Líf og list - 01.04.1951, Blaðsíða 9

Líf og list - 01.04.1951, Blaðsíða 9
meira en Byron, meira skáld en Ólafur Jóhann. sem ég dáði þá mest allra rithöfunda. Ég tók kipp. Ég mokaði flórinn í vetfangi. Ég skyldi flýta mér, flýta mér, flýta mér. Aldrei skyldi ég moka flór, þegar ég yrði orðinn dáð skáld. Sumarið Ieið. Ég sagði þetta engum. Mér var þetta heilagt. Ég næstum blygðaðist mín fyrir að ætla mér svo háleitt hlutverk sem að verða skáld. Ég samdi ótal sögur. Þær sögur verða aldrei skráðar. Ég hugsaði og hugsaði. Sögurnar flutu upp úr djúpi sálar minnar. Þær komu svo hratt, að þær hefði enginn getað skrifað. Þá var ég líka tæplega orðinn skrifandi. Ég fann, að ég var skáld. Um það var ekki áð villast. Ég samdi og samdi í huganum. Ég fékk stundum gæsaham af hrifningu, þegar stígandi sögunnar reis sem hæst. Mér lá við að tárfella af sælu. Ég var snillingur. Svo fór ég að yrkja ljóð. Það var vorið eftir, sem ég byrjaði á því. Ég veit ekki, hvers vegna það var, en mér fannst ég ekki geta tjáð tilfinningar mínar gagnvart þessari syngjandi vorsælu í langri sögu. Ég varð að yrkja ljóð, tjá allan þennan fuglasöng, þetta ljósgræna gras, sem gægðist upp úr túninu, þessa hoppandi læki og þetta Ijósbláa hvolf með hvít- um siglandi skýjum, sem bárust fyrir léttri vor- golunni. Mér fannst ég verða að tjá allan þenn- an fögnuð í ljóði. En hvernig átti ég að fara að. Ég las Byron aft- ur. Ég var engu nær. Ég las Höfuðlausn og Sona- torrek, en ekkert gat ég lært, hvernig ég átti að yrkja. Ég þorði engan að spyrja. Mér var þetta heil- agt mál, og þau saurgar maður ekki á því að láta aðra hafa afskipti af þeim. Loks fann ég Guðmund Friðjónsson. Þá var lausnin fengin. Svona gat ég ort. Svo var ég sendur eitt kvöld að reka ærnar úr engjunum. Ég man, að sólin var að setjast rauð og glóandi í vestri, og ég sigaði og hóaði og varð forugur upp yfir haus. Ég varð sveittur og reið- ur við rollurnar, og þegar ég loks kom þeim upp í holtin fyrir ofan, seig á mig þreytuværð. Ég fann heitan gróðurilminn umlykja mig. Ég sá lömbin leika sér. Ég skynjaði vorfegurðina um- hverfis mig. Og þá kom þessi dýrðaróður til alls þess, sem lifir og grær, þessi göfugi hersöngur lífsins: Nú litkast lauíið á ný og lömbin leika sér. Gleðin flæddi um mig. Ég var skáld. Ég ráf- aði um móann og reyndi meira. Þetta var ekki nóg. Þetta var ekki kvæði. Þetta voru bara tvær ljóðlínur. Ég reyndi að yrkja meira, en ég gat það ekki. Hvað átti nú að koma? Hvemig átti að halda áfram? Ég fann ekkert. Jú, — gult dý, en það var ekki nóg. Ég hnyklaði brúnirnar. Ég svitnaði. Hugur minn var í uppnámi. Gult dý. Það sveif þama í miðri voróðunni án samhengis við allt hitt. Mig vantaði allt til að tengja það saman. Örvæntingin helltist yfir mig. Var ég ekki skáld? Gat ég ekki ort? Fuglasöngurinn berg- málaði i sál minni. Andi minn hvarf í gróðrar- ilminn. Gult dý, gult dý. Ég fleygði mér niður. Tárin komu fram í augun á mér. Ég sparkaði með fót- unum í mosaþúfu. Ég lagðist á bakið og horfði upp í himinblámann og hélt áfram að sparka í þúfuna, unz hún varð að moldarflagi. Gult dý,' gult dý. Hvernig gat ég komið því inn í ljóðið. Ég fór að gráta. Ég var ekki skáld. Ég varð reiður. Af hverju er ég ekki skáld? hrópaði ég og grét af innri þörf. Loks varð mér léttara. Mér datt í hug að fara að biðja. Ég var svo trúaður í þá daga. Og ég bað. Ég held, að ég hafi aldrei beðið af jafnmikl- um innileik og þá, af því að ég hefi fyrir löngu misst trúna á, að það þýði nokkuð. Ég bað um leið og ég horfði upp í hvolfið og sá hásigld ský- in litast rauð af kvöldsólinni. Góði guð, láttu mig verða skáld. Mér var þungt í skapi lengi á eftir, og jafn- vel ennþá er þessi lofsöngur minn til vorsins sveipaður barnslegri angurværð. Það varð langt hlé í skáldferil minn eftir þetta áfall. Smám saman fyrntist yfir minninguna um það á yfirborðinu, en undir niðri var hún sár og olli mér minnimáttarkennd. Ekki gagnvart öðrum, því að ég hafði aldrei sagt þetta nokkrum manni. En hún olli mér minnimáttarkennd gagn- vart köllun minni, vantrausti á persónu minni. Svo fór ég í menntaskóla. Það var þá sem ég byrjaði á nýjan leik. Ég held, að það, hvað ég var talinn góður námsmaður í upphafi, hafi vak- ið sjálfstraust mitt til að byrja aftur. LÍF og LIST 9

x

Líf og list

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Líf og list
https://timarit.is/publication/819

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.