Dagsbrún - 01.02.1989, Blaðsíða 4

Dagsbrún - 01.02.1989, Blaðsíða 4
Snúist af hörku gegn „gerviverktökum“: Eitt stykki auga á 900 þúsund? „Ég verö eiginlega að viðurkenna, að mér finnst ég hafa látið plata mig upp úr skónum eins og einhver auli,“ segir Þráinn Friðriksson, 18 ára Kópavogs- búi, nemi í Fjölbrautaskólanum í Breið- holti, sem missti annað augað í vinnu- slysi síðastliðið sumar. Þráinn réð sig í vinnu hjá verktaka í byggingariðnaði í fyrravor — að nafn- inu til sem sjálfstæður undirverktaki. Hann fékk 300 krónur á tímann, var borgað út í peningum en sá aldrei launa- seðla og naut að sjálfsögðu engra ann- arra réttinda, sem kjarasamningar stétt- arfélaga tryggja launþegum. Reynslusaga Þráins á erindi til Dags- brúnarmanna. Gefum honum orðið: „Þegar ég var laus úr skólanum í fyrravor vantaði mig náttúrlega vinnu og bauðst starf hjá verktaka í bygginga- bransanum, Valgarð Ólafssyni. Þegar við hittumst í fyrsta skipti sagðist hann yfirleitt hafa þann háttinn á, að ráða til sín undirverktaka og því þyrfti ég að fara á skattstofuna og láta setja mig inná launagreiðendaskrá. Þetta væri lang- heppilegasta fyrirkomulagið, bæði fyrir sig og mig, við myndum báðir hafa meira út úr þessu þannig. Ég hugsaði ekkert meira út í það — mér fannst ágætt að fá 300 kall á tímann þegar félagar mínir voru flestir með 200 og 250 kall. Tók sjálfur út tryggingu Þetta var oft á tíðum stórhættuleg vinna, verið að príla í stillönsum og fleira í þeim dúr, og um mitt sumar spurði ég hann hvort ég væri eitthvað tryggður. — Nei, sagði hann, — þú verður að gera það sjálfur. Það varð svo úr, að ég tæki út tryggingu á mínu nafni en hann ætlaði að borga iðgjaldið. Ég fór svo í Almennar og lét tryggja mig fyrir tvær milljónir vegna örkumls eða örorku og inní þeirri tryggingu var mið- að við tíu þúsund krónur á viku í dag- peninga. Þetta er lægra en atvinnurek- endur hafa yfirleitt fyrir sína starfsmenn — og auk þess man ég ekki betur en að mamma hafi borgað iðgjaldið á endan- um. í ágúst í fyrra vorum við svo að gera við steypuskemmdir á svölum í hjónag- arðabyggingunum við Suðurgötu. Ég var að saga með slípirokk í síðustu svölunum þegar slysið varð. Þetta var bölvaður gallagripur, með engri hlíf, og dagana þarna á undan höfðu sagarblöð- in brotnað einum þrisvar sinnum. Venjulega notuðum við annars konar rokka en það rigndi svo mikið þessa daga, að það sló stöðugt út af þeim og þá lét Valgarð mig nota þennan, sem var tengdur við loftpressu en ekki raf- magn eins og hinir. Blöðin voru líka léleg, rússnesk held ég, og þau voru búin eftir hálftíma eða þrjú kortér en á hinum rokkunum dugðu þau í tvo eða þrjá tíma. Eins og að fá byssukúlu í hausinn Allt í einu var eins og það væri sparkað í hausinn á mér af miklu afli, ég kastað- ist aftur fyrir mig og steinlá. Þetta var rosalegt högg, eins og sparkð væri af öllu afli með fjallgönguskó í hausinn á manni, eða, eins og augnlæknirinn sagði síðar, eins og að fá byssukúlu í hausinn. Ég sá ekkert og gat ekki opnað augun en þóttist strax vita hvað hefði gerst — sagarblaðið hafði brotnað. Til allrar hamingju var ég með plasthlíf fyrir and- litinu en hún hafði sprungið í V og oddurinn stakkst rúman sentimetra inní augnkrókinn. Gríman hefur örugglega bjargað miklu — ef hún hefði ekki verið þá hefði sagarblaðið lent í hausnum á mér og þá er aldrei að vita hvað hefði gerst. Fyrst í stað gat ég ekki staðið upp en það hafðist á endanum og þá slökkti ég á loftpressunni og kallaði í Valgarð, sem var að vinna uppá þriðju hæð. Hann kom niður og keyrði mig á slysadeild Borgarspítalans á meðan blóðið fossaði úr sárinu í augnkróknum. Á slysadeildinni vissu menn eiginlega ekkert hvað þeir áttu að gera við mig — voru helst á því að senda mig bara heim — en loks var ákveðið að senda mig til augnlæknis niðrá Lækjartorgi. Þangað ók Valgarð mér líka — og læknirinn sendi mig umsvifalaust uppá Landakots- Þráinn Fríðríksson: Ótryggður — eineygður. spítala. Tveimur dögum síðar fór Val- garð til útlanda og síðan hef ég ekki séð hann og ekkert heyrt í honum. 20 prósent öryrki Á Landakotsspítala var gerð á mér aðgerð og kom í ljós, að ljósnæmu frumurnar í augnbotninum höfðu marist og ysta himnan rifnað. Hún var saumuð saman — og það var allt annað en þægi- legt að vera með sauma fyrir innan augnlokið. Ég var svo á spítalanum í þrjár vikur og mátti ekki hreyfa mig allan tímann á meðan blóðlirfur og fleirri vessar voru að setjast til í auganu. Það var svo kom- ið fram í desember þegar það lá endan- lega fyrir, að ég var búinn að missa sjón- ina á vinstra auganu. Nú sé ég nánast ekkert með því — og býst ekki við nein- um sérstökum kraftaverkum." Þráinn Friðriksson er nú 20 prósent öryrki. Hann fékk tæplega 500 þúsund krónur út úr slysatryggingunni, sem hann tók út sjálfur og að auki fékk hann 360 þúsund krónur í örorkubætur hjá Tryggingastofnun ríkisins. „Mér finnst auðvitað vont að vera orðinn eineygður og blóðugt að hafa lát- ið plata mig svona,“ segir hann. „En fátt er svo með öllu illt, eins og máltækið segir. Þetta slys hefur til að mynda gert mér ljóst að ég er dauðlegur — ég fer til dæmis miklu varlegar í umferðinni en áður — og ég ræð mig áreiðanlega ekki aftur í vinnu uppá þessi býti. Það ætti enginn að gera.“ 4 DAGSBRÚN

x

Dagsbrún

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagsbrún
https://timarit.is/publication/936

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.