Sameiningin - 01.10.1955, Blaðsíða 10
32
Sameiningin
inga er fólginn í einu hugtaki, sem mikið heyrðist á þessu
mínu fyrsta kirkjuþingi vestan hafs, en þetta orð var
“stewardship,” ráðsmennska. Að hver einstaklingur hafi
hlotið úr hendi Guðs síns talentu og beri að ávaxta hana,
en af ávöxtunum beri honum að láta eitthvað af hendi rakna
til Guðs og kirkju hans. Samskotin, sem voru mér einna
mestur þyrnir í augum í messunum, fengu á sig annan svip.
Þau báru ekki lengur keim af betli, eins og mér fyrst fannst
hljóta að vera, heldur var þarna hver kristinn maður að
láta sinn skerf af hendi rakna, skerf, sem honum raunveru-
lega bar að standa skil á. f þessum anda hafði Gimlisöfnuður,
sem ekki er mjög stór, reist kirkju þá, sem þingfundir voru
háðir í. Stórt og veglegt guðshús, fagurt og hentugt fyrir
blómlegt safnaðarstarf.
Annað orð var það, sem títt bar á góma í ræðum full-
trúanna og samtölum, en það var orðið “evangelism.”
Felst í því allsherjar boðun fagnaðarerindisins um alla
Norður-Ameríku. Mun ætlunin að hvarvetna, þar sem
lútherskur söfnuður í sambandi við IJLCA er, skipuleggi
hann heimsóknir um allt nágrennið. Fari safnaðarmenn
tveir og tveir saman út, ræði við fólk um kirkju- og trúmál
og bjóði þeim að koma á samkomur 1 kirkjunum, sem verða
haldnar samfleitt í heila viku. Það er ætlunin að hefja þessa
herferð á miðju ári 1956. Það eru ekki prestar, sem eiga að
heimsækja, heldur leikmenn. Á þeirra herðum hvílir fram-
kvæmd og árangur að mestu leyti. Sást það enda greinilega
á þinginu, að Kirkjufélagið er ekki prestakirkja heldur leik-
manna. Þarna voru prestar skiljanlega í miklum minnihluta
og höfðu engin sérréttindi. Þeir voru rétt sem aðrir fulltrúar.
Að vísu er innan Kirkjufélagsins sérstakt prestafélag og
hélt það fund á meðan á þingtíma stóð, en sá fundur var
stuttur, enda er ekkert mál Kirkjufélagsins sérstakt einka-
mál presta þess.
Mál þingsins var enska. En eitt kvöldið var þó algjörlega
helgað íslenzkum málum og þá fór allt fram á íslenzku.
Flutti þar séra Bragi R. Friðriksson messu, séra Eiríkur S.
Brynjólfsson ræddi af eldmóði um sambandið á milli
Kirkjufélagsins og Þjóðkirkju íslands. Lagði hann á það
áherzlu, að hvorir tveggja gætu af hinum nokkuð lært. Þá
ræddi séra Ólafur Skúlason um Skálholt og endurreisn þess.