Monitor - 28.07.2011, Blaðsíða 8

Monitor - 28.07.2011, Blaðsíða 8
8 Monitor FIMMTUDAGUR 28. JÚLÍ 2011 Valdimar Guðmundsson hefur getið sér gott orð með hljómsveit sinni, sem er reyndar heitir líka Valdimar, þar sem hann syngur og blæs í básúnu. Hann er skólagenginn í básúnuleik en sjálflærður söngvari. Hljómsveitin lauk nýverið við túr um landsbyggðina og sagði Valdimar að móttökurnar hefðu verið yndislegar en þess má geta að á einum viðkomustað gisti hljómsveitin eina nótt í skútu. Geri aðrir betur. Ég las einhvers staðar að þú hefðir verið mikill rappari og meira að segja verið kallaður Valdi 2Pac. Má maður eiga vona á einhverju rappi frá þér síðar og seinna meir? Á tímabili hlustaði ég rosalega mikið á rapp, sökkti mér alveg í það. Þetta byrjaði þegar ég keypti mér Greatest Hits með 2Pac í körfuboltaferðalagi og þá fór maður að hlusta á fleiri eins og Def Jam-rapparana, þá DMX, Nas, Jay-Z og þessa gæja. Svo hlustaði maður á Eminem þegar hann kom fram á sjónarsviðið og ég hlustaði eiginlega ekki á neitt annað á tímabili. Þegar menn voru að reyna að stinga að mér einhverju rokki þá fannst mér það bara einhver bölvuð þunglyndistónlist. Ég geri ekki ráð fyrir að fara að rappa opinberlega. Ég held að ég hafi nú alveg flæðið sem til þarf, enda er maður búinn að hlusta svo mikið á þetta, en ég held að ég hafi ekki persónuleikann í það. Maður þarf að hafa alveg óbilandi trú á sjálfum sér, jafnvel vott af hroka til að vera í rappinu. Svoleiðis á ekki svo vel við mig. Þú ert Suðurnesjamaður. Hvernig myndir þú lýsa Kefla- vík í fáeinum orðum? Það er hinn fínasti bær. Hann hefur kannski orðspor fyrir að vera eitthvað villtur en ég upplifi hann ekki þannig. Þetta er minn heimabær og ég hef mjög sterkar taugar til hans. Það er nú margt sem hefur gengið á þarna í bænum, en ég nenni nú ekki að fara að ræða pólitík (hlær). Ég er alveg gallharður Keflvíkingur. Hvenær byrjaðir þú í tónlist? Ég byrjaði í blokkflautunámi sem kornungur drengur, fimm eða sex ára. Þá var maður samt ekkert að byrja einhvern tónlistarferil. Þetta var ekkert eitthvað: „Jæja, nú fer ég í blokkflautuna og ætla að gera eitthvað úr mér“, það var ekki fyrr en á seinni árum sem maður fór að pæla í tónlist af alvöru. Þegar ég var kominn upp í svona nítján ára aldurinn þá fór mann að langa að koma sér í listaháskóla og svoleiðis. Af hverju fórstu að læra á básúnu? Þegar ég var lítill sagði ég við mig pabba minn að ég vildi spila á „lúð“, ekki lúður heldur „lúð“. Pabbi var svo hrifinn af básúnunni og honum fannst hún passa í alla tónlist, sem hún náttúrlega gerir, þannig að hann valdi eiginlega hljóðfærið fyrir mig. Mér fannst þetta sjálfum mjög kúl að vera með svona sleðahljóðfæri og maður er búinn að hanga á því síðan. Varstu lúðrasveitarlúði sem krakki? Jú jú, maður var í lúðasveit eins og maður kallaði það. Ég var alltaf í lúðrasveitunum og líka léttsveit Tónlistarskóla Reykja- nesbæjar. Með þessum sveitum kom maður fram á hinum ýmsu viðburðum eins og 17. júní í Keflavík og á Ljósanótt. Það var mjög gott í reynslubankann að spila með svona mörgum og við spiluðum allan andskotann af tónlist svo maður varð auðvitað fyrir áhrifum. Hvenær uppgötvaðir þú gætir sungið? Ég var alltaf ágætissöngvari sem krakki og var alltaf að syngja með lögum heima fyrir, til dæmis Michael Jackson. Mamma var alltaf að reyna að hvetja mig til að syngja eitthvað en ég hafnaði því, sagði að fólk myndi bara gera grín af mér eða eitthvað, þetta var svona sviðsskrekkur. Fyrsta skipti sem ég söng af alvöru fyrir einhvern var þegar ég söng fyrir hana langömmu mína. Hún var svo mikill aðdáandi lagsins Have You Ever Really Loved A Woman? með Bryan Adams þannig að þegar ég var þrettán ára söng ég það inn á upptöku. Systir mín hafði fundið eitthvað hallærislegt MIDI-undirspil sem ég söng yfir í stúdíói hjá honum Kidda í Hjálmum. Síðan dreifðist þessi upptaka um alla ættina og áður en ég vissi af voru einhverjar bekkjarsystur mínar búnar að heyra þetta hjá frænku minni. Þær sögðu: „Æ, flott lagið þitt“, en ég var nú ekki alveg að fíla það. Mig langaði ekkert að fá athygli, ég var bara að syngja fyrir ömmu mína. Ég söng hins vegar ekkert á almannafæri fyrr en svona um tvítugt, til dæmis í söngkeppni innan Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Það hefur þá verið um svipað leyti sem þú fórst að fikra þig áfram í hljómsveitarbraski, ekki satt? Jú, um það leyti fór ég að syngja með hljómsveit sem hét Streng. Í þeirri hljómsveit voru Ásgeir og Gulli, sem spila á gítar og bassa í hljómsveitinni Valdimar, og Rebekka spilaði á bassa en hún er í Hjaltalín í dag. Við vorum svona komin aðeins af stað en svo datt það alveg niður en okkur langar dálítið að halda áfram þar sem frá var horfið seinna meir. Fyrr á árinu söngst þú titillagið í myndinni Okkar eigin Osló. Hvernig kom það til? Ég var búinn að vera að spila með honum Samúeli Jóni Samúelssyni og stórsveitinni hans og þannig kynntist ég honum Helga Svavari trommara úr Hjálmum. Hann frétti síðan að ég væri búinn að vera að syngja með hljómsveit og á sama tíma var hann að gera tónlistina fyrir þessa kvikmynd og var með lag sem vildi fá einhvern söng við. Hann setti sig þá í samband við mig og Braga Valdimar Skúlason, textahöf- und og Baggalút, sem samdi texta og sönglínu og ég söng inn á upptökuna. Það var alveg ótrúlega skemmtilegt að fá þessa fyrirspurn á Facebook frá honum Helga Svavari og mjög skemmtilegt að fá að vinna með Memfismafíunni. Hljómsveitin þín heitir sama nafni og þú eða eftir þér sjálfum. Er það af því að þú ert svo frekur? Nei, það er nú ekki af því að ég er frekur. Við vissum bara ekkert hvað við áttum að skíra þetta helvítis band. Við vildum ekki að þetta væri eitthvað nafn sem gæfi til kynna að við værum að reyna að vera töff, við vildum bara hafa það látlaust. Svo kom allt í einu Ásgeir gítarleikari með þessa hugmynd: „Strákar, en bara Valdimar?“. Mér fannst það auðvitað bara fínt, ég er hrifinn af þessu nafni almennt. Við vissum hins vegar aldrei að hljómsveitin myndi vekja einhverja athygli, við vorum bara vinir að leika okkur og skírðum bandið á þeim forsendum. Við vorum ekkert að velta því fyrir okkur hvað fólk myndi segja eða hvað þetta yrði skrýtið í viðtölum. Ég gerði til dæmis sjálfur ekki ráð fyrir að ég yrði seinna í einhverju Monitor-viðtali. Lagið ykkar,Yfirgefinn, hefur vakið mikla lukku. Heyrir þú ennþá læti? Já, lagið virðist vera að gera það ennþá, það er okkar langvinsælasta lag. Ég heyri þau að minnsta kosti ennþá niðri í bæ þegar ég hitti eitthvað fólk sem gólar viðlagið úr laginu að mér. Það er farið að verða svona pínu þreytandi (hlær). Ég segi svo sem ekki að þetta sé eitthvað leiðinlegt, þetta er bara orðinn svona partur af mínu lífi núna. Þið lékuð eitthvað á erlendri grundu í maí. Hvernig var tekið í tónlistina ykkar úti? Við fórum út til Greifswald í Þýskalandi og spiluðum á hátíð þar. Þetta var einhver norræn hátíð en það er tungumálaskóli þarna sem kennir meðal annars íslensku. Við mættum nokkrum Þjóðverjum sem töluðu reiprennandi íslensku, það var mjög skrýtið. Það var tekið mjög vel í tónlistina okkar en við reyndar gleymdum að taka með okkur geisladiskinn okkar, hálfvitarnir sem við erum. Við tókum niður nafnalista af fólki sem langaði að fá lögin okkur en við eigum ennþá eftir að senda þeim diska. Hvað er það skemmtilegasta við að vera að stússast í hljómsveitarbransanum? Ég er búinn að kynnast alveg ógrynni af fólki síðan ég byrjaði í þessu og það er alltaf gaman að eignast nýja vini. Síðan er svo gaman að standa uppi á sviði að spila fyrir framan helling af fólki sem finnst það sem þú ert að spila geðveikt skemmtilegt. Það er þá sem maður upplifir að maður sé að gera eitthvað gott, maður er auðvitað alltaf að leita að einhverri viðurkenningu fyrir það sem maður er að gera. Hvað er síst við það? Ætli það sé ekki þetta þegar ókunnugt fólk er að stoppa mig á djamminu? Það er samt alveg mismunandi hvernig þetta á sér stað. Annars vegar er það fólkið sem er bara drukkið og er bara eitthvað að góla orðið „læti“ á mann, það finnst mér mjög leiðinlegt. Hins vegar er það fólk sem talar við mann og segist hafa hlustað á lagið og segist jafnvel líka vel við það, það er auðvitað gaman. Reyndar er líka allt rótið leiðinlegt. Nú myndu samt hljómsveitarmeðlimirnir í Valdimar hlæja og segja að ég róti aldrei neitt, ég er yfirleitt ekki mjög duglegur við það. Lifir þú rokkstjörnulíferni? Nei, ég get nú ekki sagt það. Ég er í atvinnuleit sem stendur en það fylgir því svolítið að þegar maður er að spila þá fær maður sér kannski bjór en ég er engin rokkstjarna. Ég er lítið í því að rústa hótelherbergjum og við erum allir frekar rólegir drengir í hljómsveitinni. Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan tónlistar- innar? Mér finnst gaman að horfa á góðar bíómyndir eða þætti. Svo er ég nú alveg dálítið „íþróttalega sinnaður“, eins og Jón Gnarr sagði einu sinni, þótt ég stundi þær ekki mikið. Ég æfði samt körfubolta í mörg ár enda mikil körfuboltahefð í Keflavík. Svo fylgist maður með fótbolt- anum bæði á Íslandi og Englandi. Um árið var knattspyrnulið Keflavíkur með öflugan stuðningshóp sem kallaði sig Puma-sveitina. Mér skilst að þú hafir spilað á básúnu í þessari sveit. Ertu gallhörð fótboltabulla? Ég var það allavega og maður er með mikið keppnisskap. Við studdum bæði fótbolta- og körfuboltalið Keflavíkur. Þetta hefur minnkað aðeins í seinni tíð en þetta var skemmtilegt, það var alltaf mikil stemning í þessu. Maður hefur mætt á tvo bikarúrslitaleiki sem Keflavík hefur unnið. Þú ert gallharður Keflvíkingur og Bob Dylan er uppá- haldstónlistarmaðurinn þinn. Hvort vildir þú heldur festast á eyðieyju með Dylan eða fótboltaliði Keflavíkur? Ég hef heyrt að Bob Dylan sé hundleiðinlegur gaur en það væri nú rosa gott fyrst. „Bob Dylan, þú hérna? Geðveikt!“ Eftir einhvern tíma yrði hann síðan orðinn leiðinlegur. Upp á sjálfsbjargarviðleitnina þá myndi ég örugglega velja fótboltaliðið, það er líklegra að við reddum okkur ef við erum fleiri. Þetta er samt erfitt því að Bob Dylan er uppáhaldstónlistarmaðurinn minn. Ef þú mættir velja hvaða hljómsveit í heimssögu tónlistar til að sjá á tónleikum, hver yrði fyrir valinu? Það eiginlega hlýtur bara að vera Bítlarnir, þótt þeir hafi náttúrlega ekki spilað mikið á tónleikum á seinni hluta ferils síns. Þeir eru samt svo miklar goðsagnir og áttu mikinn þátt í því að ég hætti að hlusta á rappið og fór að hlusta á alvöru tónlist. Þú ert orðinn ansi skeggjaður. Lifir þú eftir lífsstefnu Amish-fólksins? Nei, þetta er í rauninni bara leti. Svo reyndar finnst mér þetta lúkka betur fyrir mig að vera með þetta svona. Það er svolítið síðan ég rakaði þetta allt af síðast og það fannst mér hræðileg sjón þannig að ég vil helst alltaf vera með að minnsta kosti smá skegg. Þið í hljómsveitinni áttuð glansframmistöðu á Bræðsl- unni um síðustu helgi. Var þetta flottasta giggið hingað til? Þetta var reyndar „off-venue“, á upphitunarkvöldinu í félagsheimilinu á Borgarfirði eystri. Það gekk allavega ótrúlega vel, örugglega mesta stemning sem hefur myndast hjá okkur og það varð bara allt vitlaust þegar við tókum Yfirgefinn. Þetta var víst tekið upp á myndband, ég hlakka bara til að sjá það. Svo er það Innipúkinn um verslunarmannahelgina. Hvernig leggst það í þig og við hverju má búast frá ykk- ur? Þetta leggst mjög vel í mig, þetta verður í fyrsta skipti sem við spilum í Iðnó og ég býst bara við góðri stemningu. Nennir nokkur að fara út úr bænum? Það verður vont veður og svona. Síðan erum við að spila með honum Eyfa (Eyjólfi Kristjánssyni), hann verður að spila á undan okkur og svo tökum við nokkur lög með honum. Hvað er framundan hjá þér það sem eftir lifir sumars og í haust? Ég er að vinna í hliðarverkefni með Björgvini Ívari Baldurssyni úr hljómsveitinni Lifun og Klassart. Við erum að vinna að plötu með rólyndistónlist ásamt honum Stefáni Erni sem hefur spilað með Buffinu og Jónasi Sig. Þetta hefur gengið ágætlega en ég þarf sjálfur að fara að drullast til að semja texta. Við í Valdimar ætlum að klára þessa sumartörn og svo kannski róum við okkur aðeins niður og förum að skoða nýju hugmyndirnar sem eru komnar. Ásamt Innipúkanum erum við síðan að spila á útihátíð SÁÁ um verslunarmannahelgina. Hver er draumurinn í tónlistinni? Það er bara að geta lifað á því að vera tónlistarmaður, það er ekkert svo auðvelt. Ég er ekki kominn á þann stað og ég held að það séu mjög fáir á þeim stað á Íslandi. Mig langar að geta verið bara í þægindum að semja tónlist og fá frið til að þróa eitthvað áfram. Ég vil samt aldrei vera kominn á einhvern endapunkt þar sem ég væri bara búinn að gera allt sem ég get gert. Maður vill alltaf vera að þróast eitthvað því annars væri engin ástæða til að halda þessu áfram. Texti: Einar Lövdahl Gunnlaugsson einar@monitor.is Myndir: Golli golli@mbl.is Básúnuleikarinn með gullbarkann, Valdimar Guðmundsson, er gallharður Kefl- víkingur sem söng í fyrsta sinn af alvöru fyrir langömmu sína. Hann dreymir um að geta lifað á tónlistinni en vill þó aldrei ná neinum endapunkti í list sinni. Ætlaði bara að syngja fyr ÞETTA EÐA HITT Körfubolti eða fótbolti? Körfubolti mér finnst skemmtilegra að spila hann en skemmtilegra að horfa á fótbolta. Trompetleikarar eða saxófónleikarar? Báðir flokkar eru frekar miklir „show-offs“, en ég er meira tengdur trompetleikurunum, svo ég segi trompet. Michael Jackson eða Thom Yorke? Thom Yorke. Michael Jackson var svona fyrsta stjarnan sem maður hlustaði á en Thom Yorke er svona sá sem maður hefur hlustað mest á og lítur mest upp til.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.