Bændablaðið - 28.09.2004, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 28.09.2004, Blaðsíða 6
6 Þriðjudagur 28. september 2004 Upplag: 12.000 eintök Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins að mestu leyti. ISSN 1025-5621 Bændablaðið Málgagn bænda og landsbyggðar Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjölmargra annarra er tengjast landbúnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 5.200 en sjötugir og eldri greiða kr. 2.250. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 - Fax: 552 3855 - Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Áskell Þórisson (ábm.) Auglýsingastjóri: Eiríkur Helgason, blaðamaður: Sigurdór Sigurdórsson Netfang blaðsins er bbl@bondi.is Prentun: Prentsmiðja Morgunblaðsins Næstu blöð! okt. 12. 26. nóv. 9. 23. Frestur til að panta stærri auglýsingar er á hádegi miðvikudag fyrir útkomu. Smá- auglýsingar þurfa að að berast í síðasta lagi fyrir fimmtudag fyrir útkomu. Þrjátíu þúsund börn deyja á ári vegna þess að þau fá vont vatn og ónógan mat Jón Ormur Halldórsson stjórnmálafræðingur ritaði grein í Fréttablaðið fyrir skömmu. Jón sagði í upphafi greinarinnar: "Ellefta september árið 2001 dóu þrjátíu þúsund börn úr fátækt. Fáir tóku eftir þessum dauðsföllum aðrir en foreldrar, systkini og nágrannar þessara barna. Tala hinna látnu er þó vel þekkt. Enginn dagur líður svo á þessari jörð að ekki deyi eitthvað í kringum þrjátíu þúsund börn af þeirri ástæðu einni að foreldrar þeirra eru fátækt fólk sem hvorki hefur aðgang að hreinu vatni né sæmilegri fæðu fyrir börnin sín. Þennan sama daga dóu líka þrjú þúsund saklausir menn vegna hryðuverka í New York. Sá atburður breytti heiminum. En þó ekki fyrir alla. Og ekki til hins betra. Frá því árásin var gerð á New York hafa um það bil þrjátíu milljónir barna dáið úr fátækt. Tíu þúsund sinnum fleiri en dóu í árásinni fyrir þremur árum. Og að minnsta kosti ein til tvær milljónir manna til viðbótar hafa dáið vegna stríðsátaka sem fáir taka eftir vegna þess að þau eru ekki inni á dagskrá heimsmálanna sem í þrjú ár hefur verið mótuð af stríðinu gegn hryðjuverkum. Og enn aðrar milljónir manna hafa dáið úr sjúkdómum sem auðvelt hefði verið að lækna þá af fyrir lítið brot af þeirri upphæð sem stríðið í Írak er búið að kosta." Sykurinn hækkaði Rétt er að fólk viti að að verð á sykri þrefaldaðist í Eistlandi við það að landið varð aðili að ESB. Aðalumræðuefni almennings í vor - áður en landið fékk inngöngu - var hvort búið væri að kaupa sykur til sultugerðar í haust og hve mikið.... Fólk bókstaflega hamstraði sykur á gamla verðinu. Fleiri mjaltaþjónar á Vestfjörðum en á Írlandi Frændur okkar Írar eru ekki mjög ginnkeyptir fyrir tækninýjungum og sjá t.d. ekki mikinn tilgang í fjárfestingu á mjaltaþjónum. Þannig eru aðeins tveir mjaltaþjónar starfræktir á Írlandi eftir því sem næst verður komist. Alls hafa verið keyptir fimm til Írlands en þremur var skilað aftur. Kannski er það engin furða þar sem mjólkurframleiðsla þeirra er mest megnis af beit og nýting mjaltaþjóna við þær aðstæður vandasamari en við innifóðrun. GJ. 10% drekka mjólk með skyndibitum Í síðustu viku gerði LK “ör- skoðanakönnun” sem náði til 100 þátttakenda á Hvanneyri og í Borgarnesi. Fjórar spurningar voru lagðar fyrir viðmælendur og spurt um mjólkurdrykkju með pönnukökum, pizzum, hamborgurum og með kvöld- mat. Niðurstöður þessarar könnunar benda til þess að um 10% drekka mjólk oft eða alltaf með skyndibitanum, 75% með pönnukökum og 44% með kvöldmatnum. Fyrir um aldarfjórðungi tókust bændur á við framleiðslutakmarkanir í meginbúgreinum sínum, nautgriparækt og sauðfjárrækt. Offramleiðsla í þeim greinum var verkefni sem ráðist var þá gegn af krafti. Við rifjum hér ekki upp alla þá erfiðleika sem það kallaði yfir stéttina. Sú saga er ekki viðfangsefni hér, heldur að líta til hvaða bjargráð menn fundu á þeim tíma. Horft var til m.a. loðdýraræktar, fiskeldis og ferða- þjónustu. Hér verður ekki fjölyrt um hvernig fór með fiskeldið. Loðdýraræktin hefur átt sína djúpu dali og ekki reynst það mikla bjargráð sem ætlað var. En hún á sér mögu- leika og ef vel tekst til við að koma fótum undir búrgreinina þá á hún mikla möguleika á að verða verulega stór búgrein og byggða- stoð. Til þess þarf þolinmæði og samstöðu. Samstöðu þeirra sem stunda greinina og geta unnið sig sameiginlega upp, þolinmæði þeirra, sem leggja fram aðstoð við greinina, til að hafa úthald í að bíða eftir að sjá árangur. Loðdýrabændur standa einmitt í miðjum verkum í þeim efnum. Vaxtamögu- leikar loðdýraræktarinnar eru miklir, enda byggir greinin á möguleikum erlendra markaða. Óhætt er að segja að fáir hafi fyrir fram gert sér grein fyrir hversu öflug ferða- þjónusta á vegum bænda gæti orðið. Við sjáum víða glæsileg fyrirtæki í ferðaþjón- ustu. Víða er ferðaþjónusta í sveitum orðin stórrekstur og í raun mjög mikilvæg í um- hverfi sínu. Vaxtamöguleikar hennar eru enn miklir. Með vaxandi frítíma fólks og ferðalögum skapast sífellt ný tækifæri, ásamt því að straumur erlendra ferðamanna skiptir miklu máli, þannig að ekki þarf eingöngu að treysta á innlendan markað. Hestamennskan og ferðatengd hestamennska gegnir þar stóru hlutverki. Víða eru komnir miklir hesta- búgarðar og þjónustu við hestafólk. Það sem kannski hefði þótt ólíklegt fyrir aldarfjórðungi er að tækifæri framtíðannar fælust í jarðrækt, þ.e. kornrækt, og sauðfjár- rækt. Kornrækt hefur vaxið hratt á undan- förnum árum. Nú framleiða bændur sífellt stærri hluta af fóðurbyggi sem þeir nota. Helsta verkefni í kornrækt nú er að efla möguleika á afsetningu framleiðslunar, koma þarf á fót virkum markaði fyrir bygg til fóðurs. Takist slíkt er hægt að leysa úr læðingi mikla vaxtarmöguleika kornræktar- innar. Annars konar kornrækt er einnig hægt að binda verulegar vonir við. Það er kornrækt til lyfjaframleiðslu. Líftæknifyrir- tækið ORF hefur þróað aðferðir til að fram- leiða í byggplöntunni lyfvirk efni og vinna það úr henni aftur til lyfjagerðar. Þessir ferlar eru þekktir. Möguleikar á slíkri ræktun hér eru gríðarmiklir. Og ekki aðeins í ræktunni sjálfri, heldur og vinnslunni sem skapa mun mörg störf. Lyfjaiðnaðurinn, í allri sinni stærð, gæti sannarlega breytt miklu fyrir kornrækt og í jarðrækt á Íslandi. Eins og verða vill takast hér á sjónarmið áræðni og framsækni annars vegar og varúðar hins vegar þegar byltingarkennt verkefni eins og þetta er á ferðinni. Hér skal fagnað þeirri nýju þekkingu sem hér er á ferð en um leið tekið undir það að fara þurfi varlega í þessum efnum. Sauðfjárræktin á sér einnig möguleika á erlendum mörkuðum. Það hefur markaðs- starf erlendis á undanförnum árum sýnt. En þar, eins og með loðdýraræktina og fleiri búgreinar, verðum við að hafa úthaldið í lagi. Nú ríður á að enginn bregðist. Næstu ár geta breytt miklu í þessum efnum. Skorti okkur samstöðu og úthald nú gætum við misst af verulegum tækifærum. Af öllu þessu sögðu eru það þær búgreinar, sem huga að erlendum mörkuðum, sumar á grundvelli sérstöðu sinnar, þær búgreinar sem eru að vaxa í dag og eiga mikla vaxtarmöguleika. Tækifærin kunna að leynast víða, það er okkar að finna þau. H. B. Leiðarinn Smátt og stórt Hvar felast tækifærin? Fyrir nokkru var stjórnarformaður Sambands bænda í Bandaríkjunum, National Farmers Union, David Fredrickson, á ferð í Noregi. Bondebladet í Oslo átti þá viðtal við hann og fer útdráttur úr því hér á eftir. Ég tel engan vafa á því, sagði David Fredrickson, að bandarískir bændur hafi ekki á síðari árum verið áhyggjufyllri en nú yfir afleiðingum alþjóðavæðingarinnar og stöðu alþjóðaviðskipta með búvörur, eftir síðustu niðurstöðu WTO-viðræðnanna. Núverandi stefna í málefnum landbúnaðarins, að auka látlaust framleiðsluna og draga úr kostnaði, mun aðeins leiða til þess að sífellt fleiri bandarískir bændur gefast upp. Alþjóða viðskiptastofnunin, WTO, er ekki að vinna fyrir bændur. WTO hefur einungis áhuga á lægra verði á matvælum. En hver er hagur bænda af því að framleiða heimsins ódýrustu búvörur? Það leiðir ekki til annars en að þeir koma öðrum bændum á vonarvöl og verða svo sjálfir gjaldþrota í kjölfarið. Viðskiptasamningar WTO hafa þjónað hinum fjölþjóðalegu matvælafyrirtækjum, ekki bændum, neytendum eða hinum fátæku, sagði David Fredrickson. Í Bandaríkjunum ráða fjögur stærstu sláturfyrirtækin yfir meira en 80% af nautgripaslátruninni og hið sama gildir um viðskipti með sojabaunir. Þá eru 62% af hveitimarkaðnum í höndum fjögurra fyrirtækja. Fimm stærstu verslanakeðjurnar juku hlutdeild sína í smásöluverslun með matvæli í Bandaríkjunum úr 24% árið 1997 í 42% árið 2000. Tíu fyrirtæki ráða yfir 85% af heimsmarkaðnum með jurtavarnarefni. Í ofanálag eru þessi fyrirtæki að auka samstarf sitt eða sameinast öðrum fyrirtækjum sem koma að matvælaframleiðslu og dreifingu matvæla. Með slíku samstarfi og sameiningu fá þessi fyrirtæki vald yfir öllum ferlinum. Óháðir framleiðendur komast þar hvergi að. Eitt dæmi, sem David Fredrickson nefndi, var kjúklingaframleiðslan í Bandaríkjunum. Kjúklingabóndinn leggur til landrými, framleiðsluaðstöðuna og vinnuna en að öðru leyti er hann verktaki hjá fyrirtækinu sem kaupir afurðirnar og verður að framfylgja fyrirmælum þess. Samkvæmt samningi fyrirtækisins og bóndans þá á bóndinn ekki fuglana og fyrirtækið leggur honum til fóðrið og hann fær greitt samkvæmt samningi en ekki markaðsskráningu. Hann ber hins vegar ábyrgð á framleiðslunni og hugsanlegum skaða á umhverfinu. Bóndinn fær greitt fast verð á fugl ef framleiðslan fullnægir skilyrðum og ef kaupandinn segir ekki upp samningnum. Fyrirtækin hafa ekki aðeins öll ráð bóndans í hendi sér. Þau hafa einnig mikil ítök í samningaviðræðum innan WTO. Það fer ekkert leynt að hin stóru fjölþjóðlegu fyrirtæki gegna miklu hlutverki þegar Bandaríkin ákveða stefnu sína í alþjóðaviðskiptum með búvörur, bæði hvað varðar hvaða mál komast þar á dagskrá sem og um niðurstöður viðræðnanna. Í mínum huga er það ljóst, sagði David Fredrickson, að það eru fjölþjóðafyrirtækin og keðjur matvælafyrirtækja sem einkum hagnast á alþjóðavæðingunni. Hann skorar á sérhvert land að innleiða samkeppnisreglur þar sem öll viðskipti eru gegnsæ og eðlileg samkeppni fái að njóta sín. (Bondebladet nr. 26-27/2004) Bandarískir bændur áhyggjufullir yfir þróun í alþjóðaviðskiptum með búvörur

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.