Litli Bergþór - 01.11.2006, Síða 3
/-----------------------------------------------------------------------------N
Ritstj órnargrein
Einn af ágöllum þessarar sveitar er hve uppblástur eyðir gróðurlendi á ýmsum stöðum. Einkum ber á
því efst í byggðinni og ýmsum stöðum á afréttinum. Víða hefur safnast fyrir gróðurmold allt frá
ísöld, einkum á hlýindaskeiðum, þar sem raki er nógur til að gróður dafni. Eldfjallaaska hefur
nokkrum sinnum dreifst yfir þetta svæði og stundum spillt gróðri verulega. Hún hefur enn mikil
áhrif, þar sem lög af henni í jarðveginum, hamla því að grunnvatnið nái að vökva gróðurinn og
vindurinn feykir öskunni burt þar sem hann nær til hennar. Þannig hefur myndun og eyðing jarðvegs
togast á í um 10 þúsund ár.
Menn hafa löngum leitast við að koma í veg fyrir jarðvegseyðingu með því að styrkja og auka
gróðurinn. Fyrstu sögur, sem af slíku starfi fara í þessari sveit, eru frá því um 1880, en þá var mikill
uppblástur víða hér á landi vegna kulda og þrálátra þurrka. Fyrir norðan bæinn Hóla, sem er um fjóra
km vestur af Gullfossi, var mikill uppblástur og kom sandur á túnið. Þá var tekið það ráð að moka
sandinum í litla hóla og þekja þá síðan með torfi. Einnig mun hafa verið hlaðið grjóti í barðið í
norðurjaðri túnsins.
Margt búandfólk í sveitinni hefur löngum leitast við að stöðva uppblástur á jörðum sínum og græða
gróðursnauð svæði. Má víða sjá þess merki á uppblásturssvæðunum, flög, moldarbörð og mela, sem
klædd hafa verið gróðri með áburðargjöf og sáningu. Ýmsir hafa lagt þessu lið, svo sem
áhugamannafélög og umhverfisnefnd hreppsins. Á sjöunda áratug síðustu aldar var farið að styrkja
gróður með áburðargjöf og sáningu á uppblástursvæðunum á afréttinum í samstarfi Landgræðslu
ríkisins, Biskupstungnahrepps og sauðfjárbænda sem fóru með fé í afrétt. Þetta var fyrst í litlum
mæli, en upp úr 1970 hófst uppgræðsla á gróðursnauðu svæði norðan Sandár með skipulegu samstarfi
þessara aðila. Þar er búið að auka mikið gróðurmátt á nokkur hundruð hektara svæði. Á tveimur
svæðum þar í grennd, Rótarmannagili og á Sandvatnshlíðartorfum, hefur uppblástur úr börðum verið
stöðvaður að mestu. Á báðum þessum stöðum hefur verið komið í veg fyrir eyðingu birkirunna, sem
eru leifar skóga, sem fyrrum voru nýttir til að búa til viðarkol. Allt frá miðjum sjöunda áratug síðustu
aldar hefur Landgræðslan grætt upp og stöðvað uppblástur á Haukadalsheiði og þar í grennd. Síðustu
átta ár hefur á vegum Landgræðslunnar verið unnið að uppgræðslu á næstum 3.000 hektara svæði
fyrir norðan Gullfoss, einkum til að binda kolefni til að draga úr loftlagsbreytingu vegna brennslu
lífrænna efna.
Árið 1994 var Landgræðslufélag Biskupstungna stofnað. Það hefur síðan haft forgöngu um
uppgræðslu á ýmsum stöðum allt sunnan úr Skálholtstungu og inn í Svartárbotna. Fyrir nokkrum
árum eignaðist félagið rúllutætara, sem unnt er að tæta í sundur heyrúllur með og blása heyinu í
uppblástursbörð. Bændur hafa látið af hendi rúllur, sem þeir höfðu ekki not fyrir, og hefur þeim verið
dreift í börð í afréttinum. Virðist það gefa góða raun, heyið myndar hjúp ofan á moldinni, sem kemur
í veg fyrir hreyfingu á henni og síðan vex þar gróður. Dreift hefur verið hundruðum rúlla hvert ár. í
nágrenni sæluhúsanna í Fremstaveri, Árbúðir og í Svartárbotnum hafa verið græddir upp
gróðursnauðir melar.
Ýmislegt fleira mætti tína til af verkefnum til að hefta jarðvegseyðingu og græða örfoka land á
síðustu árum og áratugum. Enn er þó að eyðast jarðvegur, sem myndast hefur allt frá lokum ísaldar
svo sem í Sandvatnshlíðar-, Brunnalækjar- og Hellratorfum sunnan Bláfells, á norðanverðum
Bláfellshálsi og víðar milli Bláfells og Hvítár. Þó mikið hafi verið gert til að stöðva uppblásturinn á
Svartártorfum og í Tjarnheiði eru þar enn uppblástursbörð og einnig víða austan Svartár allt norður að
Svartárbotnum. Moldarmekkir sjást því enn þegar þurrt er og hvasst.
Nú er fyrir hendi tækni til að stöðva uppblásturinn og ýmsir virðast fúsir að leggja því lið með
vinnu eða fjármunum. Komið hefur fram að félagar í Landgræðslufélaginu vilja vinna að uppgræðslu
sem sjálfboðaliðar, og unnt er að fá fé til að greiða kostnað svo sem úr Pokasjóði verslunarinnar.
Verðugt verkefni íbúa Biskupstungna er að stöðva jarðvegsfok og eyðingu gróðurs og leitast við að
styrkja strjálan gróður á melum og í moldarflögum. Jafnframt þarf að gæta þess vel að gróður sé
aldrei ofnýttur af beit né traðkaður til skaða af umferð vélknúinna farartækja eða hesta.
A. K.
V_____________________________________________________________________________)
3 Litli Bergþór