Freyr - 01.09.1983, Page 7
Illa horfirá hallandi sumri
Þegar þetta er ritað horfir vægast sagt illa með
heyskap og fóðuröflun í landinu þegar á
heildina er litið.
Vorið kom aldrei og sumarið hefur að
margra dómi lítið látið á sér bera á sunnan- og
vestanverður landinu. Á norðanverðu
landinu var spretta ákaflega seint á ferð enda
batnaði ekki fyrr en eftir miðjan júní og víða
er þar stórfellt kal í túnum bæði í útsveitum og
í sumum innsveitum. Þar hefur að vísu sprott-
ið vel það sem sprottið getur en miklar eyður
hljóta að verða í heyfengi vegna kalskemmda.
Margir munu þó eiga þar allsæmilegan forða
af góðum heyjum.
Um sunnan- og vestanvert landið lítur nú út
fyrir að verði eitt mesta vandræðaástand sem
þekkst hefur lengi.
Kaldsöm úrkomutíð hefur þar verið allan
júlí og það sem af er ágúst. Öll spretta hefur
verið mjög sein, jafnt á túnum, grænfóðri og í
garðlöndum og gróðurhúsum.
Svo rammt hefur að bleytunni kveðið sums
stðar að dæmi eru þess að menn náðu ekki að
sá grænfóðri vegna þess að aldrei varð fært
um flögin. Harðindin þetta ár og undanfarin
hafa ekki síður bitnað á afréttarlöndum en
ræktuninni og hafa menn nú af því vaxandi
áhyggjur. Þó að vel viðraði árið 1980 telja
fróðir menn að gróður hálendisins hafi víða
ekki náð sér enn eftir kuldaárið 1979 og nú
keyrir víða um þverbak sakir sprettuleysis.
Allt leiðir þetta til þess að við hljótum að
leiða hugann enn meira að því hvernig við
stöndum að vígi með ræktun, fóðurverkun og
nýtingu beitilandanna bæði ræktaðra og
óræktaðra, þegar að herðir. Þetta er hvorki
meira né minna en öll undirstaða búskaparins
hér á landi. Við höfum ræktað mikið, en
kannski ekki nóg til að standa af okkur
hörðustu árin. Við fáum oft ágæta uppskeru
en hún er enn ekki nógu árviss og verðum við
að leggja mikla áherslu á að bæta úr því. Við
höfum mikla tækni við fóðurverkun og náum
að afla ákaflegra góðra heyja þegar sæmilega
gefur. Þar má þó enn margt gera betur. Við
höfum ágæt beitilönd bæði ræktuð og í úthafa
en þurfum að leggja enn meiri áherslu á að
nýta þau rétt og skynsamlega. Allt eru þetta
framfaraverkefni sem bændur, ráðunautar og
búvísindamenn verða að taka höndum saman
um og að vinna af alefli að.
Það er ljóst að aðstæður manna til að
bregðast við erfiðleikum vegna harðnandi
árferðis eru mjög misjafnar, bæði eftir lands-
hlutum, héruðum og á einstökum jörðum
jafnvel innan sömu sveitar og því engin tök að
gefa algildar leiðbeiningar varðandi allt það
flókna samspil búskaparþátta og náttúrufars
sem úrslitum ræður. Þó má benda á það að
sumum bændum lánast flest að jafnaði betur
en öðrum sem við sömu skilyrði búa. Af því
má ekki svo lítið læra ef því er veitt athygli
hvað skilur á milli.
Benda má t. d. á að þeir bændur sem búa
eingöngu við kýr og þurfa ekki að beita túnin
á vorin geta að öllum jafnaði byrjað slátt
verulega fyrr en hinir og eru oft vel staddir
með heyskap þegar aðrir eru í vandræðum
vegna óþurrka þegar líða tekur á sumar.
Margt er það sem reynsla og tilraunir hafa
leitt í ljós og ráðunautar benda tíðum á en
bændur margir hverjir virðast ekki tileinka sér
eða hafa trú á.
Það sem harðindin nú og undanfarin ár
kenna okkur framar öðru, er að við þurfum
að gæta þess öllu öðru fremur að treysta
fóðuröflunina, hafa ávallt traustan ásetning
og ala ekki þann fénað sem litlar afurðir
gefur. Við verðum að komast í fyrningar -
eiga meiri og betri hey frá góðum eða sæmi-
legum árum til að geta mætt þeim sem erfiðari
eru og alltaf koma.
Það hlýtur öllum sem bera hag landbúnaðar
á íslandi fyrir brjósti að vera mikið áhyggju-
efni að þrátt fyrir alla ræktunina, alla tæknina
og þekkinguna skulum við óttast skort á
innlendu fóðri og ekki hafa nægt gras á
beitilöndum landsins. J6|las J6
FREYR — 655