Heima er bezt - 01.03.1988, Side 10
Jón Dan á gangi með Valgerði dóttur sinni í erlendri stórborg.
tilleiðast. En samkvæmt Parkinsonlögmálinu jukust umsvif
sjóðsins fljótlega, hann fluttist í stærra húsnæði og brátt var
ég farinn að starfa allan daginn. Þegar þannig var komið, sá
ég að við svo búið mátti ekki standa, svo ég hætti með öllu
árið 1982 og sneri mér alveg að þeirri iðju, sem hefur alltaf
staðið hjarta mínu næst. Af þessari upptalningu má ráða,
að ég hef lengst af lifað í tveim heimum sem embættis-
maður og rithöfundur. Þeir heimar voru með öllu aðskildir.
Ég skildi skáldskapinn eftir heima og embættiserillinn varð
alltaf eftir niðri í Arnarhvoli.
V
Skógræktaráhugi
Hér heima naut ég næðis við ritstörfin og Halldóra kon-
an mín hefur alltaf verið besti ráðunautur minn. Hún hefur
næma tilfinningu fyrir íslensku máli, ólst upp við fagurt og
trútt tungutak. Við erum svo lánsöm að eiga fjögur vel gerð
böm. Elst er Valgerður leikkona, sem er gift Þorsteini
Gunnarssyni arkitekt og leikara. Þá er Þuríður, sem nam í
Handíða- og myndlistarskólanum og starfar sem textíl-
hönnuður. Maður hennar er Guðmundur Rúnar Brynj-
arsson húsasmiður. Og næstur er Þórir Dan, sem lærði fyrst
vatnalíffræði með fiskeldi í huga og starfaði hjá Laxalóni.
En síðar nam hann tölvufræði og hóf starf sem kerfisfræð-
ingur hjá Skýrsluvélum ríkisins fyrir ári. Kona Þóris er
Auður Ingólfsdóttir fóstra og kennari. Yngsta dóttir okkar
er Margrét Dan, sem er einkaritari hjá Landsvirkjun. Hún
er gift Jóni Hróbjartssyni, en hann starfar hjá Sjóvá. — Við
Halldóra byggðum okkur lítið sumarhús upp við Rauða-
vatn. Fjölskyldan hjálpaðist að við þá byggingu. og m.a.
handhrærðum við Valgerður dóttir mín steypuna í grunn-
inn. Bústaðnum fylgir dálítill landskiki og þar hef ég fengið
útrás fyrir ákafan skógræktaráhuga og við höfum gróður-
sett þar skóg, sem hefur tekið ótrúlegum framförum í ár-
anna rás. Þarna efra eigum við oft unaðsstundir og börnin
og fjölskyldur þeirra njóta þess að vera þar með okkur
gömlu hjónunum.
Og nú getur þú gefið þig óskiptan að ritstörfum.
Já, næði hef ég nú og viðfangsefni skortir ekki, hvað sem
afköstum líður. Þó er ljóst, að skemmra hefur verið á milli
útkomu bóka minna að undanförnu. Frá árinu 1977 eða á
tíu árum hef ég sent frá mér fimm skáldsögur og eina
ljóðabók. En tíminn verður að leiða í ljós hvert framhaldið
verður.
— Það líður á daginn og við Jón Dan hefðum sjálfsagt
getað haldið áfram að spjalla saman fast að óttu. en kunn-
um okkur hóf og fellum niður tal nær miðaftni. Skáldið
fylgir mér út á varinhelluna og brosmildur veifar hann
sveitamanninum, sem er nú kunnugri byggðinni uppi á
Grensásnum og ekur hiklaust á braut.
Bolli Gústavsson í Laufási. —
Hjónin, Halldóra Elíasdóttir og Jón Dan, framan við sumarhús-
ið við Rauðavatn.
82 Heima er bezt