SunnudagsMogginn - 15.05.2011, Blaðsíða 47
15. maí 2011 47
Þ
að má lesa manninn af blöðunum sem hann
raðar í kringum sig. Á heimili Einars Laxness
eru landslagsmálverk á veggjum innan um
sporvagna í stórborg og stóra teikningu af Hall-
dóri, föður Einars. Þaðan berst líka tifið í gamalli klukku,
til marks um óskeikulan framgang tímans. Eins og til að
undirstrika það, hangir uppi ljósmynd af sjálfstæðishetj-
unni Jóni Sigurðssyni, en 17. júní í sumar verða 200 ár
liðin frá fæðingu hans.
Einar hefur gert Jóni Sigurðssyni góð skil, meðal ann-
ars í bókinni Jón Sigurðsson forseti 1811-1879 og bókum
með bréfum til Jóns Sigurðssonar forseta 1845-1875. Þeg-
ar við setjumst yfir kaffibolla liggur beint við spyrja hvort
Jón hafi verið jafnóumdeildur og látið er í veðri vaka.
„Það bera margir brigður á að Jón Sigurðsson hafi verið
sú þjóðhetja sem við hinir eldri höfum talið vera,“ segir
Einar. „En ég held það sé á misskilningi byggt. Hann hef-
ur þýðingu fyrir okkur á öllum tímum og var þjóðhetja að
nokkru leyti. Menn hafa lýst efasemdum um að þjóðin
hafi staðið á bakvið hann, en hvenær stendur hún ein-
huga á bakvið nokkurn mann? Það þarf engan Jón Sig-
urðsson til! En við getum sagt að þorri þjóðarinnar hafi
staðið með honum, þeir sem gáfu upp afstöðu sína.“
– Og hann var í fylkingarbrjósti?
„Hann tekur forystu á sínum tíma í baráttunni fyrir ís-
lenskum landsréttindum og nýtur til þess mikils fylgis
hjá Íslendingum, sem sést á því að hann varð forseti Al-
þingis og forystumaður á þjóðfundinum. Hann kemur
með merkilega kenningu árið 1848 í Nýjum félagsritum,
þegar Danir eru að afnema einveldið. Þá segir Jón að Ís-
lendingar eigi að fá sín fyrri landsréttindi til baka, sem
þeir áttu samkvæmt Gamla sáttmála, og rökstyður það
með því að Íslendingar hafi ekki afsalað sér einveldinu til
neinnar þjóðar. Um það eigi þá að semja við Danakonung
og þá fulltrúa sem hann skipar, en ekki danskt þing,
samkomu eða ráðherra. Á þessum grundvelli stendur
hann og þetta var snjöll kenning hjá honum. Síðan glímir
hann við það ásamt sínum fylgismönnum að ná sam-
komulagi við dönsk yfirvöld og þá kemur þjóðfundurinn
við sögu, en þeim viðræðum var slitið af Dönum sem
vildu að við værum eins og amt í Danmörku, og hefðum
aðeins með okkar nánustu sér mál að gera, en ættum
ekkert að koma frekar að stjórn ríkisins. Þegar Íslend-
ingar undir forystu Jóns koma með róttæka tillögu á
þjóðfundinum um inlenda landstjórn og innlent þing, þá
voru Danir ekki tilbúnir að veita okkur það. Á þessum
tíma virðist Jón Sigurðsson hafa haft mikinn meirihluta
þingfulltrúanna með sér.“
– Hvað tekur þá við?
„Eftir það var hann með bréfaskriftir við fjölda stuðn-
ingsmanna sinna út um allt land. Einn nánasti stuðnings-
maður hans var maður sem ég hef skrifað mikið um, Jón
Guðmundsson Þjóðólfsritstjóri. Hann kveður upp úr um
það árið 1848: „Þú einn vakir.“ Og býst við að hann taki
forystu, sem Jón Sigurðsson gerði. Síðan var Jón ritstjóri
að mæra Jón nafna sinn á fundum og stæla menn til fylgis
við hann, sagði Íslendinga ekki eiga nema
einn leiðtoga, „einn óbilugan leiðtoga sem
er tilbúinn til þess að fórna sér fyrir okkur“.
En auðvitað gagnrýndu menn hann og
fundu á honum veika bletti. Og Jón ritstjóri
var ósammála Jóni í ýmsum málum. Þeir
skrifuðust á alla ævi og deildu til dæmis um
aðferðir í fjárkláðamálinu, sem var mikið
hitamál um 1860, og fjárhagsmál Íslendinga
og Dana. Jón Sigurðsson gerði sterkar kröf-
ur um reikningsskil milli landanna, aðrir
voru tilbúnir að slá af þeim, ef þeir fengju
eitthvað viðunandi út úr Dönum, frekar en
að standa í löngu stríði um háar fjárkröfur.“
– Og svo var það stjórnarskráin?
„Það má segja að niðurstaða baráttu Jóns á síðari hluta
ævinnar sé stjórnarskráin og hún fæst árið 1874, þótt
meinbugir og gallar væru talsverðir á henni.“
– Þú metur það svo, að þessi maður sem fæddur var á
nítjándu öld eigi erindi við samtímann?
„Já, þessi maður var ekki fullkominn, en barátta hans
hlýtur að hafa orkað mikið á hans landsmenn, bæði fyrr
og síðar, þó að auðvitað fjarlægist hann með tímanum.
Við vitum hvað hann stendur fyrir og þó að ekki sé hægt
að segja núorðið, að hann sé sameiningartákn eins eða
neins, þá er hans hlutur svo stór, að það má ekki gleym-
ast í þjóðarsögunni. Það kemur fyrir að menn gera minna
úr því, en ég er svo gamaldags að ég tel að hann hafi gegnt
sínu hlutverki með gríðarlegum sóma. Eins og Sigurður
Nordal sagði um hann: „Hann var sá Íslendingur á 19.
öldinni sem lánaðist.“
– Ég hef orðið var við, að yngstu kynslóðirnar hafa
lítinn skilning á því hversu langur tími leið áður en
hann sneri aftur til Ingibjargar. Og svo hefur hann ver-
ið gagnrýndur fyrir að beita sér ekki fyrir kvenrétt-
indum.
„Þau mál komu ekkert upp á þessum tíma,“ segir Ein-
ar. „En hitt er annað mál að hann fer sem ungur stúdent
til Danmerkur og er þá heitbundinn frænku sinni, Ingi-
björgu Einarsdóttur, þau voru systkinabörn. Og hann er
tólf ár úti án þess að koma heim. Hann fór út árið 1833 og
kemur heim 1845, þá kjörinn alþingismaður á fyrsta
þingið. Síðan þegar hann fer út aftur, þá
ganga þau í hjónaband og eru búsett í Kaup-
mannahöfn til dauðadags – hún dó tíu dögum
eftir að hann féll frá. Að vissu leyti má segja,
að þau hafi varla skilið eftir 1845, því Alþingi
kemur saman annað hvert ár, hann kemur
oftast heim og hún alltaf með honum. Og hún
hélt uppi með honum þessu ágæta heimili í
Kaupmannahöfn, þar sem Íslendingar komu
saman vikulega.“
– Skiptir lærdómur kynslóðanna máli?
„Er það ekki bara þetta: Það góða frá geng-
inni tíð glatist ekki, það verði ekki rof á milli
kynslóða. Það getur verið gott að hafa fyrirmyndir úr
fornum tíma. Og fyrir mér er hann ekki fjarlægur, ég hef
séð bæði kost og löst á honum, því ég hef skrifað um vin
hans Jón Guðmundsson, sem gagnrýndi hann ef honum
sýndist svo.“
– Þjóðin ekki fjarlægari honum en svo að hún kemur
saman 17. júní ár hvert?
„Já, þó að menn geri sér ekki alveg grein fyrir nálægð
hans og æskan viti kannski ekki hver þetta er. En mér
finnst hann alltaf hafa verið stór, að hann hafi borið höf-
uð og herðar yfir flesta aðra.“
Einar stendur upp.
„Nú skulum við fá okkur kaffisopa, liðka málbeinið!“
Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is
Síðasta orðið…
Einar Laxness
Jón forseti var ekki óumdeildur
’
Ég er
svo gam-
aldags að
ég tel að hann
hafi gegnt sínu
hlutverki með
gríðarlegum
sóma.