SunnudagsMogginn - 15.05.2011, Blaðsíða 43
15. maí 2011 43
spegla jafnvægið milli himins og jarðar;
þess frelsis og aga sem ég var að tala um
áðan. Þegar ég sá þetta verk eftir Hrein í
listaverkabók þá hugsaði ég með mér:
Þetta eru einmitt Bach og Chopin, tvær
myndir sem spegla hvor aðra. Ég skrifaði
Hreini og varð eiginlega orðlaus þegar
hann sagðist gefa mér leyfi til að nota
myndirnar. Hann er stór listamaður sem
ég lít upp til.
Ég eyddi miklum tíma í að skrifa text-
ann sem fylgir geisladisknum, ég vildi
ekki hafa hann eins og fyrirlestur heldur
opna með honum aðra glugga að tónlist-
inni fyrir hlustendur. Svo skiptir líka máli
hvar diskurinn er til sölu og hvernig hann
er kynntur – ég vil ekki að hann sé alls
staðar.“
Er svona útgáfa ekki mjög dýr?
„Þetta er mjög dýrt, af því að ég sparaði
ekki í neinu. Upptökur fór fram Gewand-
haus-tónlistarhúsinu í Leipzig. Ég tók
diskinn upp í október og hann átti að
koma út í nóvember en ég var ekki full-
komlega sáttur við innri hlutföll í ellefu til
tólf stuttum köflum. Ég fór aftur til Leip-
zig í febrúar og var þar í tvo daga til að laga
þessi hárfínu hlutföll. Ég hugsaði ekki í
peningum heldur í listrænum ávinningi.
Það er mikill léttir að diskurinn er nú
kominn út alveg eins og ég vildi hafa
hann.
Viðar Víkingsson kvikmyndagerð-
armaður kom með mér út til Leipzig til að
gera heimildarmynd um allt ferlið á
geisladisksupptökunum. Sú mynd mun
vonandi sýna fólki þá gríðarlegu vinnu
sem er á bak við geisladisk sem fólk kaupir
úti í búð.
Þegar maður er að taka upp geisladisk
situr maður fyrir framan míkrófón og er
að taka sama kaflann upp fimm til tíu
sinnum, alltaf með það markmið í huga að
fanga eitthvað óvænt – en jafnframt að
spila fullkomlega. Þetta tvennt er í eðli
sínu andstætt. Þegar maður hlustar svo á
útkomuna og heyrir eitthvað eitt eða
tvennt sem manni líkar ekki þá er erfitt að
viðhalda opnu hugarástandi í næstu töku.
Þetta geta verið mikil innri átök. Viðar
festi þetta allt á filmu og fangaði, held ég,
sálarangistina sem fylgir því að gera svona
disk, eins og til dæmis viðbrögð mín, sem
voru ekki góð þegar ég heyrði kaflana sem
ég var ekki ánægður með eftir að ég kom
heim til Oxford og ollu því að ég ákvað
samstundis að fara aftur út og eyða háum
fjárhæðum í að laga þessi innri hlutföll.“
Hundrað ára bið að baki
Hvernig var að koma fram á fyrstu tón-
leikunum í Hörpu?
„Hvað á ég að segja? Í Hörpu sagði ég
við salinn, áður en ég spilaði aukalagið
Ave María eftir Kaldalóns, að ef ég hefði
vitað þegar ég var lítill strákur að spila á
píanó að ég ætti eftir að leika með Sinfón-
íuhljómsveit Íslands, fá að koma fram á
fyrstu tónleikunum í nýja tónlistarhúsinu
og í þriðja lagi að sjálfur Vladimir Ashke-
nazy héldi um sprotann, þá hefði ég dáið
úr gleði. Þetta gefur kannski einhverja
mynd af því hvernig tilfinning það var
fyrir mig að fá að spila þarna.
Tónlistarunnendur og tónlistarfólk er
búið að bíða eftir húsi eins og þessu með
alvöru hljómburði og aðstöðu í meira en
hundrað ár. Þegar ég kom inn á sviðið
fann ég að þessi hundrað ára bið var að
baki. Ég hef aldrei séð jafn stóran hóp af
fólki vera jafn hamingjusaman og stoltan
og þarna. Ég gleymi því seint.“
Ég las einhvers staðar að stemningin á
tónleikum hjá þér væri eins og á popp-
tónleikum. Skynjarðu stemninguna í
salnum þegar þú ert að spila?
„Ég efast um að allir átti sig á hversu
salur og áhorfendur eru stór partur af tón-
leikum. Maður finnur dagamun á þessu
þegar maður gengur inn á svið. Stundum,
og þannig var það í Hörpu, næst ótrúlega
rafmögnuð hlustun. Þá er andinn líklegri
til að koma yfir mann, þá geta óvæntir
hlutir gerst. Þá er auðveldara að vera frjáls
og að leyfa sér að nota allan skalann, spila
með óræðari litbrigðin. Það er sjaldgæft en
þeim mun skemmtilegra þegar manni
tekst að koma sjálfum sér á óvart.
Ég hef mikla þjálfun í að spila fyrir alls
konar áheyrendur. Þegar ég var í námi í
New York vorum við nemendurnir látnir
fara á ýmsa staði í borginni til að spila. Ég
spilaði til dæmis á sjórekin píanó, algjöra
garma, í athvarfi fyrir heimilislausa. Í
miðju Chopin-næturljóði sagði kannski
einhver: Play something by the Stones og
aðrir fóru að tala saman. Ég spilaði oft inni
á lokuðum geðdeildum. Það var ótrúleg
reynsla. Þrátt fyrir stöðugan óróa í salnum
var kannski einn eða tveir sem lifðu sig
inn í tónlistina. Þar lærði ég að það er
sama hversu erfiðir áheyrendur geta ver-
ið, það er alltaf einhver einn sem hlustar af
athygli. Það er nóg.“
Gefandi samstarf við Kristin
Þú ert á stöðugum ferðalögum að spila og
býrð í Bretlandi. Ætlarðu að vera þar
áfram?
„Ég er mikið á flakki en er mikið í Ox-
ford. Halla Oddný Magnúsdóttir, kær-
astan mín, er í Oxfordháskóla en hún lýk-
ur námi í sumar og þá flytjum við, líklega
til Berlínar.
Ég spila æ meira úti og minna á Íslandi.
Þegar ég flutti frá Bandaríkjunum árið
2008 þekkti ég engan áhrifamann í tón-
listarheiminum, nú hef ég hitt mun fleiri
og það skapar allt annan veruleika. Ég er
að fara að gera alls konar skemmtilega
hluti. Ég hef til dæmis verið að vinna með
skemmtilegum flytjendum í Skandinavíu
og Þýskalandi, eins og Martin Fröst,
sænska klarinettusnillingnum sem margir
telja fremsta klarinettuleikara í heimi.
Saman höfum við haldið tónleika í Svíþjóð
og Þýskalandi með sænsku þjóðlagatríói
þar sem við spinnum út frá sænskum og
íslenskum þjóðlögum. Ég fæ stöðugt
meira af spennandi verkefnum og svo
margt er á döfinni að ég verð næstum
stressaður að hugsa um það.
Í júní held ég tónleika með Kristni Sig-
mundssyni í Hörpu þar sem við flytjum
Vetrarferðina eftir Schubert. Það verða
okkar fyrstu tónleikar saman opinberlega.
Það er óþarfi að fara mörgum orðum um
raddfegurð og túlkun Kristins en sam-
starfið er mér mjög gefandi, ég læri mikið
af honum. Fátt er mikilvægara en að
kunna að velja sér rétta fólkið til að vinna
með, það er lykillinn að því að víkka sjón-
deildarhringinn og fara skrefinu lengra en
síðast.
Vetrarferðin er verk sem ég hugsað um í
tíu ár án þess að þora að spila opinberlega.
Píanóleikarinn Dalton Baldwin sagði eitt
sinn við mig að Vetrarferðina ætti að setja
í samhengi við mestu listaverk manns-
andans, eins og til dæmis Sixtínsku kap-
elluna. Þetta er áhrifamikil tónlist, yf-
irþyrmandi sterk. Vetrarferð
einstæðingsins og vetrarferð Schuberts
sjálfs sem samdi verkið 31 árs, þá hel-
sjúkur og átti skammt eftir ólifað. Það
verður mikil upplifun að flytja þetta verk í
stóra sal Hörpunnar.“
Þú hefur fengið verðlaun og viður-
kenningar og ert stjarna í tónlistarheim-
inum. Hvernig bregstu við því?
„Þegar maður hugsar um það sem best
hefur verið gert þá verður maður alltaf
jafn lítill og vanmáttugur. Mínar fyrir-
myndir eru píanistar á borð við Sergei
Rachmaninoff, Vladimir Horowitz og
Glenn Gould. Ósjálfrátt miða ég mig við þá
og það er mér ekki sérlega hagstætt. Svo
er hægt að fara skrefinu lengra og bera sig
saman við Chopin og Bach, í því samhengi
er maður eins og lauf í vindinum.
Kennari minn í Juilliard sagði eitt sinn
við mig: „Ef þú ætlar að taka mikið mark á
góðu gagnrýninni og hrósinu þá verðurðu
líka að gjöra svo vel og taka jafn mikið
mark á vondu gagnrýninni.“ Því betur
sem ég kynnist tónlistarheiminum, sé ég
að þeir listamenn sem lesa gagnrýni láta
hana ekki hafa of mikil áhrif á sig. Mjög
margir lesa hana hreinlega ekki. Þetta er
hárfínt jafnvægi, maður er svo brothættur
og berskjaldaður í tónlistinni, ég efast um
hverja einustu nótu sem ég spila og þarf
því að velja vel það hrós og krítík sem ég
get lært af.“
’
Í hvert sinn sem ég
spila reyni ég að vera
mjög frjáls í túlkun en
vera samt innan mjög af-
markaðs ramma. Þessu er
hvað erfiðast að ná fram í
verkum eftir Bach og Chop-
in.
Víkingur Heiðar: „Ég hef aldrei séð jafn stóran hóp af fólki vera jafn hamingjusaman og stoltan og þarna. Ég gleymi því seint.“
Morgunblaðið/Eggert