótt hafi orðið orsök í dauða hans. Hamaðist hann við teig einn og hvarf ekki frá fyrri en allur var sleginn. Lagði hann þá frá sér orfið, gekk til hvíldar og fékk lungnabólgu, sem varð hans bani. Hann gekk þannig með sigri af þessum heimi. Hann var talinn skyggn maður, skáldmæltur, sögufróður og skemmtilegur í viðræðum og svörum. Hestamaður var hann og — í hófi ölkær. Eitt sinn kom Jón-Bjarni út á Akranes. Varð fagnaðar- fundur með þeim bræðrum. Var það meðal annars augljóst á því, að síðari hluta dagsins, sem hann dvaldist hjá okkur, sáum við mamma tvo stóra menn leiðast eins og leið lá heim til okkar, götuna frá Litlabakka. Gatan var sendin og niðurgrafin, víða svipuð allbreiðri tröð á milli hárra, grasi vaxinna sandbakka. Okkur varð starsýnt á ferðalag þessara manna. Allt virtist vera í sátt og samlyndi og yfir engu að kvarta — nema það hafi þá verið tröðin. Hún var raunar ekki mjög breið þar, sem hún var þrengst, þó höfðum við strákar, sem oft gættum hesta fyrir ferðamenn, rekið þá fjóra og fimm samsíða eftir tröðinni, og allt gengið vel. Nú virtist tröðin fullþröng tveim mönnum, og ef sand- bakkarnir hefðu ekki stutt við, var ekki annað sýnna en þeir hefðu tekið hliðarspor, eftir því hvor þeirra hallaðist meir, annaðhvort niður fyrir bakkana og niður í fjöru eða upp að Brekkubæ til Þórðar gullsmiðs og Ingibjargar, sem auðvit- að hefðu tekið þeim með kostum og kynjum. Mennirnir voru Jón-Bjarni og faðir minn. Þeir leiddust inn um dyrnar, þótt þröngar væru, og alla leið inn göngin. Þeir máttu ómögulega skilja og urðu að finna hvor fyrir öðrum. En ekki gekk þetta ferðalag orðalaust. „Geturðu ekki staðið á brauðfótunum, bróðir?“ „Stattu sjálfur í býfurnar. Ertu þarna?“ Þeir komust báðir jafnsnemma inn í baðstofuna til að velta samtímis hvor upp í sitt rúm og reka saman tærnar, en báðir voru í lengra lagi, þó einkum faðir minn. Og mikið voru þeir sælir að vera komnir i þessa höfn. Allt í einu var eins og Jóni-Bjarna rámaði í eitthvað: „Heyrðu, Dóri, ég var sterkari en þú, þegar við vorum strákar,“ drafaði í honum. „Og lýgurðu því, varstu þó alinn upp á hangiketi, en ég á strjúgi.“ „Eigum við að reyna með okkur?“ spurði Jón-Bjarni. Þeir spruttu á fætur og mættust á miðju gólfi, rembdust og dæstu. en ultu brátt ofan í annað rúmið og steinsofnuðu í faðmlögum. Við mamma vorum alveg á nálum, meðan á einvíginu stóð og létti okkur ákaflega. er báðir voru farnir að hrjóta. Hvorugur mun hafa munað viðureignina, er þeir vöknuðu eftir góðan dúr. í þetta eina skipti sá ég vín á föður mínum alla okkar samverutíð. Akurnesingar voru manna ósínkastir á uppnefni og við- urnefni. Auðvitað gat þetta verið dáindis skemmtilegt fyrir þá. sem dyfi fólkinu niður í nafnasáinn. Hinir, sem hlutu skírn- eða nafngjöf kunnu þessu ekki alltaf eins vel. Lá við, að þeir geifluðu á saltinu eins og gamli goðinn. 142 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.