Morgunblaðið - 20.07.2009, Blaðsíða 8
8 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 20. JÚLÍ 2009
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
GAMLA landgræðsluflugvélin, Páll
Sveinsson, fór á gamalkunnugar
slóðir um helgina. Þristurinn tók
þátt í flugkomu á Húnavöku á
Blönduósi og var flogið inn yfir
Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðar.
Þar gegndi hann á sínum tíma lyk-
ilhlutverki við uppgræðslu lands í
stað þess sem fór undir vatn við
gerð Blönduvirkjunar.
Landgræðslan tók að sér að
græða upp land á Auðkúlu- og Ey-
vindarstaðaheiðum fyrir Lands-
virkjun, samkvæmt samningum
sem gerðir voru við bændur og
sveitarfélög. Sveinn Runólfsson
landgræðslustjóri segir að þetta
hafi ekki verið hefðbundin land-
græðsla heldur beinlínis til að fram-
leiða fóður fyrir sauðfé í stað þess
gróðurs sem fór undir Blöndulón.
Unnið hefur verið að þessu verkefni
síðan, fyrst á báðum heiðunum en
eingöngu á Eyvindarstaðaheiði eftir
að Landsvirkjun samdi við sveitar-
félögin um lokabætur fyrir landið á
Auðkúluheiði.
Tókst frábærlega vel
Landgræðsluflugvélin Páll
Sveinsson var notuð við áburð-
ardreifinguna á árunum 1981 til
1995 en eftir það tóku bændur að
sér vinnuna með tækjum á jörðu
niðri. „Þristurinn vann þarna mikið
verk enda afkastamikið tæki,“ segir
Sveinn. Atvinnuflugmenn unnu alla
tíð við landgræðsluflugið sem sjálf-
boðaliðar.
Sáð var í um 5 þúsund hektara
lands og gróðrinum haldið við með
áburðargjöf. Ekki var vel spáð fyrir
þessu verkefni í upphafi enda var
verið að græða upp gróðurlausa ása
og hæðir í 450 til 500 metra hæð yf-
ir sjávarmáli. Það átti að koma í
stað gróðurs sem þróast hafði í ár-
þúsundir á lægstu svæðum heið-
anna. „Eftir á að hyggja tókst þetta
verkefni frábærlega vel, miðað við
hversu hátt þetta land stendur,“
segir Sveinn.
Á meðan unnið var að upp-
græðslunni hafði Landgræðslan að-
stöðu við flugbraut á heiðinni.
Þangað var áburðurinn fluttur og
settur á tank vélarinnar. Sú hug-
mynd kom upp að lenda Páli
Sveinssyni þar um helgina, til að
minnast starfsins, en þar sem
brautin er ekki skráður flugvöllur
fékkst ekki leyfi til þess.
Ljósmynd/Sigurður Ólason
Sögufræg flugvél Páll Sveinsson flaug yfir Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðar en á sínum tíma gegndi hann lykil-
hlutverki í uppgræðslu landsins. Landgræðslan fékk vélina gefins 1972 og var hún notuð til áburðarflugs til 2007.
Páll Sveinsson lítur yfir árangurinn
Landgræðsluvélinni Páli Sveinssyni flogið yfir Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðar
Vélin gegndi lykilhlutverki við uppgræðslu heiðanna Græddir voru upp 5.000 hektarar lands
Í HNOTSKURN
»Douglas DC-3 flugvélinPáll Sveinsson var smíðuð
1943 og notaði Bandaríkjaher
hana á Keflavíkurflugvelli.
»Flugfélag Íslands keyptivélina 1946 og hlaut hún
nafnið Gljáfaxi. Hún var notuð
til farþegaflugs innanlands og
til Grænlands.
»Flugfélagið gaf Land-græðslunni Þristinn 1972.
Fékk vélin nafnið Páll Sveins-
son og var notuð til áburð-
arflugs til 2007.
»Þristavinafélagið varstofnað 2005 til þess að
halda merki flugvélarinnar á
lofti.
Áætlað er að það kosti 30 milljónir kr. að breyta Páli
Sveinssyni í farþegaflugvél á ný. Icelandair hefur boð-
ist til að leggja fram vinnu en Tómas Dagur Helgason,
formaður Þristavinafélagsins, segir ekki ljóst hvenær
hægt verði að ráðast í það verk.
Eftir að Landgræðslan afhenti Þristavinafélaginu
DC-3 flugvélina til varðveislu og rekstrar hefur verið
reynt að halda henni í flughæfu ástandi. Jafnframt
hefur verið unnið að undirbúningi breytinga á henni í
farþegavél en þannig þjónaði hún landsmönnum á
vegum Flugfélags Íslands í áratugi.
Fjórir nemendur í rekstrariðnfræði við Háskólann í
Reykjavík afhentu fyrir skömmu Þristavinafélaginu
viðskiptaáætlun um breytingar á flugvélinni og rekst-
ur hennar til skemmti- og útsýnisflugs. „Þetta mun
gagnast okkur vel við þessa vinnu,“ segir Tómas Dag-
ur.
Taka þarf áburðargeyminn úr flugvélinni og færa
hana til upphaflegs horfs. Reiknað er með að 18 sæti
verði í vélinni en 28 sæti voru í henni þegar hún var
notuð til farþegaflugs. Tilgangurinn er að gefa fé-
lögum kost á að fljúga með þessari merku vél í ís-
lenskri flugsögu. helgi@mbl.is
Breytt aftur í farþegavél
Morgunblaðið/Rax
Þristurinn Páll Sveinsson í sínum gamla búningi.
Eftir Sigurð Boga Sævarsson
sbs@mbl.is
ÞORBERGUR Ingi Jónsson úr ÍR
sló nýtt met í karlaflokki í Lauga-
vegshlaupinu sem haldið var um
helgina. Hann hljóp úr Laugum í
Þórsmörk á 4:20:32 klst. Fyrra met
var nítján mínútum lakara, sett af
Bandaríkjamanninum Charles
Hubbard fyrir nokkrum árum. Í
kvennaflokki sigraði Hólmfríður
Vala Svavarsdóttir, en hún hljóp
þessa leið, sem er 55 km löng, á
5:33:10 klst. Þátttaka í Laugavegs-
hlaupinu að þessu sinni var mjög
góð. Alls var 321 keppandi ræstur
af stað og í mark náðu 313. Út-
lendingar í hópi keppenda voru
tæplega 60.
„Ég þóttist vita að ég gæti fellt
gildandi met sem mér líka tókst.
Var að gæla við að ná þessu á 4:30
sem er níu mínútum betri tími en
metið í karlaflokki var,“ segir Þor-
bergur Ingi Jónsson. Hann segist
strax hafa náð góðu skriði og hafi
því vaxið ásmegin í hverju skrefi.
Salttöflur hafi sér verið mikil-
vægar sem vökvabinding og orku-
drykkir ýmiskonar hafi gert sér
gott í hlaupinu sjálfu.
„Ég æfði mig ekkert sérstaklega
fyrir þetta, hef raunar mest verið í
millivegalengdum; 1.500 m og
5.000 m. Á Laugaveginum fannst
mér leiðin úr Landmannalaugum í
Hrafntinnusker erfið yfirferðar.
Þar eru fannir sem maður verður
að hlaupa yfir og stundum spólar
maður hreinlega. Aðrir hlutar leið-
arinnar voru mun auðveldari, til
að mynda sandarnir milli Álfta-
vatns og Emstra,“ segir Þorbergur
sem telur sig raunar hafa geta náð
í mark einhverjum mínútum fyrr
en raunin varð. Sér hafi hins vegar
þótt rétt að ofgera sér ekki. Á
áfangastað náði Þorbergur fyrr en
flestir bjuggust við – og þeir sem
stóðu vaktina í Þórsmörk náðu
ekki að ræsa markklukkuna fyrr
en 15 sek. áður en hann náði að
línunni.
Veit hvað ég get
„Ég setti mér markmið sem öll
gengu eftir. Sjálf veit ég líka hvað
ég get,“ segir Hólmfríður Vala
Svavarsdóttir, sigurvegari í
kvennaflokki. Þannig ætlaði hún
að ná í Hrafntinnusker á 1:10 klst.
og það stóð á pari. Eins gekk á
öðrum leggjum leiðarinnar og í
mark náði hún á 5:33 klst. „Þegar
komið var í Hvanngil vorum við
þrjár á líku róli en ég náði þessu á
endasprettinum,“ segir Hólmfríður
sem bætti árangur sinn á Lauga-
vegi um hálfa klukkustund milli
ára.
Öll markmið gengu eftir
Hlaupari sló nýtt Laugavegsmet um helgina Mikil þátt-
taka og flestir komust heilu og höldnu á leiðarenda
Hlaupadrottningar Hólmfríður Vala Svavarsdóttir er í miðið. Stallsystur
hennar sem lentu í næstu sætum eru við hlið hennar.
Ljósmyndir/Margrét Hauks
Hlaupakóngar Sigurvegarar í karlaflokki, Þorbergur Ingi Jónsson er fyrir
miðju. Keppendurnir sem lentu í 2. og 3. sæti eru honum til hvorrar handar.
Í HNOTSKURN
»Gildandi karlamet íLaugavegshlaupinu var
bætt um nítján mínútur. Metið
er nú komið í niður í 4:20 klst.
»Laugavegurinn er 55 kmlangur, úr Landmanna-
laugum suður í Þórsmörk.
Hlaupið er um fannir og yfir
sanda.
»Alls var 321 keppandiræstur af stað og náðu 313
í mark. Útlendingar í hópi
keppenda voru tæplega 60
talsins.
Laugavegurinn Metþátttaka var í hlaupinu í ár og aðstæður allar hinar
ákjósanlegustu til að fara yfir urð og grjót, grösugar grundir og læki.