Bændablaðið - 09.06.2011, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 09.06.2011, Blaðsíða 8
8 Bændablaðið | fimmtudagur 9. júní 2011 Fréttir Ragnheiður Hlín Símonardóttir bóndi og sjúkraliði býr ásamt Birni Helga Snorrasyni, bónda og húsasmíðameistara, að Kálfafelli í Fljótshverfi. Sá bær er einn þeirra sem verst urðu úti í öskufallinu vegna eldgossins í Grímsvötnum. Þrátt fyrir að útlitið hafi um tíma verið dökkt segir Ragnheiður að örvæntingin hafi aldrei náð á þeim tökum. Hún segir upplifunina þó hafa verið skelfilega en nokkur bjartsýni hafi kviknað þegar gosinu lauk. Þegar blaðamaður hringdi í Ragnheiði á sunnudags- kvöldið hafði sú bjartsýni heldur dofnað enda skaðinn á dýrum og gróðri af völdum öskufallsins far- inn að koma betur í ljós. Margt fé er enn staurblint og viðbúið að við- varandi öskufok verði á svæðinu í hvert sinn sem hvessir í sumar. Búið að keyra burt 14 trukkaförmum af ösku „Það er búið að þrífa hér gríðarlegt magn af ösku og enn er verið að. Hann er búinn að vera að skafa hér í kringum bæinn hann Helgi Kjartansson á Fossi. Það er búið að hreinsa hér úr garðinum og í kring- um húsin. Ætli það sé ekki búið að keyra hér í burtu um 14 „trailerum“ af ösku.“ Ragnheiður segir ljóst að mikið sé af ösku á afrétti. Þau beiti fénu á Kálfafellsheiði, sem er dökk af ösku. „Þaðan er að fjúka á okkur og það veldur okkur vandræðum að koma fénu ekki inn í heiði til beitar." Ljóst er að þessi aska muna fjúka yfir byggðina um ófyrirséðan tíma. „Það var mikið öskufok nú í dag. Á milli klukkan sex og sjö dimmdi svakalega hér við bæinn og þá sá ég ekki niður á veg í nokkrar mínútur.“ Ragnheiður segir hundleiðinlegt að vera útivið af þessum sökum og fólk geri vart annað en að bryðja sand við útistörfin. „Mér finnst því svolítið hafa dregið úr bjartsýninni sem skapaðist strax eftir gosið.“ Rokið bjargaði miklu Þegar blaðamenn Bændablaðsins heimsóttu þau hjón fimmtudaginn 26. maí var allur kraftur búinn úr gosinu og ekkert öskufall lengur. Þá hafði mikið hvassviðri dagana áður náð að feykja stærstum hluta öskunnar á sjó út. Voru þau hjón sammála um að rokið hefði bjargað miklu. Eigi að síður var talsvert öskulag á túnum þó grasið næði að teygja sig upp úr því. „Ráðunautarnir segja að túnin séu slæm hér í Fljótshverfinu og það sé sýnu verst af öllum svæðum sem orðið hafa fyrir öskufalli. Það horfir því ekki sérlega vel með heyskap hér í sumar. Þeir segja okkur þó að askan muni ekki ná að kæfa túnin og að grasið muni spretta.“ Ragnheiður sagðist á þeim tímapunkti ekki finna neina uppgjöf í sveitinni þrátt fyrir þetta áfall. „Maður hefur þó varla haft tíma til að átta sig á hlutunum.“ Svakaleg upplifun Um upplifunina af gosinu sagði Ragnheiður: „Við sóttum kvígur og hross við fyrsta mögulega tækifæri sem gafst, en það var ekki fyrr en síðla mánudags að við gátum komið þeim að opnu húsi svo skepnurnar hefðu eitthvert afdrep ef slæmt væri. Einnig var allt sauðfé úti. Þetta var hreint út sagt ógeðslegt og svakalegt. Það var lang verst á sunnudagsmorgninum eftir að gosið byrjaði [22. maí]. Þá fórum við út í fjós og skyggnið var orðið mjög lélegt vegna öskufalls. Við erum með 36 mjólkurkýr sem þurfti að sinna, nautaeldi, nokkur hross og kindur fyrir heimilið. Þegar við ætluðum til baka sáum við ekki handa okkar skil. Við settum bara á okkur stefnuna á húsið og hittum á girðinguna. Við þreifuðum okkur svo meðfram henni. Það var svo ekki fyrr en við vorum að verða komin að útihurðinni að við sáum glitta í útiljósið.“ Börnin tóku þessu bara vel Það er því ljóst að skyggnið hefur nánast ekki verið neitt og til marks um það nefnir hún að í garðinum rétt fyrir utan stofugluggann er fánastöng sem sást alls ekki fyrir öskukófinu. Hjónin eiga fjögur börn, sem voru heima þegar ósköpin dundu yfir. „Þau tóku þessu bara vel og þetta virðist ekki hafa bitið neitt á þau.“ Kálfarnir þögðu „Það var svolítið skrítið að koma út í fjós á meðan ósköpin dundu yfir. Venjulega þegar við komum út í fjós á morgnana taka kálfarnir á móti okkur með bauli, þar sem þeir vilja fá kjarnfóðrið sitt eins og venjan er. Þennan morgunn var hinsvegar algjör dauðaþögn í fjósinu og heyrð- ist ekki múkk, hvorki frá kálfunum né kúnum.“ Dýralæknirinn lét vita af gosinu Gunnar dýralæknir hringdi í okkur á Askan úr Grímsvatnagossinu enn til vandræða í Fljótshverfi: Sumt fé enn staurblint og öskufok af afréttum til mikils ama - Búið er að hreinsa upp um 14 trukkafarma af ösku í kringum bæjarhúsin á Kálfafelli Ragnheiður Hlín Símonardóttir bóndi og sjúkraliði á Kálfafelli ásamt eiginmanninum, Birni Helga Snorrasyni bónda og húsasmíðameistara. Myndir / HKr. Þessar mynd sýnir vel öskuna á túnum hjónanna á Kálfafelli sem eru uppi í heiðinni (á Háubrún) rétt ofan við bæjarhúsin.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.