Sameiningin - 01.10.1955, Síða 4
26
Sameiningin
Miðvikudagsmorguns skin
myrkum skugga vék á flótta,
þeir, er Jesúm velja að vin
vita ei neitt um kvíða og ótta.
Elska hans þeim gleði gefur,
gæzka hans þá örmum vefur.
Fimmtudagsins fagra sól
færir ylinn hverju strái,
lýsa yfir laut og hól,
lífsgeislar er heitt eg þrái.
Ó, sú náð er aldrei þrýtur.
Ó, sú gleði er sál mín hlýtur.
Föstudagsins friðarblær
fögnuð vekur mörgu hjarta,
gefst mér sólargeisli skær,
gleymist næturhúmið svarta.
Drottinn enn mig annazt hefur,
enn mér líf og birtu gefur.
Laugardagsins ljúfi blær
leikur milt um viðkvæm sárin,
glaður sólargeisli skær
af grasi þerrar daggar-tárin.
Kærleiksgeislar Guðs frá hjarta
gefa líf og fegurð bjarta.
Alla daga. Alla stund
er Guðs náð að verma og blessa
gefa þrek í þreytta mund
þjáðan lækna, dapran hressa.
Lof á nóttu, lof á degi,
lífsins Guði af hjarta eg segi.