Lesbók Morgunblaðsins - 25.04.2009, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 25.04.2009, Blaðsíða 9
væri kallaður.“ Í slíkum aðstæðum er gott að eiga góða að. „Það eru ákveðin orð sem til- heyra þessum heimi fyrri alda sem maður man ekki eða þekkir ekki og þarf að leita að- stoðar fræðinga, hvað þetta og hitt hefur verið kallað í íslenskum bókum fyrri alda – af því þessi orð hafa ekki verið notuð í íslenskum textum seinni alda. Þá eru nefndar ýmsar þjóðir frá þessum tíma sem maður hafði aldrei heyrt minnst á. Þá er mjög gott að hafa fræð- inga sem kunna þetta og geta jafnvel íslensk- að þjóðarheiti sem eru ekki til. Í þessu naut ég m.a. góðs af Merði Árnasyni og Svanhildi systur minni sem er miðaldafræðingur hjá Árnastofnun.“ En kallaði þessi ottómanski miðaldaheimur á einhver nýyrði? „Já, til dæmis lýsari, orð sem var ekki til í málinu – maður sem býr til lýsingar í handritum, lýsing þýðir mynd- skreyting og lýsari því sá sem býr til þessar myndir. Þetta var bara eitthvað sem varð til þegar ég fór að ráðgast við Svanhildi og starfsmenn Árnastofnunar,“ og nefnir einnig starfsheitið gyllir, sá sem gyllir myndirnar. Þokukenndar gráar sálir Guðrún Vilmundardóttir: Í þokunni e. Philippe Claudel Guðrún Vilmundardóttir, forleggjari hjá Bjarti, hefur verið dugleg við að þýða bækur meðfram því að reka bókaforlag, og sama mátti segja um forvera hennar hjá Bjarti, Snæbjörn Arngrímsson. Er þetta orðin hefð? „Það ganga einfaldlega flestir í flest störf hér hjá Bjarti, Jón Karl Helgason skrifaði meira að segja bók sjálfur þegar hann var hérna,“ segir Guðrún sem lærði í Frakklandi og Belg- íu auk þess sem móðir hennar hefur lengi búið ytra, þannig að hún talar reiprennandi frönsku. Bókaútgáfunni Bjarti kynntist hún svo þeg- ar hún var að vinna hjá Borgarleikhúsinu og Snæbjörn var að aðstoða við útgáfu leik- skránna. „Hann var að leita sér að þýðanda úr frönsku fyrir bók Amélie Nothomb, Uggur og skjálfti. Hann lagði þetta upp sem hálfgerða gestaþraut, ef ég kæmi með nógu góða þýð- ingu á titlinum nógu hratt og örugglega myndi hann treysta mér fyrir verkinu.“ Síðan þá hefur Guðrún einnig þýtt Nafnabókina eft- ir Nothomb sem og þríleik Erich-Emmanuels Schmitts auk bókar Claudels, Í þokunni. „Hún hafði legið á borðinu hjá mér í nokkurn tíma og ég kolféll ekkert fyrir henni í fyrstu at- rennu, var ennþá föst í fyrsta kaflanum þegar Snæbjörn komst lengra með hana og mælti eindregið með henni. Og þetta er ofboðslega falleg saga þegar maður kemst betur inn í hana. Tempóið í henni, þessi tregi og eftirsjá sem lúrir yfir allan tímann. Þannig að þegar við ákváðum að gefa hana út þá rétti þýðand- inn úr frönsku bara upp hönd, sem var ég.“ Titill bókarinnar á frönsku er Les âmes grises, sem þýðir bókstaflega Gráar sálir. Af hverju Í þokunni? „Sagan gerist í þessu litla þorpi, það er hæð og þetta er rétt við víglín- una, en hæðin byrgir þeim sýn að víglínunni. Það er talað um gráar sálir í bókinni en sál á frönsku þýðir ekki bara sál heldur líka ein- hvers konar andi, það er grár andi sem svífur yfir – og Gráar sálir finnst mér bara ekki fal- legt á íslensku. Þannig að ég ákvað að stund- um mætti maður láta fegurðina ráða. En ég fer samt alltaf í hringi, ég lendi oft í mótsögn við sjálfa mig þegar ég er að reyna að útskýra þetta. Það hefði ekkert verið að því að kalla bókina Gráar sálir. Mér finnst það bara ekki hljóma nógu fallega á íslensku. Mér finnst það kaldara, grár og gugginn, grámi … en þó væri hægt að segja það sama um frönskuna. Vandamálið var kannski helst það að Gráar sálir blasti svo beint við en ég var ekki sátt við þann titil.“ En hvernig var þýðingin unnin? „Ég hef alltaf þýtt í hjáverkum á frekar löngum tíma. Og ég þýði þannig að ég dröslast í gegnum bókina og finnst rosalegur áfangi þegar ég klára síðustu síðuna. Svo þyrmir yfir mig þeg- ar maður fer að skoða fyrstu kaflana aftur – þá á ég eftir að gera allt upp á nýtt. Ég var á fyrirlestri hjá Ingunni Ásdísardóttur þar sem hún sagði að hún glímdi við setninguna þang- að til hún væri komin – mér finnst það mjög aðdáunarvert verklag en ég bý ekki yfir því heldur göslast áfram en þarf í staðinn að fara aftur og aftur yfir.“ Búddamunkar, bófar og stigamenn Hjörleifur Sveinbjörnsson: Apakóngur á Silkiveginum Sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar frá fyrri öldum Hjörleifur Sveinbjörnsson var námsmaður í Kína á áttunda áratugnum þegar hann komst í kynni við sögurnar í Apakónginum og hefur lengi verið með bókina í maganum. „Ég hef kennt þetta með nokkuð löngu millibili í hin- um og þessum háskólum hérlendis. Þar var ég meðal annars með fyrstu drög að þýðingum úr þessum sögum, en það var bara brotabrot af því sem á endanum varð. Fyrir bragðið var þetta orðin tiltölulega þroskuð pæling þegar ég komst almennilega í þetta.“ Lokasprett- urinn hófst svo snemma árs 2007 og allt í allt tók lokahnykkurinn eitt og hálft ár þar sem Hjörleifur sinnti þessu verki að heita má ein- göngu. En vinnan snerist ekki síður um valið en þýðinguna sjálfa. „Bókin er hvergi til í heim- inum nema hér. Auðvitað eru til sýnisbækur og úrvalsbækur en akkúrat þetta val verður til í lúkunum á mér. Ég er með tiltölulega fá verk og reyni að vera með nokkuð langa búta, þetta er ekki sýnisbók þar sem koma fyrir hundrað verk heldur sýnisbók þar sem þau eru innan við tíu og hvert um sig fær heil- mikið pláss. Sem ritstjóri verksins tók ég mjög snemma þá stefnu að ramma þetta allt saman inn með inngöngum og skýringum því þótt þetta séu afþreyingarbókmenntir síns tíma og þannig lagað aðgengilegar þá þarf samt aðeins að útskýra og setja í samhengi og ég geri það með sérstökum inngangi að öllum lengri skáldsögunum og svo er ég með aðfara- orð fyrir hvern kafla fyrir sig. Þetta gerir bó- kima vonandi læsilegri, það eru engar neð- anmálsgreinar eða tilvísanir, þetta er bara lestrarbók fyrir almenning, hver sem þessi al- menningur kann nú að vera.“ En kæmi til greina að þýða einhver lengri verkanna í heild sinni? „Nei, ég sé ekki fyrir mér að maður myndi þýða eina af þessum miðaldaskáldsögum frá upphafi til enda, ég held að fólk lesi ekki bækur upp á 1.200 til 1.500 síður mikið núorðið.“ Það er mikið persónugallerí í þessum bók- unum og hver með sinn talanda. „Þarna eru allir sem nöfnum tjáir að nefna; búddamunkar og morðingjar, klausturhaldarar, hórur, fóg- etar, stigamenn … og það verður að ljá þessu fólki passlegt orðfæri – það gengur ekki að setja einhverja bóklega íslensku upp í bófa sem er á harðahlaupum undan réttvísinni, þá eru menn ekki með núþálegar sagnir uppi í sér.“ Og málfar þessara bóka hafði mikil áhrif á nútímakínversku. „Þetta er ekki klassísk knöpp kínverska, sem var orðin flestum alveg óskiljanleg undir lokin. En um það leyti sem keisaraveldið fellur, í byrjun 20. aldar, fara menn að leita að fyrirmyndum að brúklegra ritmáli sem væri nær því sem fólk var að nota. Þá voru þessar gömlu miðaldaskáldsögur fyr- irmynd sem menn sóttu í og nýttu sér heil- mikið úr. Þannig er uppsetning á setningum og orðaforða í kínverskum nútímaskáldsögum ekki svo ólík þannig lagað, þótt margt sé ólíkt í hugmyndaheiminum.“ Að borða eða reykja Erla Erlendsdóttir og Kristín Guðrún Jónsdóttir: Svo fagurgrænar og frjósamar Smásögur frá Kúbu, Púertó Ríkó og Dóm- iníska lýðveldinu „Titillinn er sóttur í leiðarbók Kristófers Kól- umbusar frá 1492-3. Þar skrifaði hann að aldr- ei hafi hann litið aðra eins fegurð. Honum þótti eyjarnar svo fagurgrænar og frjósam- ar.“ Þannig útskýrir Erla titil bókar þeirra Kristínar um karabískar smásögur. En hvern- ig varð þessi bók til? „Báðar höfðum við velt fyrir okkur að þýða smásögur frá þessum heimshluta og fannst tilvalið að slá saman í bók með smásögum frá spænskumælandi þjóðum í Karíbahafi. Kristín hafði lengi haft í huga að þýða eitthvað frá Púertó Ríkó, en hún var þar í námi á sínum tíma og hreifst mjög af smásagnahefð landsins. Ég hafði lengi haft áhuga á Kúbu og hafði á ferðum mínum þang- að sankað að mér bókum eftir kúbanska nú- tímahöfunda, einkum smásögum. Okkur fannst svo við hæfi að hafa þriðju systureyj- una, Dómíníkanska lýðveldið með, “segir Erla en þær Kristín kenna báðar spænsku við Há- skóla Íslands. „Það var mikil vinna að ýta verkefninu úr vör. Fyrir það fyrsta reyndist þrautin þyngri að velja sögurnar og að nálgast þær en það hafðist með aðstoð góðra manna og kvenna á eyjunum. Ætli það hafi ekki tekið á annað ár að lesa sögurnar og velja. Þýðingin sjálf tók líka sinn tíma enda báðar í fullri kennslu og þýtt í hjáverkum. Þetta var í senn krefjandi og skemmtilegt. Skemmtilegt að því leyti að við komumst í kynni við höfundana eða að- standendur þeirra sem eru látnir því við þurftum að fá þýðngar og birtingaleyfi. Fyrir vikið spurðist þetta út á eyjunum og hafa bæði vinir, kollegar og rithöfundar fylgst spenntir með framgangi verksins. Þegar bók- in kom svo loksins út var það tilkynnt á net- miðlum og heimasíðum höfunda.“ Auk sagnanna eru í bókinni fjölmargir inn- gangar, bæði frá þeim stöllum sem og fræði- mönnum frá eyjunum. „Í innganginum er far- ið yfir sögu eyjanna þriggja, einnig sögu og þróun smásögunnar þar. Við fengum til liðs við okkur þrjá fræðimenn frá eyjunum og hugmyndin var sú að þeir fjölluðu um smá- sagnaritun um og eftir aldamót.“ En hver er munurinn á sögum eftir eyjum? „Sögurnar spanna alla 20 öldina svo þær eru frá afar ólíkum tímabilum. Þær endurspegla tíðarand- ann hverju sinni. En saga eyjanna er um margt lík og örlög þeirra svipuð. Allar börðust þær fyrir sjálfstæði. Sú barátta endaði oft öðruvísi en ætlað var. Sumar bjuggu áratug- um saman við einræði, sumum var stjakað út úr samfélagi þjóða af því þær vildu fara sínar eigin leiðir og enn aðrar fengu aldrei sjálf- stæði og eru enn nýlendur eða hjálendur.“ Að Róbinson Krúsa hjarta Sölvi Björn Sigurðsson: Árstíð í helvíti e. Arthur Rimbaud Sölvi Björn Sigurðsson rithöfundur hefur sinnt þýðingum jöfnum höndum með skáld- skapnum undanfarin ár. En hver var kveikjan að því að þýða Rimbaud? „Ég fór í tungu- málakúrs til Frakklands fyrir tíu árum og byrjaði þá að lesa hann að einhverju ráði. Glósur urðu að þýðingum og þannig vatt þetta bara upp á sig. Rimbaud er náttúrlega eitt af þessum risastóru nöfnum í bókmenntasög- unni, kannski þekktastur af sínum ungæð- islega hroka en það er bara svo miklu meira á bak við hann. Hann er einn af stóru módern- istunum og ég held að framlag hans hafi síst verið ofmetið. Svona þýðingarferli gefur manni líka persónulega sýn á skáldið sem maður fæst við og um leið hefur það áhrif á manns eigin hugmyndir um skáldskap. Maður fær heilmikið út úr þessu.“ En þetta var ekki auðvelt verkefni. „Þetta var nú aðallega svolítið löng glíma. Maður vill alltaf vanda sig en krafan um slíkt er kannski enn meiri þegar kemur að ljóðaþýðingum, ekki síst á skáldi eins og Rimbaud þar sem beiting og blæbrigði tungumálsins er eitt af stóru viðfangsefnunum. Maður vill ekki fara of frjálslega með þetta en að sama skapi má þetta heldur ekki vera of stíft eða dauðyfl- islegt. Á endanum neyðist maður þó bara til að segja þetta gott og láta aðra um að dæma hvernig til hefur tekist.“ En þýðing er líka nýsköpun. „Ég man að minnsta kosti eftir einu nýyrði úr ljóðinu „Ævintýri“, sem er eitt bundnu ljóðanna í við- aukanum. Þar kemur fyrir ljóðlínan „Er æv- intýrin Krúsar hamslaust hjarta“ sem er þýð- ing á frönsku línunni „Le cæur fou Robinsonne a travers les romans“. Rimbaud notast þarna sjálfur við nýyrði í frumtext- anum, sem er raunar býsna lýsandi fyrir fag- urfræði hans. Sögnin „Robinsonner“ vísar til Robinson Crusoe og væri bein þýðing því nokkurn veginn „Tryllta hjartað Róbinsónar gegnum ævintýrin“. Það er svo bara dæmi um heppilega tilviljun að slangursögnin „krúsa“ skuli fanga beinu merkinguna um leið og hún yfirfærir merkingaraukann í frumtextanum, með því einu að gera lítið „k“ að stóru „K-i“. Svona smátilviljanir gera þýðingarvinnuna skemmtilega. Jafnvel þótt maður sé fyrirfram rígbundinn af texta annars höfundar er alltaf rými fyrir smásköpun í yfirfærslunni. Fyrir vikið finnst manni eins og maður sé örlítill þátttakandi í framhaldslífi verksins og það er auðvitað alveg frábært.“ Morgunblaðið/Ómar Þýðendur Erla Erlendsdóttir, Árni Óskarsson, Guðrún Vilmundardóttir og Hjörleifur Stefánsson voru tilnefnd til þýðingarverðlauna fyrir verk sín, auk þeirra Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur og Sölva Björns Sigurðssonar, sem voru fjarverandi er myndin var tekin. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. APRÍL 2009 Lesbók 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.