Árbók VFÍ - 01.01.1989, Side 132
130 Árbók VFÍ 1988
klofnar efnið og getur þá myndast díoxín, sem er stórhættulegt eiturefni. Einnig brotnar þetta
efni afar seint niður í náttúrunni og hleðst því upp í lífkeðjunni. Kenningar voru uppi um (og
hafa magnast), að efnið komið í manninn gegnum lffkeðjuna sé krabbameinsvaldur.
Niðurstaða úttektarinnar 1984 í Straumsvík var sú, að allir þéttamir, 260 að tölu á 7 stöðum,
innihéldu PCB undir mismunandi heitum. Heildarrýmdarafl nam tæplega 30 MVar. Jafnframt
var Ijóst, að margir þéttanna „voru farnir að líta upp á landið“, þ.e.a.s. að bólgna, sem gat þýtt
sprengingu innan tíðar.
Við mat á hagkvæmni þéttaútskiptingar þarf einnig að taka tillit til raunorkusparnaðar með
nýjum þéttum. Orkutöp í hinum nýju þéttum ISAL eru aðeins um 1/10 af töpum í 15-20 ára
þéttum vegna framfara í framleiðslutækni.
Síðast en ekki síst ber svo að nefna einangrunarvökvann, en hann var í raun þyngstur á
metunum, þegar ákveðið var að endurnýja þéttavirkið. Nýi vökvinn kallast BAYLECTROL
4900 og er algerlega skaðlaus og vatnsuppleysanlegur.
Hér eru nokkrir eiginleikar vökvans:
Vatnsleysanleiki er 3,4 mg/1, LD 50 = 3640 mg/kg (skaðsemi við inntöku), innan 30 daga
hefur 71% leyst upp í náttúrulegt efni við förgun, seigja = 5,8 cst, frostmark = -54°C, brennslu-
mark við 155°C og blossamark við 545°C.
Gömlu þéttarnir láku ekki, en margir voru orðnir ansi bólgnir. Búið var um þá í sérsmíðuöum
blikkkössum á Europallettu, 10 saman í kassa, og þétt með ídrægu efni. Öllum kössunum, 15
að tölu, var komið fyrir í 30-feta gámi og skipað um borð til flutnings til eyðingaraðila, sem
seljandi nýja virkisins hafði samið við.
Eins og áður hefur komið fram, eru 7 þéttavirki í Straumsvík. Árið 1984 var mótuð stefna
varðandi endurnýjun þétta og útrýmingu hinna viðsjárverðu PCB-þétta. Þar sem hér var um
mjög kostnaðarsamar aðgerðir að ræða, var framkvæmdinni dreift á 4 ár (1985 - 1988).
Annar aðalnotandi launafls í Straumsvík er steypuskálinn. Þar eru 4 rennuspanofnar, hver um
sig með uppsettu þéttaafli 900 kVAr, og einn deigluspanofn með uppsettu þéttaafli 7500
kVAr. Þarna var fyrst hafist handa um útskiptingu, enda eldlíkurnar að vissu leyti mestar þar.
Afleiðutjónið gæti og hafa orðið mest þar. Á árinu 1987 lauk þéttaútskiptingu í steypuskála og
á árinu 1988 í skautsmiðju og aðveitustöð. Kostnaður varð um 600.000 svissneskir frankar.
Þar af kostaði eyðingin um fjórðung. Framan af voru þéttar sendir til eyðingarfyrirtækis í
Austurríki, en árið 1988 var svo komið, að innflutningur efnisins til Austurríkis var stranglega
bannaður. Eins og áður var drepið á gerði hinn austurríski þéttaframleiðandi samning við
fyrirtæki í Englandi, sem reyndar hefur tekið við PCB-þéttum frá öðrum fyrirtækjum á Islandi.
Reynslan af þeim framkvæmdum, sem að framan hefur verið lýst, hefur verið mjög góð.
Við spanofnana var tekið að bera á afkastaminnkun þéttanna, sem var orðin bagaleg, og gat
numið 5 - 25%. Elstu þéttarnir voru orðnir 18 ára og virðist svo sem þéttar þessarar gerðar
endist við þessa notkun aðeins u.þ.b. 15 ár miðað við full afköst.
Nýju þéttarnir hafa reynst mjög vel. Enginn spanofnsþéttir hefur bilað til þessa. I aðveitustöð
var strax ljóst, m.a. út frá síritun núllpunktsstrauma, að 2 þéttar voru bilaðir. Eftir að skipt
hafði verið um þá, hefur rekstur virkisins gengið mjög vel og bilanalaust. Fasviksstuðull hefur
hækkað um 0,01, sem sparar Landsvirkjun nokkuð og veitir ISAL meira svigrúm m.t.t.
álagsbreytinga og viðhalds.