Vesturland - 24.12.1959, Page 12
12
VESTURLAND
Hnifsdælingar framleiða útflutnings verð-
mæti fyrir 10 miiljónir króna á ári
Fréttamaður Vesturlands brá
sér út í Hnífsdal og átti stutt sam-
tal við Einar Steindórsson, oddvita
Eyrarhrepps.
Vilt þú ekki Einar segja okkur
eitthvað frá högum ykkar Hnífs-
dælinga ?
íbúar hér í Hnífsdal eru nálega
300 manns. Ibúatalan hefur verið
svipuð á undanförnum árum. Fólki
hefur ekki fækkað hér í dalnum og
lítið er um það að fólk flytjist héð-
an suður áland.
Hér hefur verið byggt töluvert
af íbúðarhúsum á undanförnum
árum og nú síðast liðið sumar var
hafin bygging á þremur nýjum
íbúðarhúsum. Þá er og í byggingu
félagsheimili.
Hvernig hefir atvinna verið hjá
ykkur?
Atvinna hefur verið með ágæt-
um á þessu ári, en hraðfrystihús-
ið er aðalatvinnurekandinn á
staðnum.
Héðan hafa verið gerðir út þrír
bátar tveir 60 tonna og einn 40
tonna. Sá síðast taldi hefur nýlega
verið seldur til ísafjarðar. Þá er
von á nýjum 94 tonna stálbát, sem
byggður er í Austur-Þýzkalandi.
Eigandi hans er Mímir h.f., en
það félag átti þann bát, sem seld-
ur var til ísafjarðar. Hann verður
væntanlega kominn fyrir jól og
verður þá kominn á veiðar um ára-
mótin. Þá var síðastliðið sumar
byggð hér rækjuverksmiðja, sem
er útibú frá Niðursuðuverksmiðj-
unni á ísafirði, sem Böðvar Svein-
bjömsson rekur. Þessi verksmiðja
Rætt við Einar
Steindórsson
oddvita Eyrarhrepps
skapar nokkra atvinnu. Einkum
þá fyrir konur og unglina.
Hefur verið nokkur skortur á
fólki, sjómönnum eða verkafólki?
Okkur tókst að ráða á alla bát-
ana svo að segja eingöngu heima-
menn í þetta skiptið. Áður höfum
við orðið að ráða fleiri og færri
aðkomusjómenn.
Hraðfrystihúsið skortir nú
kvenfólk meira en áður en segja
má að ekki vanti verkamenn eins
og stendur .
Atvinna hefur verið næg í
Hnífsdal allt árið, bæði við fram-
leiðslustörfin og byggingavinnu.
Afkoma fólks er því mjög sæmi-
leg.
Þið framleiðið mikið af útflutn-
ingsverðmætum.
Já, í ekki stærra plássi. Það er
ekki ennþá búið að gera upp árið
1959 en ég hygg að framleiðslan
verði svipuð og síðastliðið ár.
Á árinu 1958 nam útflutnings-
verðmætið 9,5 millj. króna.
Hefur hraðfrystihúsið staðið í
einhverjum framkvæmdum á ár-
inu?
Nei, það hefur ekki verið, en nú
í haust voru frystivélar og frysti-
kerfi hússins yfirfarin og endur-
bætt að miklum mun. Ennfremur
Einar Steindórsson
fóru fram endurbætur á beina-
mjölsverksmiðjunni.
Hefur hreppurinn þá staðið í
framkvæmdum ?
Ekki miklum. Þó var endur-
byggð vatnsveita í Bakkahlíð
vegna aukinna íbúðarhúsabygg-
inga á svokölluðum Bökkum en ný-
byggingin er öll í þeim hluta
þorpsins. Því veldur staðsetning
frystihússins, sem er við Hnífs-
dalsbryggju, sem liggur um það
bil einn kílómeter fyrir innan
þorpið.
Þá er einnig í ráði, að byggja
nýja vatnsþró, þegar á næsta ári,
miklu stærri heldur en þá sem fyr-
ir er eða um 120 teningsmetra.
Liggja nú þegar fyrir teikningar
og útboðslýsing á þeim mannvirkj-
um.
Þá má geta þess að sveitasjóð-
ur Eyrarhrepps á allar þær bygg-
ingalóðir, sem hin nýju íbúðahús
eru byggð á. Þessar lóðir keypti
hreppurinn af Landsbankanum á
ísafirði um 1940, en þær eru úr
landi jarðarinnar Bakka í Hnífs-
dal. 1 þessari landareign hrepps-
ins eru túnblettir í erfðaábúð, sem
taka verður fyrir byggingalóðir á
næstu árum ef sama áframhald
verður á íbúðahúsabyggingum. Nú
þegar er ákveðið að taka eitt tún-
ið undir götu og byggingalóðir á
vori komanda, segir Einar að lok-
um og kveður.
Smælki
„Þú getur búist við því að verða
bráðum ekkja,“ sagði spákonan við
viðskiptavininn.
„Eiginmaður þinn deyr bráðum
hryllilegum dauða.“
Konan andvarpaði og spurði:
„Get ég verið alveg fullviss um
það.“
o o o
„Mamma, hversvegna hefur
pabbi ekki hár á höfðinu," spurði
barnið.
„Pabbi þinn hugsar svo mikið.“
„En af hverju hefur þú þá svona
mikið hár mamma?"
„Þegiðu barn og haltu áfram að
borða matinn þinn.“
o o o
Tveir kúrekar sátu á knæpu og
ræddu um dauða vinar síns.
„Hvernig bar dauða Bills að,“
spurði annar.
„Hann datt ofan af aftökupalli.“
Hvað var hann að gera þar?“
„Það átti að fara að hengja
hann.“
Hnífsdalur