SunnudagsMogginn - 16.01.2011, Blaðsíða 29

SunnudagsMogginn - 16.01.2011, Blaðsíða 29
16. janúar 2011 29 mjög spennandi og allt annað en leiðinlegt.“ Þú segist vera pólitískur, ertu vinstrisinn- aður? „Ég er sósíaldemókrati, eins og við erum flest, við göngumst bara misjafnlega við því. Þeir sem eiga peninga vilja ekki vera sósíaldemókratar því þeir vilja endilega fá að komast fram fyrir röðina á spítölunum. Ef þeir ættu ekki peninga væri við- horf þeirra annað. Mér hefur alltaf fundist Ísland of lítið land fyrir stéttaskiptingu, við erum of fá til að allir fái ekki sömu möguleikana á góðri heilsugæslu og ódýrri menntun. Kommon! Og kommon, skilanefndir. Ekki setja tóninn fyrir hið nýja Ísland eins og þið eruð að gera með því að rukka himinhá laun. Þið eruð ekki svona spes. Ekki missa alla tengingu við raunveruleikann þó þið vinnið með peninga. Farið bara heim að lesa bókmenntir og mæta á íþróttaæfingar með börn- unum ykkar.“ Ætla að skrifa meira fyrir börn Þú ert leikari, leikstjóri og skrifar barnabækur. Er eitthvað af þessu sem skiptir þig meira máli en annað? „Ég lærði að leika og mig langar alltaf að leika. Með því að leika í áramótaskaupinu fékk ég útrás fyrir leikaraþörfina sem er kannski ein ástæða þess að mér tókst vel upp. Ég fór út í leikstjórn af tilviljun en það starf á vel við mig. Mér finnst gaman að skipta mér af öllum sköpuðum hlutum í leikhúsinu. Mér finnst ég ekki hafa skrifað nóg og ætla að breyta því. Ég ætla að skrifa meira fyr- ir börn. Mér finnst ég geta það. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég tvær barna- bækur um Gogga og Grjóna og bók um Grýlu sem fengu góðar viðtökur. Fyrir jólin skrifaði ég barnabók með Björgvini Franz Gíslasyni, Nornin og dularfulla gauksklukkan, sem er æv- intýrasaga. Núna er miklu meira að gerast í barnaútgáfu en þegar ég sendi frá mér fyrri barnabækurnar, það eru fleiri titlar og fleiri góð- ar bækur á markaði. Maður þarf að bretta upp ermarnar ef maður ætlar að vera með í þeirri keppni. Hins vegar verð ég að kvarta undan við- brögðum bókmenntagagnrýnenda og fjölmiðla- manna við barnabókum. Barnabækur fengu hver um sig dóma upp á fimm línur í blöðunum. Það var eins og þær skipti engu máli. Af hverju er ekki einn af þessum blaðakálfum settur undir nýjar íslenskar barnabækur? Ég bara skil þetta ekki. Ég ætla að vera með aðra bók um næstu jól. Mig hefur lengi langað að skrifa bók um fótbolta- mót sem eru oft mjög dramatísk fyrir börnin og suma foreldra sem dragast mikið inn í keppnina. Svo er á dagskrá að skrifa barnaleikrit með Felix Bergssyni. Við höfum unnið mikið saman og bætum hvor annan upp. Hann er agaðri en ég og ég græði mikið á því. Takk, Felix.“ Heillandi börn Þú vinnur oft í samstarfi við aðra, til dæmis við konuna þína Björk Jakobsdóttur sem er leikona og Felix Bergsson og fleiri. Á samvinna vel við þig? „Ég er bestur í tvímenningi þar sem maður getur þróað hugmyndir með öðrum. Þetta stafar sennilega af því að ég er tvíburi og hef aldrei ver- ið einn. Það er mjög gaman þegar maður hittir á góða samstarfsmenn eins og Felix Bergsson og Björgvin Franz Gíslason. Svo er konan mín, Björk, frábær samstarfsfélagi og mér finnst ákaf- lega gott að ræða við hana um það sem ég er að gera.“ Þú sást um barnatíma sjónvarpsins í tvö ár ásamt Felix og hefur skrifað barnabækur. Hvað er svona heillandi við börn? „Það vita allir hvað er heillandi við börn. Þau eru svo hreinar manneskjur, það er svo lítið búið að eyðileggja þau. Þau eru hreinskilin og oft er sagt að þau séu erfiðustu áhorfendurnir í leikhúsi en á sama tíma eru þau bestu áhorfendurnir því maður veit strax hvort eitthvað hefur mistekist eða er frábært. En þetta er ekki alveg svona ein- falt því börn eru líka mjög meðvirk og vilja að öllum líði vel, líka leikurunum á sviðinu. Í sumar fór ég á barnasýningu í Edinborg en þar voru tveir náungar með ævintýralega skemmtilega sýningua. Ég hef aldrei áður séð börn hegða sér í leikhúsi, eins og gerðist þarna. Þau hlógu svo mikið að þau fengu hiksta og urðu sveitt, hrópuðu með og fengu að kasta hlutum til og frá. Þetta var alveg stórkostlega gaman. Ég hló eins og vitleysingur en breskir foreldrar voru ekki alveg að kveikja á verkinu og sneru sér við til að horfa á mig, fullorðna manninn sem skemmti sér næstum jafn vel og börnin. Svona stemning næst ekki í fullorðinsleikhúsi.“ Hefurðu varðveitt það barnslega í þér? „Ég passa vel upp á það og leik mér oft við strákana mína. Ég reyni að vera eins opinn og börn eru en það gengur misvel því manni hættir til að vera fordómafullur og neikvæður þegar maður verður fullorðinn.“ Nægar hugmyndir Þú ert ekki í föstu starfi sem listamaður, hef- urðu aldrei áhyggjur af atvinnuöryggi? „Í eitt og hálft ár var ég fastráðinn við Latabæ og það var ákveðin festa að vera í Stundinni okk- ar í tvö ár. En þess utan hafa verkefnin ekki verið föst í hendi. Það tók nokkurn tíma að venjast þessu óöryggi. Afkomuóttinn lætur alltaf á sér kræla. Við hjónin erum mjög sparsöm og eyðum litlu og um leið og það kemur inn peningur þá leggjum við hann til hliðar því eftir hálft ár verða kannski engin laun. Það er reyndar langt síðan það hefur verið þannig en við munum vel eftir því. Á tímabili var maður í vissum vítahring. Fyrri hluta árs var maður að vinna fyrir sum- arfríinu og setti ekki allan aukapeninginn í skatt- inn. Í ágúst kom skatturinn svo í hausinn á manni og þá varð maður að vinna fyrir skattinum allan veturinn fram að áramótum. Þetta var hrikalegt. Fyrir vikið hef ég lagt mikið upp úr því að kenna börnunum mínum fjármálalega ábyrgð. Það verður ekki undan sumu vikist. Á morgun þarftu að borga skatta af peningunum sem þú eyðir í dag.“ Hvað er framundan, annað en að skrifa barnabók? „Ég er að leikstýra Draumi á Jónsmessunótt fyrir Herranótt Menntaskólans í Reykjavík. Þetta verður fjórða Shakespeare-sýning vetrarins. Þar er ég svo heppinn að fá að vinna með leikurum framtíðarinnar, sem hafa mikinn áhuga á Shake- speare. Svo er ég hluti af teymi sem rekur Gafl- araleikhúsið í Hafnarfirði. Við fengum leikhús til umráða og fjárstyrk frá Hafnarfjarðarbæ til að reka húsið. Nú er komið að því að sækja um styrk til leiklistarráðs til að koma sýningum á fjalirnar. Vonandi fáum við þennan styrk. Ekki vantar hugmyndirnar. Það kemur í ljós á næstu vikum hvernig næsti vetur verður, en eins og er þá er ég ekki með vinnu lengur en fram í lok febrúar. En það kemur alltaf eitthvað!“ Morgunblaðið/Golli Gunnar Helgason: „Það hefur aldrei þótt eins fínt að vera húmormegin og fýlumegin, sem er mjög skrýtið.“ ’ En að sjálfsögðu finnst mér óskaplega gam- an að lifa. Enda sérðu það að þeir sem telja að lífið sé ekki skemmtilegt eða bara alveg ömurlegt eiga varla aðra leið en að leita sér að- stoðar, fara á lyf eða til sálfræðings. Ég þarf ekki að takast á við það, sem betur fer.“

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.