Árbók VFÍ - 01.01.1989, Page 134
132 Árbók VFÍ 1988
2 Egilsstaðaflugvöllur
Telja má að upphaf þeirra framkvæmda sem nú eru í gangi á Egilsstöðum megi rekja aftur til
ársins 1982 er flugráð fól verkfræðinganefnd að gera verkfræðilega úttekt á uppbyggingu
Egilsstaðaflugvallar. Niðurstaða nefndarinnar var birt í mars 1983 og var talið álitlegast að
byggja 2000 metra langa flugbraut á þeim stað sem nú er unnið á.
Til þess að þetta mætti takast þurfti að kaupa u.þ.b. 60 hektara spildu úr landi Finnsstaða og
breyta farvegi Eyvindarár, og náðist fljótlega samkomulag við landeigendur um þau atriði.
I framhaldi af þessu var svo Almennu verkfræðistofunni hf. og Verkfræðistofu Austurlands
hf. falin hönnun og önnur undirbúningsvinna og kölluðu þeir sér til hjálpar ýmsa aðila, eins og
Orkustofnun, svo einhverra sé getið.
Arið 1987 lá svo fyrir frumhönnun mannvirkisins og var þar miðað við 2000 metra flugbraut
með 300 metra breiðu öryggissvæði og 60 metrum fyrir hvorum enda, ásamt nýjum farvegi
fyrir Eyvindará, 1800 metra löngum.
Efnisnámur fundust í landi Mýness, næst Lagarfljóti, og var gert ráð fyrir sérstökum vegi í þá
námu, 1900 metra löngum, og skyldi hann fylgja fljótsbakkanum að mestu. Gert var ráð fyrir
bundnu slitlagi (malbik eða steypa) á flugbraut og stæði, en öryggissvæði verði sléttuð og
ræktuð.
Stærð verksins má ef til vill ráða af því, að í verklok verður búið að flytja til með einum eða
öðrum hætti fast að 1 milljón rúmmetra. Tekinn er burtu lífrænn jarðvegur og grafið niður á
sand og silt og fyllt í með burðarefni úr Mýnesnámu. Á nyrstu 700 til 900 metrana, þar sem
lakast er undir, er sett tveggja metra þykkt malarfarg sem standa á í um eitt ár til að flýta sigi,
en á aðra hluta verður ekki sett yfirhæð. Endanlegt yfirborð brautar verður hæst í 23,3 m y.s.
en hæsta mælda flóð í fljótinu var í nóvember 1968, 22,43 m y.s.