Bændablaðið - 28.09.2004, Qupperneq 26
26 Þriðjudagur 28. september 2004
Bragð er að þá barnið finnur,
má kannski segja um ræðu sem
Tony Blair, forsætisráðherra
Bretlands, flutti um miðjan
september en hún vakti talsverða
athygli. Þar sagðist hann vera
"sjokkeraður" yfir þeim teiknum
sem hrannast upp um hlýnun
andrúmslofts jarðar og að hún
gangi stöðugt hraðar. Hann sagðist
ætla að beita sér fyrir því á næsta
ári að fá önnur iðnveldi til að stíga
afgerandi skref í þá átt að draga úr
losun gróðurhúsalofttegunda en á
því ári gegna Bretar formennsku
bæði í Evrópusambandinu og
samtökum átta mestu iðnríkja
heims, svonefndum G8-hópi.
Blair sagði að mestu máli
skipti að telja Bandaríkjastjórn
hughvarf og fá hana til þess að
staðfesta Kyoto-bókunina um
losun gróðurhúsalofttegunda
ásamt því að setja risunum
tveimur í austri, Kína og Indlandi,
raunhæf markmið. Þessi tvö
stórveldi eru í örum vexti og
orkunotkun þeirra vex afar hratt.
Þau teljast hins vegar bæði til
þróunarríkja og eru þar af leiðandi
undanþegin Kyoto-bókuninni.
Um hlut Breta hafði hann
mörg orð sem lutu að nauðsyn
þess að endurskoða öll viðhorf
þjóðarinnar, ekki síst unga
fólksins, til orkunotkunar og efla
vitundina um sjálfbæra þróun.
Breskir fjölmiðlar hafa hins vegar
bent á að í ræðu Blairs hafi ekki
verið sett fram nein ný markmið
eða hugmyndir um breytta stefnu.
Þvert á móti hafi stjórn Blairs
frekar ýtt undir aukna orkusóun,
svo sem með því að heimila
stækkun og fjölgun flugvalla í
Bretlandi.
Umhverfisverndarmenn hafa
gagnrýnt þá ákvörðun á þeim
forsendum að hún væri til þess
fallin að auka flugumferð sem
veldur mikilli losun
gróðurhúsalofttegunda. Raunar er
flugumferð sá losunarþáttur sem
hraðast vex um þessar mundir.
Blair reyndi þó að mæta þeirri
gagnrýni með því að hvetja til
þess að flugumferð verði tekin
með í viðskipti með losunarkvóta
sem framundan eru á vettvangi
Evrópusambandsins en samkvæmt
Kyoto-bókuninni er flugumferð
undanþegin.
Jöklar og freðmýrar hverfa
En þótt menn fettu fingur út í
einstök ummæli breska
forsætisráðherrans þá sætir það
tíðindum að svo valdamikill
maður skuli tjá sig með jafn
afgerandi hætti um hlýnun
andrúmsloftsins. Ræðan þótti
tilfinningarík og Blair hélt því
meðal annars fram að tíminn væri
að hlaupa frá okkur,
loftslagsbreytingarnar væru orðnar
svo hraðar að líf mannkyns liggi
við að þjóðir heims stingi við
fótum. Hann sagði að nú blöstu
við breytingar á loftslagi sem líkja
mætti við náttúruhamfarir og þær
hæfust sennilega meðan hann
væri enn á lífi og örugglega
meðan börn hans væru á dögum.
Þetta mat forsætisráðherrans
styðst við niðurstöður
vísindamanna sem hafa lagt mat á
loftslagsbreytingar og
hugsanlegan þátt mannkyns í
þeim. Aukning
gróðurhúsalofttegunda, einkum
koltvísýrings, hefur verið afar
hröð undanfarnar tvær aldir.
Borkjarnar úr botni
Suðurheimskautsins sýna að
undanfarna hálfa milljón ára hafi
koltvísýringur í andrúmsloftinu
verið á bilinu 200-270 ppm (hlutar
af milljón). Við upphaf
iðnbyltingar fyrir tveimur öldum
var þetta magn 270-80 ppm en
árið 1990 var það komið í 360
ppm og nú er það 379 ppm. Talið
er að það aukist um 3 ppm á ári
um þessar mundir.
Þegar loftslag hlýnar bráðna
jöklar og freðmýrar breytast í
votlendi. Talið er að
Grænlandsjökull hverfi á þúsund
árum ef hraði
loftslagsbreytinganna verður sem
horfir. Það veldur sjö metra
hækkun á yfirborði sjávar sem er
meira en margar strandbyggðir
heims þola. Bráðnun freðmýranna
gæti ekki síður reynst afdrifarík
því vitað er að í túndrum Síberíu
og Kanada er bundið gífurlegt
magn af metangasi. Losni það út í
andrúmsloftið veldur það enn
meiri hlýnun og herðir á
þróuninni. Vísindamenn telja að
sú losun gæti í lok þessarar aldar
orðið jafnmikil og losun af
mannavöldum er nú.
Þau teikn sem Blair hafði
komið auga á blasa við öllum sem
fylgst hafa með veðurfréttum
undanfarin ár. Undanfarin tíu ár
hafa flest hitamet verið slegin og
meðalhitinn hækkað jafnt og þétt.
Auknar sveiflur í veðurfari, öflugir
fellibyljir, flóð og þurrkar,
hitabylgjur og djúpar lægðir - allt
eru þetta teikn um breytta tíma.
Helstu skúrkarnir
Að sjálfsögðu eru þjóðir heims
mismiklir áhrifavaldar um hlýnun
andrúmsloftsins. Á enga er þó
hallað þó bent sé á Bandaríkin
sem helsta sökudólginn. Þar býr
innan við 5 af hundraði mannkyns
en þjóðin ber ábyrgð á fjórðungi
allrar losunar
gróðurhúsalofttegunda í
heiminum. Við undirritun Kyoto-
bókunarinnar árið 1997 féllust
bandarísk stjórnvöld á að draga úr
losuninni um 6% frá því sem hún
var árið 1990. Þegar George W.
Bush komst til valda dró hann
Bandaríkin út úr Kyoto-
samstarfinu og í stað þess að
minnka losun
gróðurhúsalofttegunda hefur hún
aukist um 15 af hundraði frá 1990.
Ríki Evrópusambandsins voru
15 þegar Kyoto-bókunin var
undirrituð og þau staðfestu hana
öll árið 2002. Evrópusambandið
hefur gengið harðast fram um að
hvetja ríki heims til að staðfesta
bókunina og beitt sér af hörku
gegn öllum undanþáguákvæðum,
svo sem að heimila ríkjum að
rækta skóg sem dregur í sig
koltvísýring í stað þess að minnka
útblástur. Sambandið hefur þó
orðið að sætta sig við reglur sem
settar hafa verið og heimila ríkjum
viðskipti með mengunarkvóta.
ESB skuldbatt sig til að draga úr
losun um 8% en það hefur gengið
hægar en skyldi að ná því
markmiði. Árið 2002 hafði losun
allra gróðurhúsalofttegunda
minnkað um 2,9% en losun
koltvísýrings hafði hins vegar
aukist lítillega og einungis fjögur
af fimmtán aðildarríkjum eru á
áætlun hvað varðar samdrátt á
losun gróðurhúsalofttegunda.
Rússland og ríkin í
austanverðri Evrópu eru í þeirri
stöðu að þar hefur losun
gróðurhúsalofttegunda dregist
verulega saman á undanförnum
árum. Það kemur ekki til af góðu
heldur stafar samdrátturinn af
hruni iðnfyrirtækja sem ekki þoldu
umskiptin að hagkerfi
Sovétríkjanna gengnu. Þessi ríki,
ekki síst Rússland, eygja nú
möguleika á að selja iðnríkjunum í
vestri ónýttan mengunarkvóta fyrir
hundruð miljarða króna. Samt hafa
stjórnvöld hikað við að staðfesta
Kyoto-bókunina.
Stórveldin tvö í austri, Kína og
Indland, eru eins og áður var nefnt
undanþegin Kyoto-bókuninni þar
sem þau teljast til þróunarríkja en
þau hafa bæði staðfest bókunina.
Hver Kínverji notar ekki nema
rúmlega tíunda hluta þeirrar orku
sem Bandaríkjamaðurinn gerir en
hagvöxtur í Kína er svo hraður um
þessar mundir að vísindamenn spá
því að heildarlosun Kínverja fari
fram úr Bandaríkjunum um miðja
öldina. Menn muna fréttir
sumarsins af rafmagnsskorti og
skömmtun vegna þess að
orkukerfi landsins heldur ekki í
við vöxt atvinnulífsins. Kínverjar
eru heimsins mestu
kolaframleiðendur og olíunotkun
þeirra hefur tvöfaldast á tuttugu
árum. Svipaða sögu er að segja af
Indlandi þar sem losun
gróðurhúsalofttegunda jókst um
helming á tíunda áratug síðustu
aldar.
Bandaríkin einangrast
Í ljósi þessa er hægt að taka
undir með leiðarahöfundi breska
blaðsins Guardian sem segir að
hvað sem öðru líði þá sé
mikilvægasta verkefni Blairs að
hafa áhrif á Bandaríkjastjórn og fá
hana ofan af andstöðu sinni við
Kyoto-samkomulagið. Þar er við
ramman reip að draga því þótt
menn vilji kenna Bush forseta um
þvermóðskuna megi ekki gleyma
því að öldungadeild
Bandaríkjaþings samþykkti með
95 samhljóða atkvæðum að
staðfesta ekki bókunina. Enginn
var á móti.
Bandarísk stjórnvöld bera því
fyrir sig að sannanir fyrir því að
maðurinn eigi þátt í hlýnun
loftslagsins séu ekki einhlítar og
meðan svo sé ætli þau ekki að
fórna hugsanlegum hagvexti fyrir
óljósa framtíðarmúsík. Það þarf
eitthvað mikið að gerast eigi að
leiða Bandaríkjamönnum það fyrir
sjónir að þeir eru óðum að
einangrast í þessu máli sem kann
að skipta sköpum fyrir framtíð
mannkyns.
-ÞH/stuðst við fréttir frá BBC
og The Guardian
Tony Blair varar
við hlýnun
andrúmsloftsins
Hraði loftslagsbreytinga eykst stöðugt og birtist með ýmsu móti -
Bandarísk stjórnvöld helsta hindrun í vegi sameiginlegs átaks
gegn losun gróðurhúsalofttegunda
Að sjálfsögðu eru þjóðir heims mismiklir áhrifavaldar um hlýnun andrúmsloftsins. Stórborgarsamfélagið hefur gjörbreytt ásýnd landa.