Litli Bergþór - 01.12.2011, Blaðsíða 34

Litli Bergþór - 01.12.2011, Blaðsíða 34
Sagan af Álfi Þann 12. júlí sl. má segja að hafi verið bankað uppá hjá okkur heima í Höfða. Úti fyrir var stór og fallegur, brúnn og hvítur, hundur sem spurði kurteis- lega hvort hann mætti búa hjá okkur. Það er erfitt að neita kurteisum hundum um húspláss svo að hér var honum veitt innganga. Hann fékk nafnið Alfur þar sem hann birtist hjá okkur svolítið eins og álfur út úr hól. Nafnið hefur reynst eiga vel við hann þar sem hann er líka oft eins og álfur út úr hól í háttum. Ástæða þess að Álfur var í húsnæðishraki á sínum tíma var sú, eftir því sem ég best veit, að hans fyrsti eigandi hafði ekki reynst honum vel og hann því lent í umsjá Dýrahjálpar Islands, sem eru samtök sem að bjarga dýrum sem farið er illa með eða eru í vanda af einhverjum ástæðum. Starfsfólk Dýrahjálparinnar hafði komið Álfi, sem þá hét Plútó en ekki Álfur, í fóstur hjá Eiríki syni Einars og Emmu sem eiga Steinholt, nýja húsið á Litla-Fljóti. Eins og gengur og gerist þá var komið með hundinn í sveitina og farið út með hann að leika en þá vildi ekki betur til en svo að hann rak sig í rafmagnsgirðingu og fældist í burtu. Þetta var í maí og Álfur litli ekki nema fimm mán- aða gamall. Næstu tvo mánuðina var mikið reynt að ná honum en ekkert gekk. Fólk var að gefa honum út en hann vildi engan þýðast. Sarfskona Dýrahjálpar- innar eyddi ómældum tíma hérna fyrir austan við að leita að honum og reyna á einhvern hátt að fanga hann en allt án árangurs, Álfur var ekkert á því að láta ná sér. Álfur kallinn var framan af í kringum Reykholt en fór svo að færa sig til og þar kom að því að hann var farinn að flækjast í kring um okkur í Höfða. Það liðu um 10 dagar frá því að við sáum hann fyrst þangað til hann leitaði hælis sem pólitískur flóttahundur hjá okkur, þá sjö mánaða og síðan er búin að vera eintóm gleði hjá okkur. Ekki er gott að segja hvers vegna hann ákvað að Höfði væri ákjósanlegt heimili, kannski var hann bara búinn að fá nóg af útilegunni. Eða þá að hann hefur séð hvað við værum miklar gæðasálir, við Víglundur. Hann var nokkuð magur þegar hann kom og ólin var farin að þrengja svolítið að en þó ekkert hættulega. Fyrsta hálfa mánuðinn gleypti hann allt sem fyrir varð og ennþá þykir honum vissara að flýta sér að borða sem mest og eins borðar hann undarlegustu hluti. Honum finnst ekkert tiltöku mál að snæða appelsínur, eldhúspappír, banana, gulrætur og svona eitt og annað sem maður er ekki vanur að sé á mat- seðli hunda. Það var eitt sinn eftir að hann var nýlega kominn til okkar að ég var að taka til í ísskápnum og Hann er sjarmör hann Álfur. setti út á bekk það sem ég ætlaði að henda. Þar á meðal var afgangur af framparti sem hafið verið steiktur en eitthvað var farið að slá í þannig að hann taldist ekki ætur lengur. Eg þurfti að skreppa aðeins út á hlað og það næsta sem ég sé er Álfur rígmontinn á tröppunni með frampartinn í kjaftinum. Svo fór hann eins og blátt strik einhvert út á tún með fenginn og þarf ekki að orðlengja það að þennan frampart sá ég aldrei eftir það. En Álfur er ekki einn í heiminum og hann hefur ákaflega gaman af að leika sér. Það er dásamlegt að sjá hann og Chiuaiua hundinn Kela, sem er svipaður á stærð og annað afturlærið á Álfi, leika sér saman. Keli er nú töluvert eldri og reyndari hundur en Álfur og lætur hann alveg heyra það og með ólíkindum hvað hann nær að halda þessum stóra niðri með því að urra á hann og skamma hann. Það kemur samt einstöku sinnum fyrir að Álfur er svo ósvífinn að taka hann upp á skottinu! Þvílík vanvirðing! Nei Álfur kann sig ekki í samskiptum við sér eldri hunda. Hann dregur þá á skottinu og hann teymir þá á hálsólunum um allt. Hann frekjast með dótið þeirra og hann étur mati'nn þeirra án þess að blikna. En það sem stendur upp úr er að Álfur er ekki lengur flökkuhundur. Það var svolítið hjartaskerandi að sjá þennan ræfil þegar hann var að hugsa sig um og var að kúra sig niður úti á túni og mæna heim að bæ og mér verður oft hugsað til þess í vondum veðrum að nú sé gott að Álfur sé kominn í hús. Svava Theodórsdóttir Litli-Bergþór 34

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.