Bændablaðið - 07.07.2011, Side 10

Bændablaðið - 07.07.2011, Side 10
Bændablaðið | fimmtudagur 7. júlí 201110 Fréttir S: 567-8888 WM-NANO Smíðum glugga, hurðir og opnanleg fög í þeim stærðum og gerðum sem henta þér. Helgi Sveinbjörnsson í Dýragarðinum Slakka í Laugarási hefur staðið vaktina í 18 ár: „Einstaklega gaman hvað fólk er viljugt að koma“ „Það eru 18 ár síðan ég byrjaði á þessu en upphaflega var þetta garðyrkjustöð,“ segir Helgi Sveinbjörnsson eigandi dýra- garðsins Slakka í Laugarási í Biskupstungum. „Við úreltum gróðurhúsin á sínum tíma og fórum út í að breyta þeim í dýra- og skemmtigarð.“ Í dag er Slakki mikið sóttur af fjöl- skyldum sem leið eiga um Suðurland og þá ekki síst af þúsundum sumar- húsagesta sem þykir þægilegt að geta nýtt þessa afþreyingu sem bæði er fyrir börn og fullorðna. Fyrir utan fjölmörg forvitnileg og framandi dýr, þá er þarna boðið upp á veitingar og mínígolf undir þaki, sem nýtur mikilla vinsælda. Það skiptir því ekki máli hvort það er sól á lofti eða nokkrir dropar að falla af himnum ofan, Slakki klikkar ekki. Helgi segir að reksturinn hafi gengið upp og ofan en þessu fylgi eðlilega mikil vinna. „Það er bara einstaklega gaman hvað fólk er viljugt að koma og njóta þess sem hér er upp á að bjóða, það gefur þessu gildi. Það er sérlega gaman að fá krakkana hingað, hér geta þau valsað um frjáls. Í mínígolf- inu geta líka allir verið með, allt frá smábörnum og upp í afa og ömmur. Þá njótum við þess að vera staðsett hér á miðju ferðaþjónustusvæði Suðurlands. Ekki minnkar gildi staðsetningar- innar við nýju brúna yfir Hvítá sem skapar hringleið hér fyrir ofan og yfir á Flúðir. Svo ég tali nú ekki um þá byltingu sem yrði með brú frá Árnesi og yfir Þjórsá ef þar yrði ráðist í virkjun. Þá er öll Rangárvallasýslan komin á kortið hjá okkur líka. Í dag eru um 90 kílómetrar héðan í Galtalæk en það mun styttast niður í um 30 kílómetra eða svo með til- komu brúar úr Árnesi og yfir. Vegtengingar eins og þessar gefa gríðarlega mikið af sér fyrir ferða- þjónustu og mannlíf. Auðvitað fylgir svona framkvæmdum eitthvert rask. Er það samt ekki svo að ef fólk vill komast af þá þarf eitthvað að gera. Við eigum auðvitað að nýta þá kosti sem landið hefur upp á að bjóða, þar með að virkja vatnsaflið og jarðhit- ann. Það vantar fleiri störf.“ Helgi segir að í svona rekstri þyrfti að ná meiri nýtingu á mann- virkjunum, einkum á haustin. Í vor var Slakki opnaður um páskana og er opið meðan aðal ferðamanna- tímabilið stendur yfir. Á haustin og yfir veturinn hefur Helgi síðan leigt mönnum aðstöðuna fyrir tilfallandi uppákomur og skemmtanir. / HKr. Helgi Sveinbjörnsson. Myndir / HKr. Styrkir til aðlögunar að lífrænum landbúnaði: Átta bændur sóttu um Tveggja ára aðlögunartími tekur nú við undir eftirliti Vottunarstofunnar Túns Þann 1.júlí s.l. rann út umsóknar- frestur um styrki til aðlögunar að lífrænum búskap, en þeir voru auglýstir frá marslokum s.l. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkir alhliða styrkir verða veittir, en verklagsreglur um þá voru gerðar samkvæmt samkomulagi á milli Bændasamtaka Íslands og sjáv- arútvegs- og landbúnaðarráðu- neytisins. Bændasamtök Íslands annast alla umsýslu í tengslum við styrkveitingarnar en fjár- munirnir, sem eru að þessu sinni nokkuð á annan tug milljóna, koma úr ríkissjóði. Að sögn Ólafs R. Dýrmunds- sonar, lands ráðunautar Bænda- samtaka Íslands í lífrænum búskap, sóttu átta bændur um styrkina, en allir eru þeir á vestan- og norðan- verðu landinu. Aðallega er um að ræða sauðfjárbændur en í þessum hópi eru einnig bændur með geitur, hross, grænmeti og ávexti. Þá fylgir þessu ferli lífræn vottun engja, túna og haglendis á viðkomandi jörðum. Segir Ólafur að sumir umsækjend- anna hafi sótt námskeið í lífrænum búskap en öðrum verði gefinn kostur á að sækja slík námskeið, enda sé það meðal skilyrða fyrir styrkveitingunni. Aðlögunaráætlanir til tveggja ára Vottunarstofan Tún vinnur nú að gerð aðlögunaráætlana fyrir umsækjendurna og þar er Gunnar Gunnarsson framkvæmdastjóri. „Lífræn aðlögun hefst með ítarlegri úttekt á búskapnum, gerð aðlögun- aráætlunar og skrásetningu lands og bústofns sem sett eru í aðlögun. Eftirlit fer síðan árlega fram – og oftar ef þörf krefur. Komi fram frá- vik frá reglum þarf að bæta úr þeim innan tilskilins frests. En hér á landi er unnið í öllum aðalatriðum eftir sömu reglum og gilda annars staðar í Evrópu. Þeir sem eru að hefja aðlögun í sumar gætu hugsanlega komið með vottaðar afurðir sínar á markað innan tveggja til þriggja ára ef allt gengur vel,“ segir Gunnar. Hann segir að þrátt fyrir að áhrifa fjármálakreppunnar gæti um allt hagkerfið – og ekki síður í land- búnaði en öðrum greinum – virðist kreppan ekki hafa dregið úr mönn- um kjark til að bæta framleiðslu sína með umhverfisvænni aðferð- um. „Fyrirspurnum um lífræna framleiðslu hefur heldur fjölgað á síðustu árum. Tún hefur, í samvinnu við Landbúnaðarháskólann og landsráðunaut Bændasamtakanna, sinnt fræðslu á þessu sviði og haldið nokkur námskeið, m.a. um lífræna aðlögun sauðfjárræktar.“ Lífræn aðlögun tekur þó alltaf að minnsta kosti tvö ár og stund- um eitthvað lengur. „Hætta þarf notkun tilbúins áburðar á tún og haglendi og eiturefna í garðyrkju. Þá þarf að gæta vel að meðferð og nýtingu búfjáráburðar og lífræns úrgangs. Oft þarf að bæta húsakost og aðstæður búfjár, t.d. með því að auka rými, skapa aðstæður til daglegrar útivistar og gæta vel að því að nægur undirburður sé fyrir hendi. Þar sem ræktað er korn og matjurtir þarf að koma á sáðskiptum þannig að ekki sé verið að rækta sömu nytjaplöntur mörg ár í röð á sömu spildunum. Í sumum tilvikum þurfa bændur að bæta skráningu landnýtingar og búfjárhalds, en skýrsluhald fer þó almennt batn- andi,“ segir Gunnar. Hugarfarið skipir gríðarlega miklu mál „Aðstæður bænda sem taka upp lífræna aðlögun eru á ýmsa lund, sumir eru þegar hættir að nota kjarnfóður og tilbúinn áburð ein- faldlega vegna kostnaðar og aðrir hafa afnot af nægum túnum, en hvort tveggja flýtir fyrir og dregur úr áhættu við að hefja vottaða fram- leiðslu. Aðgangur að nægum áburði af lífrænum uppruna er sömuleiðis mikilvæg forsenda, en getur reynst sérhæfðum garðyrkjustöðvum erf- itt og kostnaðarsamur. Þá skiptir hugarfarið gríðarlega miklu máli. Sumum virðist veitast mun léttara en öðrum að rekja sig í gegnum líf- ræna aðlögun þótt aðstæður þeirra séu hvorki betri né verri en annarra. Þeir sem kynna sér málið af kost- gæfni í upphafi, sækja námskeið og ræða við reynda menn á þessu sviði – og þeir sem sjá sóknarfærin sem felast í vottuðum lífrænum land- búnaði – standa betur að vígi.“ Tún er með fleiri járn í eldinum af þessu tagi og hefur nýverið hrundið af stað þróunarverk- efni í Dalvíkurbyggð í samstarfi við Vaxtarsamning Eyjafjarðar, Umhverfisráðgjöf Íslands og heimamenn – og taka þrír bændur þátt í því. Gunnar segir tilkomu aðlögunarstuðnings frá hinu opin- bera án vafa munu bæta aðstæður bænda til að ljúka lífrænni aðlögun og flýta því að þeir komi afurðum á markað. /smh

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.