Bændablaðið - 28.08.2007, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 28.08.2007, Blaðsíða 20
Bændablaðið | Þriðjudagur 28. ágúst 20070 Það varð svo á árinu 1993 að Stéttarsam­ band bænda óskaði eftir viðræðum við Bún­ aðarfélagið um sameiningu þessara tveggja meginsamtaka bænda. Skipuð var samein­ ingarnefnd og tók hún þegar til starfa. Ég átti sæti í henni og vann í þessum málum af hálfu BÍ. Mér varð það ljóst frá upphafi að Jónas var ekki mikill áhugamaður um sameininguna og dró þar margt í efa. Á hinn bóginn vil ég taka það sérstaklega fram að hann vann aldrei gegn þeirri þróun sem þarna átti sér stað. Jónasi var mjög annt um Búnaðarfélagið, starf þess og alla starfsmenn. Það var því í raun hlutverk hans að gæta hagsmuna félags­ ins og starfsmanna þess við sameininguna. Vissulega kom margt upp á í þessum ferli, sem ekki verður rakið hér, og ég átti allmik­ il persónuleg samskipti við Jónas á þessum tíma. Sameiningin varð svo að raunveruleika og Bændasamtök Íslands urðu til. Þar með var starf búnaðarmálastjóra lagt niður. Ég ætla ekki að dylja það að ég hugsaði þá all­ mikið um það hvernig Jónas tæki þessu og hvað tæki við hjá honum. Ég er ekki í vafa um að þessi umskipti fengu töluvert á hann þó að ekki bæri hann það á torg. Jónas fór þá að vinna að ýmsum sérverk­ efnum fyrir Bændasamtökin, en síðan tók hann til við ritstörf af fullum krafti. Hann ritstýrði bókinni „Gunnar á Hjarðarfelli“, sem BÍ gaf út. Einnig ritstýrði Jónas bók­ inni „Æðarfugl og æðarrækt á Íslandi“, mikið verk og verðlaunað. Þá var Jónas að vinna ásamt fleirum að miklu riti um sögu íslensks landbúnaðar. Eru þá ótaldar margar greinar í fagritum og blöðum. Þá vil ég geta þess að í Bændahöllinni var ávallt leitað til Jónasar þegar afla þurfti upp­ lýsinga um margt það sem gerst hafði á fyrri árum, bæði í félagsmálum og um einstaklinga sem komið höfðu við sögu landúnaðarmála. Mér fannst Jónas blómstra við fræði­ og ritstörfin og leyfi mér að halda því fram að þarna hafi hann virkilega fundið starfsvett­ vang sem hann undi vel og þó að önnur störf hans séu hin merkustu þá trúi ég því að rit­ verk hans muni halda nafni hans hæst á lofti um ókomin ár. Jónas var gríðarlega fróður um sögu lands og þjóðar. Það er mér ómetanlegt að eiga minningar frá ferð stjórnar Búnaðarfélags Íslands hringinn í kringum landið og hlýða á þá Jónas og Magnús á Gilsbakka ræða um bændur og býli um land allt og aldrei var komið að tómum kofunum. Eins þegar maður kom í kaffistofuna í Bændahöllinni, þar miðlaði Jónas óspart af þekkingu sinni, en vissulega voru Þingeyjarsýslan og bændur þar efstir á blaði. Maður fann að þar var hug­ urinn. Eitt er ótalið og það var hin mikla varð­ staða Jónasar alla tíð um íslenskan land­ búnað. Ég er ekki viss um að menn almennt geri sér grein fyri þessu. Yrði Jónas var við að málsmetandi fólk hallaði réttu máli um landbúnað var Jónas fyrsti maður til að hafa samband við viðkomandi og benda á hið rétta. Jónas var gríðarlega þekktur og virtur einstaklingur í íslensku þjóðfélagi. Kunningsskapur okkar Jónasar þróaðist og þroskaðist eftir því sem árin liðu og varð að vináttu. Ég þakka Jónasi fyrir þessi kynni og fyrir hið mikla ævistarf hans fyrir íslenskan landbúnað. Fjölskyldunni sendi ég samúðar­ kveðjur mínar. Gunnar Sæmundsson Jónas Jónsson helgaði íslenskum landbúnaði allt sitt ævistarf. Það eru nú rétt 50 ár síðan hann lauk kandídatsprófi frá Landbúnaðar­ háskólanum í Ási í Noregi og hóf kennslu við Bændaskólann á Hvanneyri. Síðan féll honum varla verk úr hendi í hálfa öld eða nánast til dauðadags. Starfsferill Jónasar mun rakinn hér að framan, en ævi hans og störf mótuðust öðru fremur af brennandi áhuga á ræktun landsins, lífi og sögu þjóðarinnar. Hann var uppalinn á menningarheimili og bar þess merki. Jónas Jónsson lifði mikla umbrotatíma í íslenskum landbúnaði. Hann var æskumaður í sveit þegar vélvæðingin hófst, kennari við bændaskóla, rannsóknamaður og ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands, þegar uppgangur sveitanna var hvað mestur, en þurfti síðar sem búnaðarmálastjóri að takast á við samdrátt­ arskeiðið undir lok aldarinnar. Sem ráðunaut­ ur ferðaðist Jónas um mestallt landið til að leiðbeina um nýrækt og mæla fyrir framræslu og varð þannig gjörkunnugur landsháttum og lífi sveitafólksins. Jónas var mjög fjölhæfur maður og hafði vítt áhugasvið. Landbúnaðurinn, framþróun hans og hagur bænda stóð hjarta hans næst, en stjórnmál og saga, ljóð og reyndar öll þjóðleg menning áttu stórt rúm í huga hans, enda var hann mjög fjölfróður og naut þess að fræða aðra. Hann lagði drjúgt af mörkum til skógræktar og náttúruverndarmála, var vel ritfær og skrifaði mikið. Ég kynntist honum fyrst að ráði eftir að hann varð búnaðarmálastjóri og réð mig í hlutastarf sem ráðunaut í sauðfjárrækt. Hann var þægilegur yfirmaður, ekki afskiptasam­ ur, ef honum virtust verkefnin vera í réttum farvegi, en þó áhugasamur um árangur og framfarir. Okkur samdi ætíð vel, bæði þá og síðar, þótt ekki færu skoðanir okkar saman um alla hluti. Við vorum frændur; vinskap­ ur ávallt með heimilum okkar fyrir norðan, og ég mun alltaf hafa notið frændskaparins, enda Jónas frændrækinn vel. Jónas var dag­ farsprúður, en hann var ekki skaplaus og gat funað upp, jafnvel af litlu tilefni, sérstaklega ef hann taldi vegið ómaklega að sínum kær­ ustu hugðarefnum. En hann var jafnfljótur að friðmælast, og aldrei varð ég var við að hann væri langrækinn. Hann var félagslyndur, tók fullan þátt í félagslífi á vinnustað, bæði meðan hann var þar yfirmaður og engu síður nú síðustu árin. Þau hjónin voru ávallt með í sumarferðum starfsfólks og þá mátti fletta ýmsum fróðleik upp í Jónasi. Það eru nú rúm tólf ár síðan Jónas lét af starfi búnaðarmálastjóra, þegar Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda samein­ uðust á ný og nefndust Bændasamtök Íslands. Hann hefur síðan haft starfsaðstöðu hjá sam­ tökunum og sneri sér fljótlega að því hugð­ arefni, sem hann hafði gælt við lengi, að rita sögu íslensks landbúnaðar. Að þessu verki hefur Jónas unnið sleitulaust undanfarin ár ásamt Árna D. Júlíussyni sagnfræðingi og aðeins fengið launað að litlu leyti, sem sýnir ódrepandi dugnað hans og áhuga á málefn­ inu. Dauða hans bar brátt að en hann hafði að mestu leyti lokið sínum hluta skrifanna, þannig að ég vona að verkið komi út í heild sinni á tilætluðum tíma; – það veit ég að Jónas mundi meta mikils. Að síðustu vil ég fyrir hönd Bændasamtaka Íslands, stjórnar og samstarfsfólks Jónasar til margra ára, svo og okkar hjónanna þakka honum samfylgdina og allt sem hann vann íslenskum bændum. Við sendum öll Sigurveigu konu hans og fjölskyldu þeirra innilegar samúðarkveðjur. Sigurgeir Þorgeirsson „Það er gott að vera Íslendingur í Wales,“ sagði Jónas við mig þegar fundum okkar bar saman á skrifstofu hans á Rannsóknastofnun landbúnaðarins í gamla Atvinnudeildarhúsinu skammt frá Þjóðminjasafninu um miðjan 7. áratug liðinnar aldar. Hann var annar tveggja íslenskra búvísindamanna sem höfðu dvalist um skeið við framhaldsnám og rannsóknir á Welsh Plant Breeding Station í Gogerddan upp úr 1960 og var þarna að gefa mér, ungum stúdent, upplýsingar, því að ég stefndi að búvísindanámi við Háskólann í Aberystwyth, skammt frá WPBS, haustið 1966. Þessi fyrstu kynni af Jónasi eru mér mjög minn­ isstæð; alúðleg framkoma og margvíslegum spurningum svarað greiðlega. Veganestið frá honum reyndist vel, það var virkilega gott að vera Íslendingur í Wales, og þegar ég kom þaðan að loknu doktorsprófi sumarið 1972, og var að leita að starfi, reyndist Jónas mér afar vel, þá aðstoðarmaður Halldórs E. Sigurðssonar landbúnaðarráðherra. Á Hvanneyrarárum mínum kynntist ég Jónasi enn betur, m.a. vegna formennsku hans í nefnd sem samdi ný lög um búnaðarfræðslu, og eftir að ég kom til Búnaðarfélags Íslands urðum við samstarfsmenn og nágrannar á ganginum langa á 3. hæð Bændahallarinnar í 30 ár. Hvort sem hann var ritstjóri Freys, bún­ aðarmálastjóri eða við sagnaritun í þágu land­ búnaðarins var hann alltaf sami góði félaginn. Skotist var á milli skrifstofa með alls konar hugmyndir, spurningar, vandamál, fróðleik eða bara gamanmál, hann til mín, ég til hans. Og þá var hann ekki amalegur ferðafélagi; fróður um byggðir og bú, annt um hag bænda og sá vítt um völl. Læt ég nægja að nefna eft­ irminnilega réttaferð í þrjár af stærstu fjár­ réttum í Húnavatnssýslum skömmu eftir að ég kom til BÍ 1977, þ.e. Víðidalstungurétt, Undirfellsrétt og Auðkúlurétt. Þó get ég ekki látið hjá líða að geta þess hve ég, og Svanfríður kona mín, minnumst oft með ánægju afburðagóðrar leiðsagnar Jónasar í starfsmannaferð í Þingeyjarsýslur, með höfðinglegum móttökum í sumarhúsinu í Yztafellsskógi, fyrir nokkrum árum. Skógrækt, eins og reyndar öll ræktun, var Jónasi kær og naut ég vissulega góðs af sam­ skiptum við hann við mótun leiðbeininga­ starfa á sviði landnýtingar. Með dugnaði og góðri eftirfylgni hafði hann með ýmsum hætti áhrif á gang mála. Má nefna að Jónas beitti sér fyrir útgáfu veggspjalda með myndum af íslenska búfénu og var mikill áhugamaður um verndun þess, þar með íslensku mjólk­ urkýrinnar. Nú, þegar lífrænn landbúnaður er í sókn víða um lönd, tel ég sérstaklega við hæfi að geta þess að Jónas lagði í raun grunn að leiðbeiningastarfi á því sviði vorið 1993 með því að biðja mig að kynna mér slíka búskaparhætti og liðsinna bændum sem vildu hlúa að þessum vaxtarbroddi til nýsköpunar í búvöruframleiðslu. Samskiptin við búnaðarmálastjórann Jónas voru ekki alltaf átakalaus þegar ég sat í fyrstu samninganefnd landsráðunauta BÍ um kaup og kjör og sem trúnaðarmaður þeirra hjá Félagi íslenskra náttúrufræðina. Ætíð fengust þó sanngjarnar og farsælar niðurstöður því að félagshyggjumaðurinn Jónas var drengur góður sem vildi leysa málin þannig að sem flestir mættu vel við una. Það er því margs að minnast þegar litið er um farinn veg en þó er mér nú efst í huga hve góður samstarfsmaður og félagi Jónas var alla tíð. Hann kveð ég með söknuði. Eiginkonu, börnum og öðrum aðstandend­ um sendum við kona mín innilegar samúðar­ kveðjur. Ólafur R. Dýrmundsson Ystafell í Kinn. Jónas mun hafa fæðst í gamla húsinu en allt sem eftir er af því er grunnurinn og kjallarinn sem sést til vinstri. Ofan á honum rís súla sem reist var til minningar um að í því húsi var Samband íslenskra samvinnufélaga stofnað árið 1902. Mynd: –ÞH

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.