SunnudagsMogginn - 16.01.2011, Blaðsíða 47

SunnudagsMogginn - 16.01.2011, Blaðsíða 47
16. janúar 2011 47 Þetta er skemmtilegur staður,“ segir Sjón þegarhann sest á Cafe Eisenstein við Kurfürstenst-raße í Berlín. „Þetta var einn aðalstefnumóta-staður rithöfunda og gáfumanna í Vestur- Berlín. Það sést á stílnum og karakternum í matseðl- inum að þetta er gamla Evrópa. Þess vegna erum við að panta vínarsnitsel. Ungverska heimsveldið, það lifir enn hér! Ég kom hingað fyrst með ungversku skáldi, László Krasznahorkai.“ Blaðamaður hættir að skrifa. – Þú segir þetta nú bara til að koma mér vandræði. „Þetta er mikill skáldsagnahöfundur, margir segja að hann sé að verða einn sá mesti í Evrópu, og hann býr hér í Berlín. Hann kom fyrst á sama styrk og ég, en varð síðan arftaki minn í Freie-háskólanum þegar ég var hér kennari 2007 og 2008.“ – Hvað sagðirðu að hann héti?! „László Krasznahorkai.“ Sjón er með bindi, í svartri skyrtu og köflóttum jakka, og gleraugun eru á sínum stað. En það er auga á fingrinum. „Ég keypti þennan hring í New York þegar ég fór þangað með Sykurmolunum árið 1989.“ Og hann lyftir öðrum hring. „Þetta er höfðaletur íslenskt. Það stendur Ísland og sjón. Frændi minn býr til þessa hringa og sendi mér einn. Þannig að súrrealisminn er í annarri hendi og hið þjóðlega í hinni.“ – Fórstu ekki líka í tónleikaferð til Berlínar! „Jú, ég var áður viðstaddur tónleika Kuklsins með Einstürzende Neubaten á Metropol. Í þeirri ferð fann ég sprungu í múrnum og lagði bölvun á hann. Það er til mynd af því, þar sem ég kasta áhrínsorðum á múrinn.“ Hann brosir. „Ég ætla nú ekki að eigna mér heiðurinn. Maður verður að temja sér hógværð.“ Svo hlær hann innilega. „Ég fór með sem rótari og las upp. Við bjuggum í „skvatti“ með hústökufólki, sváfum öll í einu herbergi, og það er kaldasta nótt sem flest okkar hafa lifað.“ – En hvað fæstu við núna í Berlín? „Við höfum verið í vesturhluta borgarinnar, gamla yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Henry Ford lagði fjár- muni í að stofna Freie eftir seinna stríð, þegar Sov- étmenn voru farnir að herða tökin á Humboldt. Við komum á vegum á verkefnis fyrir listamenn sem upp- haflega var fjármagnað af Ford-stofnuninni. Þegar múrinn var reistur árið 1962, þá áttuðu menn sig á því að borgin gæti einangrast og mynduðu menningarlega loftbrú inn í borgina. Síðan hefur legið hingað stöðugur straumur af rithöfundum, kvikmyndagerðarmönnum og tónskáldum og það er ansi magnaður listi. Þeir sem komu hingað á sjöunda áratugnum eru allt saman heimsmeistarar í listum og bók- menntum.“ Hann bætir við eftir stundarþögn: „Í þessu húsi sem ég bý núna í bjó Ein- ar Kárason áður og líka Tarkovsky.“ – Svona minni spámenn! „Einar Kárason og minni spámenn,“ svarar Sjón og hlær. „Það er ansi gaman að koma inn í þetta.“ – Og hvað ertu að gera í Berlín! „Ég tók mér fyrsta mánuðinn í sum- arfrí með fjölskyldunni. Það var í hita- bylgju í júlí. Við komum hingað áður um vetur, frá október til mars, en núna náð- um við sumrinu. Berlín er allt önnur borg á sumrin, mannlífið er opnara – það er eins og að vera kominn sunnar í álfuna. Sólin skín og komin eru lauf á trén. En nú er hafinn hinn grái Berlínarvetur. Við þekkjum hann alveg og höfum bara gaman af því, en það var fínt að fá sumarið. Svo hófst vinnan. Ég hef verið að ljúka nokkrum samvinnuverkefnum. Ég gerði libretto fyrir Figura En- semble, lítið óperukompaní í Kaupmannahöfn, sem verður frumsýnt í Kaupmannahöfn í mars. Svo er ég að ljúka við kvikmyndahandrit fyrir Vesturport um Klöru miðil, sem byggist á ævi Láru miðils. Ég er líka að vinna að sögu fyrir kvikmynd með GusGus-bræðr- unum Sigga Kinski og Stefáni Árna, sem hafa gert mik- ið af myndböndum og auglýsingum úti í heimi. Fjórða verkefnið er leiklistarverkefni sem nefnist Haf. Ég vinn það með hópi sem kallast New Int- ernational Encounter, en það er alþjóðlegur leikhópur með höfuðstöðvar í Cambridge og fólki sem kemur alls staðar að úr Evrópu, Noregi, Danmörku, Tékklandi, Póllandi, Englandi og Hollandi. Það fjallar um hafið, ólíkar sögur sem gerast þegar menn og haf mætast. Allt þetta er ég að hreinsa út af borðinu til að geta sest við skriftir á þriðja bindinu í hinni margboðuðu trílógíu sem ég byrjaði á árið 1993, Augu mín sáu þig.“ – Ertu búinn að leggja drög að þriðju sögunni? „Þegar ég lauk við hana um vorið 1994 áttaði ég mig á því að þetta væri þríleikur. Þá lagði ég nokkurn veg- inn drög að öllum þremur bókunum, en svo var ég búinn að steingleyma því. Ég var svo heppinn þegar ég flutti út, að ég fór í gegnum gamla kassa, fann fullt af fínu efni og það setur mig aftur á rétt spor sextán árum síðar. Ég var í raun búinn að gleyma því hvað ég hafði hugsað þetta langt. Svo var þetta farið að bögglast fyrir mér, hvernig ég ætlaði að taka aftur upp þráðinn, en þá kom það upp í hendurnar á mér, ásamt meira og minna öllu ítarefninu sem ég hafði viðað að mér. Það kom upp úr einum kassa, alveg tilbúið, svo ég gæti klárað þetta í Berlín. Ég hefði reddað mér, en þetta kemur mér á sporið.“ – Hvernig er að fara sextán ár aftur í tímann? „Það er áhugavert að sjá þetta, fyrst og fremst kom mér á óvart hvað ég hafði lagt þetta skýrt upp fyrir sjálfum mér á sínum tíma. Ég hélt ég myndi klára þetta á þremur eða fjórum árum, en svo breyttist það. Hérna er ég sextán árum síðar. Ég vona að ég verði tilbúinn með þetta aftur næsta haust.“ – Af hverju var svona knýjandi að klára þríleikinn? „Maður er alinn upp þannig, að klára það sem maður byrjar á. Mér finnst þetta aðeins of opið eins og því lauk með Titrandi tár.“ Hann stingur upp í sig bita. „Þetta er alvöru vínarsnitsel!“ Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is Síðasta orðið … Sjón Lagði bölvun á Berlínarmúrinn ’ Við bjuggum í „skvatti“ með hús- tökufólki, sváfum öll í einu herbergi, og það er kaldasta nótt sem flest okkar hafa lifað.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.