Bændablaðið - 25.01.2005, Blaðsíða 8
8 Þriðjudagur 25. janúar 2005
Farmall - Búinu allt
Árið 2005 er merkisár í tæknisögu landbún-
aðarins að því leyti að þá eru liðin rétt 60 ár
síðan ein frægasta dráttarvél allra tíma á Ís-
landi kom fyrst til landsins. Farmall A hét
hún, og á sinn máta markaði hún upphaf
fjölbreyttrar vélvæðingar hinna einstöku
búa, en áður höfðu "samvinnuvélar" bænda,
traktorarnir, unnið umtalsvert starf að jarða-
bótum með nýrækt. Hið nýja hlutverk vél-
tækninnar lá í heiti þessarar forvitnilegu
dráttarvélar: FARMALL - Búinu allt, svo
snarað sé á gott íslenskt ungmennafélags-
mál. Ekkert minna hét hún, en málvöndun-
armenn sem Íslendingar voru þá sem nú
kölluðu hana bara Farmal og beygðu nafnið
í föllum, bættu við það greini eftir þörfum
og skelltu í fleirtölu vandræðalaust, rétt eins
og um væri að ræða gamalgróna íslenska
orðið þumall. Þannig tóku bændur þessa
rauðu og fjölhæfu vél í sátt frá fyrsta degi.
Hún seldist í hundraðatali og varð tákn um
framsýni og sóknarhug þeirra er keyptu. Og
færri fengu en vildu því á þessari tíð var inn-
flutt vara skömmtuð. Samkvæmt bók Árna
G. Eylands, Búvélar og ræktun, munu 474
Farmall A dráttarvélar hafa verið fluttar til
landsins á árunum 1945-1948, þar af 174
fyrsta árið. Þær komu því á nærfellt 12.
hvert býli. Það er því síst að undra að Far-
mall A hefur orðið meira en einni kynslóð
eins konar holdgervingur tæknibyltingar
tuttugustu aldar og gangandi fulltrúi sveitar-
innar eins og margir muna hana. Svo ekki sé
hallað á aðra skal þess getið að nokkrir (13)
jafnokar Farmals að lipurð og léttleika
höfðu komið til landsins árið áður (1944);
það voru gúmhjólaðar Allis Chalmers-drátt-
arvélar, en þær hurfu af ýmsum ástæðum í
skugga Farmalsins sem fékkst ekki afgreidd-
ur það árið.
Farmall - fyrsta heimilisdráttarvélin
Traktorarnir, sem þegar voru orðnir góðir
kunningjar landsmann um þessar mundir,
voru flestir hinir mestu hlunkar, háværir og
engin léttavara í meðförum, gengu á járn-
hjólum enda einkum notaðir til þungra verka
í tengslum við jarðvinnslu. Farmallinn mætti
hins vegar á gúmmíhjólum frá fyrsta degi,
virtist léttur og lipur og eiginlega til flestra
verka hæfari en nýbrots og jarðvinnslu. Og
reynslan tók fljótlega að safnast bændum:
· Farmallinn var einkar lipur til sláttar á
hinum nýju túnasléttum sem voru nú að
koma í gagnið hver af annarri.
· Farmallinn kom sér vel við heimakstur á
heyi, hvort heldur var á vagni eða sleða.
· Farmallinn, búinn heyýtu, sópaði saman
heyi nærri því jafnrösklega og gert mundi
hafa kerling Sæmundar í Odda öldum fyrr.
· Farmallinn hentaði til kaupstaðarferða og
annarra ferðalaga, komst fjórum sinnum
hraðar en gangandi maður við góðar að-
stæður, og fór vel á hestvagnabrautunum,
sem víða voru komnar.
· Farmallinn, með dráttarslá, tengigötum og
festingum, reimskífu og/eða tengidrifi, tók
fagnandi við hinum ýmsu verkfærum, sem
voru að koma til landsins, ekki síst sláttu-
vélum, forardælum og síðar heyblásurum.
· Farmallinn varð innlendum hugvitsmönn-
um freisting til frekari hönnunar og aðlög-
unar léttitækja og útbúnaðar, en að því
verður komið síðar.
Menn kunnu sér eiginlega ekki læti, margir
hverjir, kepptust við að eignast Farmal og
notuðu þá ótæpilega. Alhliða vélvæðing úti-
verka á almennum búum hafði hafið innreið
sína, vélarheitið reyndist réttnefni, og Far-
mallinn kom sér vel því vinnuaflsskortur
háði landbúnaðinum: Aðrar atvinnugreinar
freistuðu meira og þær gátu boðið betri laun
og reglulegri vinnutíma.
Ætt og uppruni
Farmallinn kom frá Chicago í BNA, var
smíðaður í verksmiðjum International Har-
vester, sem þá var orðið stórveldi í búvéla-
smíðum. Rætur fyrirtækisins lágu ekki síst í
starfi Cyrus Hall McCormick, sem gjarnan
er minnst sem höfuðsmiðs kornskurðarvéla.
Þótt Farmall A væri nýlunda hérlendis árið
1945 hafði hann komið á markað vestra árið
1939. FARMALL-hugmyndin átti þó mun
lengri sögu. Árið 1916 er vitað að lögð voru
drög að alhliða dráttarvél er gert gæti sem
flest búverk að einmenningsiðju. Vinnuafls-
skortur fyrra stríðsins knúði m.a. slíkar hug-
myndir fram. Það var svo árið 1924 að verk-
smiðjurnar buðu völdum mörkuðum 200
handsmíðaða Farmala, skrifuðu þeir Klanc-
her og félagar í bókinni Farm tractors
(2003). Ekki lagði Farmallinn veröldina að
fótum sér strax, enda braut gerð hans um
margt í bága við traktorahefð þess tíma (t.d.
IHC 10-20 og Fordson). En áfram var haldið
og 1930 sló dráttarvélin loks í gegn ..."the
Farmall set standard for the modern farm
tractor and spawned a line of tractors that
would dominate the industry for nearly four
decades", skrifuðu Klancher og félagar. Far-
mallinn þótti einkar lipur í snúningum, og
veitti ökumanni góða sýn yfir verkin. Vélin
var hábyggð og með nástæðum framhjólum,
sem komu sér afar vel í raðræktuðum jarðar-
gróða, svo sem maís, baunum ofl., við sán-
ingu, hreykingu, illgresiseyðingu og upp-
skeru. Farmallinn var því ekki að ófyrir-
synju auglýstur undir slagorðunum "culti-
vision". Farmallinn öðlaðist miklar vinsæld-
ir í BNA og átti ríkan þátt í að leysa vinnu-
hestana frá störfum. Bændurnir hengdu
hestaverkfæri sín aftan í Farmalinn, rétt eins
og margir íslenskir starfsbræður þeirra gerðu
mörgum árum seinna.
En svo var það iðnhönnuðurinn Raym-
ond Loewy sem undir lok fjórða áratugarins
gaf Farmalnum nýtt útlit, og fram komu
FARMALL A, B, C, H og M, ..."timeless
classics that are still a standard fixture on
the American farm", skrifuðu Klancher og
félagar. Farmall A var minnstur bræðranna,
skilaði 16 hestöflum í drætti en 18 á reim-
skífu. Farmalarnir seldust í hundruðum þús-
unda og mun Farmall H hafa selst best.
Lestina rak svo FARMALL CUB, smíðaður
með þarfir minni búa í huga og framleiddur
allt til ársins 1964. Hann naut líka mikilla
vinsælda hérlendis, enda búinn flestum kost-
um bræðra sinna utan aflinu sem var aðeins
8 hestöfl.
Farmall í ýmsum hlutverkum
Er Farmalarnir voru mættir til starfa í ís-
lenskum sveitum leið ekki á löngu áður en
bændur tóku að laga þá að þörfum sínum
með ýmsum hætti. Misþægum og þolnum
dráttarhestum var fljótlega gefið frí og
hestaverkfærin spennt aftan í hinn nýja afl-
gjafa. Sá gat unnið hvíldarlaust á meðan ek-
illinn hélt sér vakandi. Hin hefðbundnu störf
svo sem létt jarðvinnsla og sláttur lágu beint
við. Snúnings- og rakstrarvélar komu til
sögunnar og bæði einstaklingar og verkstæði
ráku saman hey- og jarðvegsýtur á Farmal-
inn. Þá stækkuðu menn heyvagna sína og -
sleða í samræmi við það ríkulega afl sem
fengist hafði. Afköstin uxu og verkin léttust.
En svo beittu menn Farmalnum líka til
óhefðbundinna búverka. Skrifaranum er
kunnugt um ungan mann sem datt það m.a. í
hug að létta móður sinni kjöthökkun með
því að taka hakkavél hennar (sem var nr. 10,
að minnir mig) og hengja hana við tengidrif
Farmalsins með hjálp tannhjóla og keðju af
gömlu reiðhjóli sem til var á bænum. Á lulli
hentaði þannig snúningshraði Farmalsins til
þess að knýja hakkavélina: var þá bara að
koma sér vel fyrir með kjötið og mata
hakkavélina og hinum megin við hana beið
síðan fars tilbúið til frekari vinnslu. Sami
piltur hafði stundum þurft að dæla for úr
vilpunni á bænum með handdælu, 1939-
módelinu. Það þótti honum heldur leiðinlegt
verk en nýttist þó tíminn við handdælinguna
til þess að hugsa út hvernig beita mætti Far-
malnum við það einnig. Og hann fann lausn:
Hann tjakkaði Farmalinn upp að aftan þann-
ig að annað hjólið gat súrrað rúnt. Við
boltagat á felgu hjólsins festi hann eins kon-
ar hlaupastelpu sem leidd var í veltiarminn
(handfangið) á forardælunni. Í hæfilegum
gír lét nú Farmallinn dæluna ganga, í bók-
staflegri merkingu, og hægt og bítandi fyllt-
ist foraráman. Á meðan lá piltur með strá í
munni sólarmegin undir vilpuveggnum og
naut hugvits síns í veðurblíðunni. Farmall-
inn vann verkið.
Svo brugðu menn sér einnig til kirkju, á
ball eða búnaðarfélagsfund á Farmalnum.
Víst var hann stöðutákn bænda um hríð, eins
og oft hefur orðið um tækninýjungar. Óneit-
anlega gat hins vegar orðið erfitt að ferðast
um langvegu á Farmal eins og öðrum tækj-
um þar sem ekill sat óvarinn fyrir veðri og
vindum. Dæmi voru því um að bændur
smíðuðu eins konar ekilshús eða ekilsskýli á
Farmala sína. Ekki munu þau öll hafa staðist
fagurfræðilegar kröfur hvað þá öryggis-
staðla er síðar komu fram, en mættu hins
vegar þeirri frumkröfu að veita vörn fyrir
veðrum. Og þannig urðu dæmin eflaust
fleiri.
Farmalar Búvélasafnsins
Á Búvélasafninu á Hvanneyri er til sýnis
uppgerður Farmall A, er kom til landsins
fyrsta innflutningssumarið, 1945. Hann var í
eigu hjónanna á Innri-Skeljabrekku í Anda-
kíl, Kristínar og Jóns Gíslasonar. Þá á safnið
tvo aðra í góðu standi: frá Glitstöðum í
Norðurárdal og Kaðalstöðum í Stafholt-
stungum. Ýmis fylgiverkfæri eru til, svo
sem sláttuvél, plógur, hey- og jarðýta, en
hvort tveggja er íslensk smíð. Töluvert
myndefni er til, einkum úr safni Verkfæra-
nefndar ríkisins. Þá má nefna bækur og rit,
þ.m.t. auglýsingabæklinga og leiðbeiningarit
um meðferð og notkun Farmalsins og verk-
færa með honum. Fleiri innlend söfn eiga
ágæta Farmala í fórum sínum og fjöldi ein-
staklinga hefur gert upp dráttarvélar af þess-
ari gerð. Ætla má að nokkri tugir uppgerðra
Farmal A-véla séu til og að minnsta kosti
annað eins sé til í bjarglegu standi í geymsl-
um víða um land. Það segir sitt um vinsældir
Farmalanna en ekki síður hve traustbyggðir
og endingargóðir þeir hafa reynst, því frá-
leitt var þeim hlíft í notkun mörgum hverj-
um.
Í safninu er einnig fallegt eintak af Far-
mal Cub, frá Ytri-Skeljabrekku í Andakíl,
og nefna má að nýlega afhenti fjölskylda
Friðjóns Árnasonar frá Melgerði í Lundar-
reykjadal, safninu Farmal H, þann eina sem
mun hafa komið til landsins, en sú vél kom
að Hvanneyri og var notuð þar um árabil.
Innlendar Farmal-sögur óskast!
Farmallinn tróð brautina fyrir aðrar tegundir
heimilisdráttarvéla, svo nú varð ekki aftur
snúið. Margt fylgdi hinni nýju tíð. Ýmsar
sögur urðu til um sambýli gróins sveitalífs
og þessa galdraverkfæris úr Vesturheimi.
Búvélasafninu á Hvanneyri væri mikill
fengur af slíkum frásögnum og því hvetjum
við lesendur til þess að senda okkur Farmal-
sögur. Myndefni er líka vel þegið. Slíkt efni
getur brugðið skemmtilegu ljósi á merkilega
kafla í sögu íslenskrar verkmenningar. Efnið
má senda til skrifarans á Hvanneyri, sem
einnig hefur símann 433 5000, og netfangið
bjarnig@hvanneyri.is.
Bjarni Guðmundsson, Hvanneyri
Farmallinn
sextugur á Íslandi
Farmall A eins og hann var auglýstur bændum á 5. áratug síðustu aldar.
Eggert bóndi Ólafsson á Þorvaldseyri ýtir saman nýslegnu heyi með Farmal sínum á 6. ára-
tug síðustu aldar. (Myndasafn Verkfæranefndar/Búvélasafnið)