Fréttablaðið - 06.08.2011, Side 22

Fréttablaðið - 06.08.2011, Side 22
6. ágúst 2011 LAUGARDAGUR22 Á rökstólum er hefðin sú að for- vitnast um hversu mikið parið veit hvort um annað. Arnar: „Ég veit nú ekki margt um þig en kannast öllu betur við karl föður þinn, tónlistarmanninn Tómas R. Einarsson. Ég er nefni- lega djassgeggjari. Ég lærði að fíla djass þegar ég hlustaði á þættina hans Jóns Múla í útvarpinu í gamla daga, þoldi fyrst ekki tónlistina en Jón Múli var svo skemmtilegur að hann togaði mig inn í djassinn.“ Kristín: „Ég skil. Ég veit ekkert um íþróttir og fylgist því lítið með íþróttafréttum, svo ég veit bara við hvað þú starfar og hef séð þér bregða fyrir á skjánum.“ Arnar: „Ég leitaði nú örlítið á náðir Google til að forvitnast um þig. Þá komst ég að því að þú semur ekki alveg eins ljóð og ég var vanur að lesa þegar ég stund- aði nám við Háskóla Íslands í íslensku og bókmenntum. Þar var ég meðal annars í kúrsi hjá Helgu Kress og skrifaði ritgerð um hina merku skáldkonu Guðfinnu Jóns- dóttur frá Hömrum í Reykjadal. Viðfangsefni hennar voru aðeins önnur en þín.“ Kristín: „Guðfinnu Jónsdóttur þekki ég ekki. En það er eiginlega fyrst núna upp á síðkastið sem ég hef öðlast nokkurt umburðarlyndi fyrir íþróttum. Mér þótti skóla- kerfið og umhverfi íþróttanna ekki mjög hvetjandi í þá átt. Svo dæmi sé tekið þá byrjaði ég bara að synda fyrir nokkrum árum. Skóla- sundið og leikfimin voru ákveðin áföll sem tók mig mörg ár að jafna mig á. En þá fattaði ég auðvitað að þetta er mesta snilld í heimi.“ Má ekki ala á vantrausti Þið hafið bæði ferðast jafnt innan- lands sem utan á þessu viðburða- ríka sumri. Munið þið upp á hár hvar þið voruð stödd þegar ódæðin í Noregi voru framin? Arnar: „Já, það man ég. Það er svo skrýtið hvað heimurinn er orðinn lítill. Þegar þetta gerðist var ég á Húsavík. Konan mín var stödd hjá vinkonu sinni þegar dóttir vinkonunnar hringdi grátandi í mömmu sína. Hún býr í Noregi og var í næsta húsi við sprenginguna í miðbæ Óslóar. Þetta fengum við beint í æð áður en þetta var komið í fréttirnar. Þetta er atburður sem lætur mann ekki í friði.“ Kristín: „Ég var með matarboð heima hjá mér þegar þetta gerðist og boðið varð ekki jafn fjörugt og til stóð því ég var bara við tölvuna og fylgdist stöðugt með frétt- um. Þetta var mjög sorglegt og líka óþægilegt. Þetta var nálægt manni, krakkar á mínum aldri og yngri sem voru myrtir, sem sýnir okkur hvað við erum berskjölduð þegar einhver er nógu bilaður og hefur aðgang að þeim tækjum og tólum sem þarf til að slátra fólki.“ Arnar: „Já. Maður veltir fyrir sér hvar nokkuð þessu líkt ger- ist næst. En viðbrögð Norðmanna þykja mér einstök.“ Kristín: „Einmitt. Þeir virðast ná að hefja sig yfir hefnigirni og taka þessu af stillingu. En auðvitað er þetta erfitt mál og flókið. Og það er líka allt í lagi að vera reiður.“ Arnar: „Norðmenn í dag taka öðruvísi á svona málum en for- feður þeirra á Sturlungaöld. Oft á tíðum í gegnum söguna hafa leið- togar verið gagnrýndir fyrir að taka seint við sér, en í þessu tilfelli voru þeir sýnilegir frá fyrstu mín- útu og ég dáist að því. Ég hugsa að það hafi þjappað norsku þjóðinni betur saman.“ Kristín: „Það væri hræðilegt ef þetta yrði til þess að ala á van- trausti á milli fólks. Björn Bjarna- son notaði til dæmis tækifærið til að draga upp hugmyndina um íslenska leyniþjónustu sem hann hefur dreymt um áratugum saman. Þetta fáránlega herblæti þykir mér ekki til mikillar prýði.“ Arnar: „Ég er ekki viss um að við hefðum tæklað þetta jafn vel og Norðmenn. Við hefðum líklega sett málið í nefnd, rætt fram og til baka, gefið út skýrslu og svo aðra skýrslu sem hefði verið gagnrýnd og svo framvegis. Ég hef bara svo ofboðslega lítið þol gagnvart stjórnmálamönnum. Mér finnst þeir svo vanmáttugir og ekki standa sig í því sem þeir eiga að gera, að ég gæti trúað að yfirvöld hér hefðu lent í bullandi vandræð- um með að taka á svona málum.“ Skelfilegur eiturlyfjaheimur Breska söngkonan Amy Wine- house lést fyrir skömmu, aðeins 27 ára gömul, eftir harða baráttu við áfengis- og eiturlyfjafíkn. Fylgdust þið með ferli hennar? Kristín: „Já. Ég er mikill aðdáandi Amy Winehouse og þykir mjög dapurlegt að hún hafi orðið svona veik. Þetta kom ekki óvænt, því fólki þykir alltaf meira spennandi að segja fréttir af bágu ástandi fræga fólksins en þeim sem eru að gera eitthvað af viti, en hún var svo hæfileikarík og hefði getað gert svo góða hluti.“ Arnar: „Dóttir mín var hrifn- ari af Amy Winehouse en ég, en þar sem ég fylgist mjög vel með breskum fjölmiðlum komst ég ekki hjá því að sjá hvert stefndi hjá henni. Átakanlegast þótti mér að sjá baráttu föður hennar við þennan skelfilega eiturlyfjaheim. Hann reyndi hvað hann gat og það situr mest í mér. Þessi barátta for- eldra sem verða fyrir því að missa börnin sín út í þennan heim. Góð vinkona mín lést í vetur af völd- um eiturlyfja, svo það bergmálar dálítið í mér hversu skelfilegur þessi heimur getur verið.“ Kristín: „Já. Þó er í rauninni ótrú- legt hversu miklu þessir tónlistar- menn sem létust 27 ára, eins og Janis Joplin, Jimi Hendrix, Jim Morrison og fleiri, höfðu áorkað á þessum aldri. Ég verð 27 ára seinni partinn á næsta ári og hef ekki áorkað alveg eins miklu. Það er leiðinlegt að þetta fólk hafi þurft að lifa svona hratt.“ Arnar: „Þetta er bara allt annað tímatal, eins og hjá hundum og köttum. Þessir rokkarar sem sukka svona mikið og deyja ungir eru margir í raun orðnir sextugir þegar þeir deyja því þeir lifa svo hratt.“ Bágt sálarástand plankara Nú herma nýjustu fréttir að „plankið“ sé dautt. Í staðinn séu allir farnir að „ugla“ (láta taka myndir af sér í uglustellingum um víðan völl og dreifa á internetinu). Hvort er meira töff, plank eða ugl? Kristín: „Ég get ekki svarað því. Ég veit að plank er til en ekki mikið meira en það.“ Arnar: „Þú verður að fara að planka, manneskja!“ Kristín: „Já. Plankið hefur ekki náð fótfestu í mínum kreðsum.“ Arnar: „Nei, sem betur fer. Í fullri alvöru, því annað eins bull og rugl hef ég ekki séð. Ég velti fyrir mér sálarástandi fólks sem birt- ir myndir af sér í alls kyns fárán- legum stellingum, sem er rennandi niður hlíðar og allt skaddað á eftir. Þetta er bara ekki rétt. Reyndar vissi ég blessunarlega ekki hvað plank er fyrr en fyrir skömmu. Ég var að mála húsið mitt og lá uppi á þaki. Þá benti sonur minn mér á að ég væri kominn í gott plank. Þegar ég var ungur bjuggu krakkarnir til engla í snjónum. Kannski var það forveri planksins.“ Kristín: „Já. Þegar ég var tíu eða tólf ára gekk snuðæði yfir borgina. Þá voru allir með snuð og pela og þau sem áttu lítil systkini þóttu heppin að geta gengið að slíku vísu heima hjá sér. Væntanlega hafa margir fengið rammskakkar tennur af því að japla á þessu.“ Arnar: „Ég hef líklega verið kom- inn af snuðaldrinum þá.“ Kristín: „Þetta þótti mjög kúl. Ég hef oft velt því fyrir mér hvaðan þetta einkennilega æði kom.“ Alþýðlegar íþróttafréttir Að lokum. Ef þið skiptuð um hlut- verk í einn dag, Arnar gerðist ljóð- skáld og Kristín íþróttafréttaritari, hvað mynduð þið taka ykkur fyrir hendur? Arnar: „Þegar ég var í Mennta- skólanum á Akureyri orti ég heil- an helling, meðal annars ásamt Bjarna Hafþóri Helgasyni vini mínum og mági. Ég fann mikið af þessum ljóðum fyrir ekki svo löngu og ég var alveg rammpólitískur. Þetta voru ádeiluljóð á það sem var að gerast í heiminum. Í dag yrði ég líklega ekki jafn æstur. Og örugglega ekki jafn hvassyrtur og þú, Kristín. Ég er orðinn svo mild- ur maður að sennilega yrðu fugl- ar og fiðrildi í öndvegi í ljóðunum mínum. Fegurðin og náttúran.“ Kristín: „Já, sem íþróttafréttarit- ari myndi ég líklega flytja alþýð- legar íþróttafréttir. Það finnst mér spennandi. Að tala við gamla fólk- ið í sundleikfiminni, þá sem spila brennó út um alla borg og fleiri sem stunda svona áhugamanna og óstofnanavænt sport. Með- limi Styrmis, íþróttafélags sam- kynhneigðra, Africa United og þar fram eftir götunum. Það væri spennandi.“ Arnar: „Ég vind mér beint í þetta mál.“ Ég er ekki viss um að við hefðum tæklað þetta jafn vel og Norðmenn. Við hefð- um líklega sett málið í nefnd, rætt fram og til baka, gefið út skýrslu og svo aðra skýrslu sem hefði verið gagnrýnd og svo framvegis. Á RÖKSTÓLUM Snuð og rammskakkar tennur Íþróttafréttamaðurinn Arnar Björnsson orti heil ósköp sem ungur maður. Ljóðskáldið Kristín Svava Tómasdóttir hefur nýlega öðlast umburðarlyndi gagnvart íþróttum. Kjartan Guðmundsson hitti rökstólapar vikunnar á dálítið drungalegum sumardegi. DJÖRFUNG OG HUGUR Ef Kristín Svava væri íþróttafréttaritari í einn dag myndi hún flytja fréttir af sundknattleik og brennóspilurum. Sem ljóðskáld myndi Arnar yrkja um fugla og fiðrildi. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA Uppspretta vellíðunar Hverabraut 1 | 840 Laugarvatn | fontana@fontana.is | Sími: 486 1400 Opið alla daga kl. 11–22 NÁTTÚRULEGT HVERAGUFUBAÐ GLÆSILEGAR BAÐLAUGAR Nánari upplýsingar: www.fontana.is

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.