Morgunblaðið - 11.02.2009, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 11.02.2009, Blaðsíða 35
Minningar 35 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. FEBRÚAR 2009 votta ykkur öllum mína dýpstu samúð. Megi æðri máttur veita ykkur stuðning og styrk á þessari erfiðu stundu og vaka yfir ykkur um ókomna tíð. Agnes Agnarsdóttir. Eftir fisklausa ferð í Veiðivötn varð til Fiskivinafélagið Aflabrest- ur, hópur félaga sem hefur gert þessa ferð að árvissum viðburði. Eftir nokkurra ára hlé var Guðjón klár í slaginn að nýju. Þessar ferðir eru löngu hættar að snúast um hver veiðir hvað, heldur eru þar saman komnir félagar sem komu sér út úr amstri hversdagsins og héldu í sína paradís uppi á Land- mannaafrétti. Vissulega var veiðin stunduð af kappi, en það var alveg tryggt að nægar birgðir matar og drykkja væru meðferðis. Það var þó gleðin og grínið sem varð að vera til staðar. Guðjón var fljótur að lesa félagana, ná því sem til þurfti og var innan stundar orðinn hluti af þessum góða vinahópi. Hann var því staðráðinn í að gang- ast undir þau ströngu skilyrði sem sett voru nýliðum við inngöngu í félagið. Nú var Veiðivatnaferðin farin að skipa stóran sess í lífi okkar allra. Og þurfti ekki annað en innheimtu veiðigjalda á miðjum þorra til að glaðværð og tilhlökkun færðist yfir félagana. Berast fóru sendingar frá Guðjóni þar sem farið var að hita upp fyrir komandi ferð og í stað virðulegrar lögmannsundirritunar var nú „Gaui aflakló“. Loks var komið að næstu ferð og hafði Guð- jón þá fest kaup á gömlum Land Rover. Þar væri lúxusjeppi á ferð sem tekið yrði eftir. Með hann full- lestaðan mat, drykkjum og veið- arfærum óskuðu þeir bræður, Guð- jón og Bergur, eftir „hóflegu“ forskoti við upphaf ferðar, því ekki var ljóst hvað leggjandi var á gamla jeppann. Rykmettaðir stigu þeir bræður út á áfangastað, fullir stolti yfir getu þess gamla sem átti eftir að gera þessa ferð ógleym- anlega. Úr óþrjótandi hugmynda- smiðju Guðjóns barst ávallt eitt- hvað óvænt, ef ekki var gerður mynddiskur eða fréttabréf Fiski- vinafélagsins sem borið var út sem stefna af stefnuvottum, var eitt- hvað óvænt dregið upp úr pok- anum þegar við átti. Það var ekki síst fyrir tilstuðlan Guðjóns að þessi góði vinahópur vakti eftirtekt fyrir uppátæki og lífsgleði á ferð- um sínum um Veiðivötn. Í síðustu ferð kvað aðeins við nýjan tón í fréttabréfi Guðjóns. Hann lagði til að nú skyldi sungið „Hærra, minn Guð til þín“ og „Kallið er komið“ í bland við hefð- bundna söngva. Við vorum með öllu grunlausir um að kallið skyldi koma svo fljótt. Ekki verður lýst með orðum þeirri miklu sorg sem yfir hópinn færðist þegar okkur bárust fréttir af því hörmulega slysi sem leiddi til fráfalls þessa frábæra félaga. Hann var sannur vinur. Þórdís, Hjörtur, Harpa. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð á þessum erfiðum tímum. Sorgin er þung og söknuðurinn mikill. Kári, Sævar, Bergur, Hannes og Guðmundur. Mig langar að minnast í nokkr- um orðum Guðjóns Ægis Sigur- jónssonar, frænda míns og fóst- bróður sem lést hinn 5. janúar sl. Gaui var tæpu ári yngri en ein- birnið ég og var hann mér, líkt og eldri bræður hans tveir, sem bróð- ir. Ég var oftar en ekki tekinn með þegar stórfjölskyldan skrapp í heimsókn til afa hans og ömmu á Breiðabólstað og heimili Mansa frænda og Pálínu foreldra hans var sem mitt annað heimili. Fótboltinn átti hug okkar allan og á flötinni hjá Bergi afa og Auði ömmu á Austurvegi 51 áttu við okkar einkavöll, „Bergs-family Ground“. Þarna lékum við hetjur þess tíma, Clemence, Shilton, Jennings, Banks og Grobbelaar stóðu til skiptis á milli stanganna á meðan Keegan, Dalglish, Stapleton, Dixon o.fl. gerðu sitt besta til að skora framhjá þeim í markið sem Addi frændi hafði smíðað fyrir okkur. Skipti ekki máli hvort það var ný- ársdagur eða sólríkur sumardagur, alltaf var verið að sparka. Eins og gengur liggja leiðir manna í mismunandi áttir þegar kemur að framhaldsnámi og alvara lífsins tekur við. Þrátt fyrir að við værum ekki inni á gafli hvor hjá öðrum lengur var engu að síður alltaf gott samband og mikið hlegið þegar menn hittust. Gaui var ávallt kátur og bjart- sýnn og hafði fjölskylduna og vini í öndvegi. Eftir að við Herdís flutt- um heim frá London sumarið 2003 var Gaui fyrsti maður sem talað var við varðandi húsnæðiskaup og síðar veitti hann mér ómetanlega hjálp í fyrirtækjarekstri mínum, al- veg var sama hvenær maður hafði samband alltaf hafði hann tíma til að spjalla, fara yfir stöðuna og meta málin af yfirvegun. Síðustu ár störfuðum við tölu- vert saman í kringum fótboltann á Selfossi en þar áttum við sameig- inlegan draum um að sjá Selfoss spila í Úrvalsdeild og sagði hann öllum sem vildu heyra að „Selfoss FER í Úrvalsdeild“. Litlu munaði að þessi draumur rættist í fyrra- sumar. Ef leikmenn Selfoss sýna brot af því keppnisskapi og bjart- sýni sem einkenndi Gauja er ekki útilokað að þessi draumur kappans verði að veruleika á þessu ári. Eins og áður segir var lífsgleði og fordómaleysi hans til eftir- breytni, hann lifði lífinu lifandi, ferðaðist mikið, hljóp New York- og London-maraþon, bókaði menn í fótboltaferðir erlendis með nokk- urra klukkutíma fyrirvara og svo mætti lengi telja. Þegar við Herdís giftum okkur sumarið 2006 kom enginn annar en Gaui til greina sem veislustjóri, það verkefni leysti hann að sjálfsögðu með snilld eins og honum einum var lagið. Elsku frændi, það er ólýsanlega sárt að sjá á eftir þér, manni í blóma lífsins en eftir stendur minn- ing um einstakan öðling og lífsgildi þín munu veit mér innblástur um ókomna tíð. Það voru voru sönn forréttindi að eiga vináttu þína. Elsku Þórdís Erla, Hjörtur Leó, Harpa Hlíf, Sigurjón frændi, Pál- ína, Bergur Tómas, Gylfi Birgir og fjölskyldur, við sendum ykkur okk- ar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan guð um að veita ykk- ur styrk á þessum erfiðu tímum. Orri Ýrar, Herdís og Arilíus Smári. Elsku Gaui. Hvernig má það vera að hann Gaui sé farinn, svona langt fyrir aldur fram, orð fá ekki lýst. Guðjón eða Gaui eins hann var alltaf kallaður var einstakur dreng- ur, hann hafði allt það sem góðan mann prýðir, hann hlustaði á fólk og gaf sér alltaf tíma, yfir honum var alveg sérstök birta og glettni. Sorgin leggst þungt yfir brjóstið og hugurinn reikar aftur til allra þeirra einstöku minninga sem við geymum af okkar samverustund- um. Fordómalaus, traustur og um leið glettinn, það var þinn karakt- er, Gaui, alltaf til staðar, alltaf kát- ur og dæmdir aldrei, þín er sárt saknað, kæri vinur. Eins og gengur og gerist í litlum bæjarfélögum lágu leiðir okkar saman frá barnæsku, leikir í Stekkholtinu, þú varst „Stekk- holts“ og svo í gegnum allan grunnskóla. Það lá alveg ljóst fyrir strax í grunnskóla að Gaui ætti eft- ir að láta að sér kveða í lífinu, svo hugprúður og góður drengur. Gaui framkvæmdi, hann fór ferðirnar, hann ræktaði vini sína og lifði líf- inu, eitthvað sem við gætum öll tekið okkur til fyrirmyndar. Það var svo hausti 1998 sem okkar vin- skapur dýpkaði og samverustundir okkar urðu fleiri, eða þegar kon- urnar skelltu sér í fyrirtækjarekst- ur, svo kom Himalaya-klúbburinn og allar ferðirnar sem farnar voru með börn og buru. Utanlandsferð- irnar, fótboltaferð, Mallorca-ferð, að ógleymdri heimsókn ykkar til okkar í Horsens, þetta eru ómet- anlegar minningar í dag sem við munum geyma í hjarta okkar að ei- lífu. Við munum alltaf muna þig með glettni í augum og erum þakk- lát fyrir þann heiður að fá að þekkja þig. Hvíl í friði, elsku Gaui, og takk fyrir vináttuna. Ó, blessuð stund, er hátt í himinsölum minn hjartans vin ég aftur fæ að sjá og við um okkar ævi saman tölum, sem eins og skuggi þá er liðin hjá. (M. Joch.) Elsku Þórdís, Hjörtur Leó og Harpa Hlíf, við sendum ykkur okk- ar dýpstu samúðarkveðjur, elsku vinir. Megi guð styrkja ykkur og leiða á þessum erfiðu tímum. Snorri, Fjóla, Daníel Arnór og María Ísabella. Elsku Gaui frændi. Þegar ég heyrði þær hræðilegu fréttir mánudaginn 5. janúar að þú hefðir lent í þessu ömurlega slysi, vildi ég nú eiginlega ekkert trúa þeim fyrst, þetta gat bara ekki ver- ið satt. Þú svona frábær maður sem öllum þótti vænt um og allir höfðu gaman af. Þetta var of ósanngjarnt til að vera satt! Ég mun alltaf muna allar þær frábæru stundir sem við höfum átt saman, feðgaveiðiferðin sem við fórum í hittifyrra með pabba, Hirti Leó, Grím og honum Hergeiri var ein skemmtilegasta ferð sem ég hef farið. Ég er svo svekktur að hafa ekki komist síðast að á því eru eng- in takmörk. Og Þorláksmessan hjá ömmu og afa í Stekkholtinu verður sko alls ekki sú sama án þín, elsku frændi. Elsku frændi, lífið verður ekki samt án þín. Það er svo ótrúlega margt sem mig langar til að þakka þér fyrir, en fyrst og fremst vil ég þakka þér fyrir að hafa verið til, þú hefur allt- af verið mikil fyrirmynd hjá mér og ég litið mikið upp til þín. Ef ekki hefði verið fyrir þig hugsa ég að ég og Aldís hefðum komið heim frá Danmörku, og ekki getað klár- að námið okkar eins og nú stefnir í, það er þér að þakka að við erum ennþá þar. Ég hugsa að við höfum aldrei þakkað þér nóg fyrir þessa aðstoð. Elsku Þórdís, Hjörtur Leó, Harpa Hlíf, amma, afi, pabbi, mamma, Gylfi og Linda og þið öll sem þekktuð þennan yndislega mann, guð gefi okkur öllum styrk til að takast á við þessa gífurlegu sorg sem nú fyllir hjörtu okkar. Við skulum minnast Guðjóns eins og hann var, með gleði í hjarta og full af lífskrafti og löngun til þess að lifa og njóta þess að vera til. Elsku Gaui, ég vona að þér líði vel og bið góðan guð að geyma þig, við höfum öll eignast besta vernd- arengil sem nokkur getur hugsað sér. Þakka þér fyrir allar stund- irnar sem við höfum átt. Og mundu alltaf „þú ert aldrei einn“ eða „yo- u’ll never walk alone“. Við sjáumst seinna elsku frændi, þangað til mun ég sakna þín á hverjum degi. Farðu í friði vinur minn kær faðirinn mun þig geyma. Um aldur og ævi þú verður mér nær aldrei ég skal þér gleyma. Svo vöknum við með sól að morgni svo vöknum við með sól að morgni. (Bubbi Morthens.) Þinn frændi Sigurjón Bergsson jr. og Aldís Þóra. Okkur systur langar í nokkrum orðum að minnast Rögnu, móður- systur okkar, sem lést hinn 11. jan- úar sl. Við rifjum nú upp mörg minningarbrot frá bernsku okkar vestan frá Erpsstöðum sem var jafnframt hennar bernskuheimili. Ragna fæddist á Erpsstöðum í Dölum og ólst hún þar upp í stórum systkinahópi. Þau eru nú öll fallin frá nema Dóra, fóstursystir þeirra. Þegar við ólumst upp var Ragna flutt til Reykjavíkur en kom oft í heimsóknir á sumrin og sendi okkur glaðning úr borginni sem gladdi okkur mikið. Eftir að Ragna fluttist til Reykjavíkur bjó hún alla tíð á Laugavegi. Hún réðst til hjónanna Kristjönu og Níelsar Carlssonar sem vinnukona eins og tíðkaðist á þeim tíma. Þeirra fjölskylda varð fjölskylda hennar alla tíð síðan. Ragna fylgdist vel með sínum systrabörnum og nutum við þess ríkulega. Ragna og systkin hennar komu gjarnan á sumrin að Erps- stöðum, tóku þátt í sveitastörfunum og fræddu okkur um mannlífið eins og það var á þeirra uppvaxtarárum. Þau voru öll alin upp á Erpsstöðum, kunnu öll kennileiti og höfðu mikið gaman af að rifja upp skemmtilegar stundir frá sinni bernsku. Ættartengslin voru sterk og margra gleðistunda að minnast það- an en ekki síður eftir að öll systk- inin voru flutt á höfuðborgarsvæðið. Ragna hafði alltaf mikil samskipti við systkini sín og fjölskyldur þeirra. Hún vildi fylgjast með sínu fólki, var minnug á afmælisdaga og hringdi inn hamingjuóskir. Við söknum nú símtalanna sem við átt- um við hana reglulega. Ragna hélt sínu meðfædda félagslyndi og glað- værð fram á síðustu stund. Þær systur höfðu mjög gaman af að hitt- ast og er í minnum haft þegar þær sáu skoplegar hliðar á mannlífinu og oft var hlegið dátt. Ragna hafði allt- af gaman af þegar ættingjar og vin- ir komu saman og þegar hún varð 90 ára var henni haldið afmælishóf sem hún naut til hins ýtrasta. Jafn- framt fór hún þá í ferð á æskustöðv- ar sínar að Erpsstöðum með Dóru, fóstursystur sinni, og öðrum ætt- ingjum. Hún hafði alla tíð sterkar taugar til æskustöðva sinna og spurði frétta af mönnum og mál- efnum. Við þökkum samfylgd á lífsins leið þar lýsandi stjörnur skína og birtan himneska björt og heið hún boðar náðina sína en Alfaðir blessar hvert ævinnar skeið og að eilífu minningu þína. (Vigdís Einarsdóttir.) Að leiðarlokum þökkum við og fjölskyldur okkar, Rögnu samfylgd- ina í gegnum árin. Dóru, fóstursyst- ur hennar, og öllum þeim sem henni voru kærir, sendum við innilegar samúðarkveðjur. Við minnumst elsku Rögnu, okkar kæru móður- systur, með virðingu og þökk. Anna, Guðrún og Svanhildur. Anna, Ragna og Veiga. Anna, Ragna og Veiga. Anna, Ragna og Veiga. Í minningunni hljóma þessi nöfn eins og músík. Þau voru yfirleitt nefnd í sömu andrá, Anna, Ragna og Veiga, hratt og ákveðið. Þetta voru ógiftar systur mömmu, konur á besta aldri þegar ég var að alast upp. Þessar glaðlegu og góðu frænkur mínar komu með bros á vör inn á æskuheimili mitt, þar dvaldist afi minn og hann gladdist líka við að sjá þessar föngulegu dætur sínar. Mamma veitti kaffið og svo var spjallað og hlegið. Mikið fannst mér til um framandi vellykt- andi, krem- og púðurlykt sem þær báru með sér og falleg smekkleg fötin, því þeim þótti öllum gaman að halda sér til. Ekki skemmdi að þær voru allar svo undur góðar við mig. Ragna er síðust þeirra systra til að kveðja, 91 árs að aldri, og er nú fóstursystirin Dóra ein eftir af stóra barnahópnum sem ólst upp á Erps- stöðum á fyrri hluta síðustu aldar. Ragna fór ung í vist til Reykja- víkur, nánar tiltekið settist hún að við lífæð Reykjavíkur, Laugaveg- inn. Á Laugavegi 39 hefur hún búið allar götur síðan, fyrst sem vinnu- stúlka, en síðan sem órjúfanlegur hluti fjölskyldunnar, fyrst þeirra Níelsar og Kristjönu og dótturinnar Dísu, sem var tveggja ára þegar Ragna birtist í lífi hennar. Síðan var hún stórum barnahópi Dísu og Ás- geirs sem besta amma. Öll elskuðu þau Rögnu sem það skjól sem henni var svo lagið að skapa með mildi sinni og fórnfýsi og barnabörnin voru líka umvafin þegar þau komu til. Enginn endir var á umhyggju hennar og aftur umhyggju þeirra þegar Elli kerling barði að dyrum síðustu árin. Ragna var fram á síðasta dag á Laugaveginum afar gestrisin, alltaf sérlega snyrtileg, ættrækin og skyldurækin, viðræðugóð um hin ýmsu efni, hógvær en þó ákveðin. Kankvísa og slétta á vanga sá ég hana heima á Laugaveginum á að- fangadagsmorgun. Nú hefur hún kvatt, sjálfsagt komin heim í faðm systkinanna og þar átti Anna systir hennar sérstakan sess umfram aðra. Þó að Rögnu væri ekki lagið að gera mannamun voru þær Anna nánastar, ferðuðust saman utan- lands sem innan og báðar voru þær saumakonur, en um margra ára skeið vann Ragna á saumastofu sem var á planinu á bak við húsið á Laugaveginum. Anna skipaði líka sérstakan sess í mínu lífi, um 20 ára skeið daglegur gestur hjá mömmu, síðan eins konar amma fyrir börnin mín. Á sinn hæg- láta hátt létti Ragna missinn þegar Anna dó, hún sem þó hafði misst mest. Þannig var hún, alltaf reiðubúin að gera sitt besta. Móeiður Gunnlaugsdóttir. Ragna mín kvaddi á sama hátt og hún lifði, róleg og yfirveguð. Minn- ingar mínar um Rögnu lifa áfram og fylla tómarúmið sem ég upplifi nú. Ragna var mér í senn amma, mamma og trúnaðarvinkona. Fyrstu ár mín ólst ég upp á hæð- inni fyrir ofan Rögnu á Laugaveg- inum, í húsinu hans langafa, og ein- kennast minningarnar þessi ár af að þar var Ragna ávallt til staðar. Eftir að fjölskylda mín flutti aftur til landsins eftir sex ára dvöl í Kaup- mannahöfn var enn á ný búið á Laugaveginum. Dyrnar hjá Rögnu stóðu alltaf opnar sem og allir hennar skápar með gersemunum í augum lítilla barna. Heilu og hálfu dagarnir hjá okkur frændsystkinum fóru í að klæða okkur í fötin hennar, skóna og setja á okkur skartgripi og svona þrömmuðum við um stigaganginn sem var konungshöllin okkar og sé ég silfurskóna fyrir mér enn í dag. Eftir því sem við eltumst breyttust leikirnir og Ragna tók þátt af full- um krafti og leyfði okkur allt. Söng- keppnir voru háðar bak við luktar dyr í stofunni og allt tekið upp á segulbandstæki og spilað svo fyrir Rögnu sem hlustaði af lífi og sál. Aldrei leiddist mér að vera í heim- sókn, ef við höfðum ekki meira til að tala um gripum við í spil. Ég og Árni Beck bróðir bjuggum í eitt ár hjá Rögnu í tveggja her- bergja íbúðinni á unglingsaldri. Við áttum yndislegar stundir þetta eina ár og aldrei fundum við fyrir því að við værum á nokkurn hátt fyrir henni. Við Ragna höfðum gaman af því að rifja upp þessar stundir okk- ar og var henni ávallt efst í huga hvernig hún bjó um mig til svefns á gólfinu við hliðina á rúmi hennar og um Árna Beck í sófanum. Ég man ekki eftir því að Ragna hafi nokkurn tímann byrst sig við okkur krakkana og einu skilyrðin sem hún setti á sínu heimili voru þau að ávallt ætti að borða brauð á undan köku og aldrei fara út á sval- irnar, þessi skilyrði voru enn við lýði til síðasta dags. Í dag jarð- syngjum við bestu konu sem ég hef kynnst, ég veit að hún mun fylgjast með okkur og við vonandi gera hana glaða. Bless elsku Ragna mín og takk fyrir mig og mína. Guðrún Björg Gunnarsdóttir. Elsku Ragna, nú er komið að kveðjustund og takk fyrir allt. Megi gæfan þig geyma, megi Guð þér færa sigurlag. Megi sól lýsa þína leið, megi ljós þitt skína sérhvern dag. Og bænar bið ég þér, að ávallt geymi þig Guð í hendi sér. (Þýð. Bjarni Stefán Konráðsson) Vottum Halldóru, Móu og öðrum aðstandendum Rögnu samúð okkar. Guðmundur, Guðrún, Tómas, Ragnar og Tína.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.