Heima er bezt


Heima er bezt - 01.03.1988, Page 34

Heima er bezt - 01.03.1988, Page 34
„Það er gott,“ sagði Sóley brosandi. „Ég vona nú samt að hann ofdekri þig ekki.“ „Það er engin hætta á því,“ sagði Þröstur og brosti. „Það er alveg sama hvað ég snýst í kringum hana, hún tekur varla eftir því.“ „Þröstur,“ sagði Fjóla ávítandi. „Skammastu þín að segja þetta. Ég skal svo sannarlega ekki dekra við þig meira.“ Allir hlógu dátt, svo Fjóla gat ekki annað en tekið undir. „Allt í lagi,“ sagði Þröstur þegar hlátrinum linnti. „Ég tek allt aftur, sem ég sagði. Ætlarðu þá að halda áfram að dekra við mig?“ „Við sjáum til,“ sagði Fjóla glettnislega. „Það fer eftir því hvað þú hagar þér vel. Ef þú verður ekki til friðs, geturðu sjálfur stoppað i sokkana þína.“ „Ekki vissi ég að litla systir mín gæti verið svona harð- brjósta,“ sagði Hlynur og kímdi. „Ég sem hélt að hún væri engill holdi klæddur.“ „Ég hef víst verið blekktur,“ sagði Þröstur við Hlyn. Fjóla gaf þeim langt nef og sagðist ekki yrða á þá næstu daga. „O, þeir verða þá fljótir að líða þeir dagar,“ sagði faðir hennar kíminn. „Dagarnir hjá Fjólu eru ekki nema nokkrar mínútur.“ „Þið eruð ómögulegir,“ sagði Fjóla og þóttist móðguð. En það stóð ekki lengi. Hún skemmti sér konunglega og ekki versnaði skapið þegar Smári kom heim. Hann hafði alltaf frá einhverju skemmtilegu að segja. Það virtist alltaf vera eitthvað að gerast í kringum hann. Hlynur varð lengur í faðmi fjölskyldunnar en hann hafði upphaflega ætlað sér. Smári þurfti ýmislegt að ræða við hann og móðir hans vildi endilega að hann yrði í kvöldmat. Hann fór því ekki fyrr en seint um kvöldið. Þegar hann kom heim, háttaði hann og lagðist upp í rúm. Þetta hafði verið seinasta för hans á Sigurvoninni í bili. Hann var búinn að ráða sig á togara austur á landi næstu sex mánuði. Honum fannst hann verða að fara burt úr bænum um tíma. Hann vildi ekki eiga það á hættu að rekast á Rut. Hann elskaði hana ennþá og hugsaði oft um hana. og gat ekki skilið af hverju hún hafði brugðist honum svona. Gat honum skjátlast svona með Rut? Það var víst enginn vafi á því. Hér eftir myndi hann lifa fyrir starf sitt. Allar hans framtíðaráætlanir með Rut voru að engu orðnar. Hlynur ýtti þessum hugsunum frá sér og fór að hugsa um Fjólu. Hún hafði verið heppin. Þröstur myndi reynast henni vel. Hún blátt áfram ljómaði af hamingju. Hlynur gladdist fyrir hennar hönd. Fjóla hafði sagt honum það í kvöld að þau Þröstur ætluðu að giftast þegar barnið væri fætt og láta skíra um leið. Hún vonaði að hann yrði við- staddur. Hlynur hafði sagt henni að hann væri að fara austur á land. Fjóla sagði að brúðkaupið yrði ekki fyrr en í lok febrúar í fyrsta lagi. Hann sá því að hann gæti mætt í brúðkaup hennar, þar sem hann var aðeins ráðinn fram í miðjan febrúar. Á morgun myndi hann segja móður sinni frá þessu, ef faðir hans hefði ekki gert það. Og eftir tvo til þrjá daga færi hann austur í Stóruvík. Hann bjóst við að móðir hans og systkini yrðu undrandi á þessari ákvörðun hans og hann ætlaði ekki að gefa aðra skýringu en þá. að hann langaði að breyta til. Faðir hans hafði spurt hvort eitthvað væri að, og Hlynur sagði að það væri nokkuð sem hann gæti engum sagt frá, og bað föður sinn að hafa ekki orð á því við neinn mann. Eftir þessa sex mánuði myndi hann svo taka ákvörðun um hvort hann yrði lengur fyrir austan eða færi aftur suður. Hann hafði þó hugsað sér að taka frí í einn til tvo mánuði eftir að ráðningartima hans fyrir austan lyki. Hann kæmi þá suður í brúðkaup systur sinnar og hugsaði málið á meðan. Hlynur slökkti ljósið og lagðist til svefns. Hann svaf vel og fannst hann endurnærður þegar hann vaknaði morg- uninn eftir. Hann fór í bað og útbjó sér hádegismat. Þegar hann hafði gengið frá, klæddi hann sig og ók heim til foreldra sinna. Móðir hans var að enda við að ganga frá í eldhúsinu. Hún gladdist yfir komu hans og spurði hvort hann væri búinn að borða. Hlynur játaði því. „Ertu ein heima?“ spurði hann svo. „Nei, faðir þinn lagði sig og Smári er inni á baði að þvo sér um hárið,“ sagði Sóley og lét kaffikönnuna á borðið, ásamt glösum. Hlynur settist og fékk sér kaffi. í sama bili kom Smári til þeirra. Bræðurnir heilsuðust og Smári settist á móti Hlyni. Hann var með blautt hárið og handklæði um hálsinn. „Hvað rekur gamla piparsveininn hingað svona snemma dags?“ spurði hann stríðnislega. „Brann hádegismaturinn við?“ Hlynur brosti. „Ekki gerði hann það,“ sagði hann rólega. „Gamla pip- arsveininn langaði bara að hitta sinn elskulega bróður.“ „Það skil ég vel,“ sagði Smári hlæjandi. „Þú gætir ekki átt betri bróður.“ „Ekki vantar sjálfsálitið." „Vertu ekki svona afbrýðisamur, gamli minn. Vantar þig ráð til að ná þér í kvenmann? Ég skal gefa þér nokkur.“ „Nei, þakka þér fyrir. Ég hef ekki áhuga. Annars kom ég til að segja ykkur að ég er að fara úr bænum eftir tvo, til þrjá daga.“ „Hvert ertu að fara?“ spurði móðir hans undrandi. „Ég er búinn að ráða mig á togara í hálft ár austur í Stóruvík.“ „Af hverju?“ spurði Sóley undrandi. „Líkar þér illa á Sigurvoninni?“ „Nei,“ svaraði Hlynur. „Mig langar að breyta til um tíma.“ „Heldurðu að þér líki það?“ spurði móðir hans. „Það veit ég ekki fyrr en þar að kemur,“ svaraði Hlynur rólega. „Ef mér líkar ekki vel þama kem ég aftur þegar ráðningartíma mínum lýkur.“ „Pabbi þinn hefur ekki minnst á þetta við mig,“ sagði Sóley. „Hann hefur talið það mitt mál að segja þér þetta,“ sagði Hlynur. „Svo er ég nú ekkert smábarn lengur. mamma." Framhald. 106 Heima er bezl

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.