Sameiningin - 01.03.1959, Page 14
12
Sameiningin
frásaga virtist ýmsum ósanngjörn frá sjónarmiði venju-
legrar hagfræði. En þessi dæmisaga Krists hefir ekkert með
hagfræði að gjöra. Hún fjallar um Guðs ríki, og um Guð
sem stjórnanda ríkisins. Allir menn eru Guðs börn, og náð
hans stendur öllum jafnt til boða. Drottinn er ekki að hugsa
um fjárhagslegt réttlæti, eða hagfræðilegan jöfnuð í þessu
sambandi. Vera má að til sé einn tólfti hluti úr denar,
dollar eða pundi, en það er ekkert til sem heitir einn tólfti
af kærleika Guðs. Það sem lofsvert er talið í þessari dæmi-
sögu, er fúsleikinn til að svara kalli Guðs, og áhuginn, sem
kemur fram í þeirri þjónustu sem á eftir fer. Hvort heldur
sem tækifærið kom seint eða snemma, þá fögnuðu þeir allir
jafnt, og allir unnu af áhuga. Guð heimtar ekki að allir menn
séu jafn vel gefnir, en hann heimtar hreinar hvatir og
einlægan vilja. Þannig segja þeir eitt og hið sama, bæði
Páll og Kristur. Aðeins einn getur unnið forgengilegan
sigurveig, aðeins einn getur hlotið fölnandi blómsveig,
aðeins einn getur öðlast veraldleg laun, en allir geta eignast
hinn óforgengilega sigurveig, allir geta hlotið þann blóm-
sveig sem ekki fölnar, allir geta öðlast gjöf Guðs, kærleika
hans og þá lífsgleði sem hann veitir. í víngarði Drottins er
hagfræði og háttum mannanna snúið við, þannig, að Guð
gefur öllum mönnum sem þjóna honum, af náð sinni,
kórónu sem mölur og ryð fá ekki grandað.
Þetta sjá menn ekki ávallt. Eða þótt þeir sjái það, vilja
þeir ekki viðurkenna það. Þeir halda áfram að berja út í
loftið, og eyða kröftum sínum til einskis. Þeir eru von-
sviknir, og vilja ekki hlýða kalli húsbóndans að fara út í
víngarðinn. En Páll skildi þetta. í öðru Korinþubréfinu
hælir hann sér af afrekum sínum. Það er upptalning íþrótta-
mannsins, en þó greinargjörð um þjónustu hans við Drott-
inn. Hann talar um að hann hafi verið í fangelsi, barinn,
skipbrotsmaður, grýttur, í lífshættu vegna vatnsflóða, vegna
ræningja, vegna samlanda sinna, að hann hafi liðið hungur,
þorsta, kulda og klæðleysi. Þegar þeir komu til að taka
hann fastan, slapp hann með því að skríða út um glugga
og síga niður í körfu. Polycarp, virðulegur og frægur biskup
í Smyrna, rann skeið sitt án þess að hika, og var aldrei í
vafa um takmarkið. Hann var tekinn fastur vegna þess að
hann neitaði að tilbiðja keisarann, og kalla hann drottinn.