Bændablaðið - 07.07.2011, Síða 36

Bændablaðið - 07.07.2011, Síða 36
36 Bændablaðið | fimmtudagur 7. júlí 2011 Í Bændablaðinu hinn 9. júní s.l. er að finna grein eftir hjónin í Villingadal í Eyjafirði um reynsluna af netsambandi um gervihnött, sem komið var á til að bæta úr afar seinvirku og algerlega ófullnægjandi sam- bandi með símtengingu, þ.e. ISDN-tengingu eða upphring- itengingu. Þar sem ég hef verið að nota gervihnattasamband síðan í febrúar 2010 er ég búinn að fá allmikla reynslu af notkun- inni og að henni fenginni verð ég einfaldlega að lýsa miklum vonbrigðum. Í sem fæstum orðum sagt get ég staðfest allt sem í fyrrnefndri grein segir um seinvirkni netsam- bands af þessu tagi. Ekki einungis er hraði þess mjög breytilegur, truflanir á sambandinu eru einnig algengar. Allt sumarið 2010 mátti kallast megnasta ólag á sam- bandinu en um haustið lagaðist ástandið verulega. Þó eru truflanir algengar og nú síðast í seinustu viku maí var dögum saman nær sambandslaust. Hraðamæling 28. maí sýndi eftir- farandi: Download: 0,05 mb/sek Upload: 0,01 mb/sek Ping-tala: 7417 Daginn eftir var ástandið aðeins skárra: Download: 0,08 mb/sek Upload: 0,01 mb/sek Ping-tala: 3339 Bestu mælingar sem ég hef gert sýndu download-hraða um 1,0 mb/sek og upload-hraða um 0,11 mb/sek. Óhjákvæmilegt er að þessi hraði, jafnvel þegar best lætur, geri alla vinnu á netinu seinlega. Ekki síst kemur þetta niður á vinnu við Fjarvis.is en raunar er erfitt að greina á milli seinvirkni í forritinu sjálfu og tafa af lélegu netsam- bandi. Þegar kvartað hefur verið við Símann vegna galla á sambandinu virðist þar allmikil hneiging til að vísa vandamálunum eitthvert annað, svo sem til Radiomiðunar ehf., sem mun annast rekstur þessa gervihnattasambands fyrir Símann. Það flækir málið dálítið að við notendurnir getum ekki vitað hvar vandamálin eiga upp- tök sín, hjá Símanum eða í bún- aði Radiomiðunar. Þjónustan er engu að síður keypt af Símanum og verður því að telja það fyrir- tæki fyllilega ábyrgt gagnvart notendum. Sem betur fer finnast þar starfsmenn sem taka kvartanir alvarlega og leita úrbóta. En þjón- ustuverið virðist stórlega ofhlaðið verkefnum og oftast nær tekur langan tíma að svo mikið sem ná sambandi við þjónustufulltrúa, t.d. 15-20 mínútur eða jafnvel lengri tíma og er það óviðunandi. Á vissum tímum dags koma einnig fram seinkanir sem líklegt er að stafi af takmarkaðri afkasta- getu netþjóna Símans. Að fenginni reynslu get ég varla litið á netsamband um gervihnött öðruvísi en sem bráðabirgðalausn meðan unnið er að endurnýjun áratugagamalla og tæknilega úreltra fjarskiptalagna í dreifbýl- inu. Ef til vill hefði fjármunum Fjarskiptasjóðs verið best varið til að stuðla að þeirri endurnýjun. Jón Benediktsson, bóndi á Auðnum í Laxárdal. Lesendabásinn Netsamband um gervihnött Í heila viku í lok júlí ætla nor- rænir sagnaþulir að sitja saman í vestfirskri náttúrufegurð og ræða um listina að segja sögu. Þetta er í nítjánda sinn sem norrænt sagnaþing er haldið og í annað sinn hér á landi. Núpur í Dýrafirði hentar einkar vel til þessa, á miðju sögusviði Gísla sögu Súrssonar. Þar verða haldin námskeið og sagðar sögur á norrænum tungum og reyndar líka ensku, því meðal leiðbein- enda eru reyndir sagnamenn, rithöfundar og leikarar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Íslandi og Bretlandseyjum. Sagnalistin hefur fylgt mann- inum lengi en á undanförnum árum hefur hún notið æ meiri athygli. Það stafar ekki síst af því að menn komust að þeirri niðurstöðu að listin að segja sögu er grunnur allra bókmennta. Íslendingasögurnar eru fyrst og fremst tilraun til að festa á blað þær sögur sem þjóðin hafði verið að segja allt frá landnámi. Þráðurinn hefur verið tekinn upp að nýju – eða kannski slitnaði hann aldrei. Miðlun á reynslu og þekkingu Sagnamannakvöld hafa notið vax- andi vinsælda og þar hafa sprottið upp góðir sagnamenn sem áður létu sér nægja eldhúsborð eða lúkar sem vettvang. Svo hafa menn komist að því að sagan er til ýmissa hluta nytsamleg. Hana má nota sem miðlun á reynslu og þekkingu til nýrra kynslóða, hún er listform sem nýta má við uppeldi og í atferlismeðferð og síðast en ekki síst er hún skemmtileg. Sagnaþulur/þula les ekki sögu heldur er sagan eigin upplifun, lærð af bók eða munnmælum og síðan túlkuð og gefin áfram. Saga sagnaþular er því aldrei eins. Hún getur breyst eftir því hverjum hún er sögð, hverjar aðstæður eru þegar hún er sögð, og jafnvel hvernig liggur á þeim sem segir söguna í það og það skiptið. Sögur, sungið og glaðst Á norrænu sagnaþingunum sitja menn á námskeiðum á daginn og njóta leiðsagnar kennara en á kvöldin eru sagðar sögur, hlustað á sögur, sungið og glaðst í góðum hópi. Þingið fer fram dagana 24.- 30. júlí. Það er sett á sunnudegi, námskeið hefjast á mánudegi og þeim lýkur á föstudagskvöldi með hátíðarkvöldverði. Haldið er heim eftir morgunverð á laugardegi. Um miðja vikuna verður farið í skemmtiferð með leiðsögn á söguslóðir Gísla Súrssonar. Námskeið, kvöldvökur, fullt fæði og gisting í tveggja manna herbergjum er innifalið í þátt- tökugjaldinu, sem er kr. 76.000. Umsókn og greiðsla þarf að hafa borist fyrir 24. júní. Athugið að takmarkaður fjöldi þátttak- enda er á hvert námskeið! Þing norrænna sagnaþula er styrkt af Menningarráði Vestfjarða og Nordisk kulturfond. Nánari upplýsingar: http:// sagnating.123.is/ Norrænir sagnaþulir þinga á Núpi Sveppabókin – Íslenskir sveppir og sveppafræði kom út á síðasta ári. Höfundur hennar er Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur. Bókin skiptist í tvo meginhluta og er fyrri hlutinn, um 120 bls., almennt efni um sveppi og sveppafræði, en sá síðari, um 432 bls., er lýsing á íslenskum sveppum og flokkun þeirra, þ.e. íslenskt sveppatal. Flestum þeirra hefur Helgi jafnframt gefið íslenskt nafn. Í lokin eru svo ýmsar skrár sem fylgja fræðibók sem þessari, alls um 45 bls. Í heild er bókin 630 bls. að stærð. Bókin Flóra Íslands kom út árið 1901, en höf- undur hennar var Stefán Stefánsson, síðar skóla- meistari á Akureyri. Fleiri grasafræðingar hafa síðan samið bækur um flóru Íslands. Það verk er skýrt afmarkað og tæmandi. Engin heildarskrá um íslenska sveppi var hins vegar til fyrir útkomu bókar Helga, hvað þá að flestum íslenskum sveppategundum hafi verið lýst og þeim gefið nafn. Nokkrir íslenskir náttúrufræðingar hafa þó lagt fyrir sig svepparann- sóknir og margt gagnlegt og fróð- legt verið skrifað um sveppi. Helgi fór að loknu stúdentsprófi árið 1955 til náms í náttúrufræði við þýska háskóla. Hann fékk þá áhuga á sveppafræðum en gekk illa að finna leiðbeinendur í greininni. Hann lauk námi, með hléum, árið 1963, en settist að á Akureyri árið 1959 og kenndi um árabil við Menntaskólann á Akureyri, auk þess sem hann var forstöðumaður Náttúrugripasafnsins á Akureyri. Á árunum 1971–1976 rak hann rannsóknarstöð í Ytri-Vík á Árskógsströnd og var þá búsettur á næsta bæ, Víkurbakka. Árið 1978 flytur Helgi með fjöl- skyldu sinni á æskustöðvar sínar á Héraði og sest að á Egilsstöðum þar sem hann hefur síðan stundað fræðistörf allt til þessa dags. Viðfangsefni hans hafa spannað vítt svið. Þar hafa verið áberandi rannsóknir á íslenskri náttúru, sem hann hefur stundað einn eða með öðrum. Þær hafa allar fengið þann dóm að vera vandaðar og faglega unnar. Um áratuga skeið hafa íslenskir sveppir verið Helga ögrandi við- fangsefni. Verkefnið hefur þó verið óaðgengilegt vegna þess hve umfangsmikið það er og útlínur þess jafnvel óljósar. Þar skilur á milli sveppa og jurta. Um hálf öld er síðan Helgi fór að kynna sér íslenska sveppi og sveppafræði. Verkið hóf hann nánast einn og óstuddur, hann safnaði sveppum og fór að skrifa greinar um þá og gaf út sveppakver fyrir áhugafólk og almenning árið 1979. Einnig tók hann saman, ásamt Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræð- ingi, fjölritið „Íslenskt sveppatal I - Smásveppir“, sem kom út sem fjölrit hjá Náttúrufræðistofnun árið 2004. Þar eru allar tegundir íslenskra smásveppa skráðar, en hinir stærri sveppir eiga að fá sam- svarandi skrá innan tíðar. Með Sveppabókinni, sem nú er komin út, hefur Helgi unnið stór- virki sem fáu verður við jafnað. Íslensk náttúruvísindi hafa með bókinni auðgast að stórum mun. Bókin mun koma að miklum notum við hvers kyns sveppanytjar sem og í vörnum gegn skaðlegum áhrifum sveppa, ekki aðeins í landbúnaði he ldu r einnig í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Eru þá ónefnd þau not sem skólar á ýmsum stigum geta sótt í verkið. Sveppabókin mun án efa halda nafni Helga hæst á lofti í framtíð- inni. Ævistarf hans er hins vegar mjög fjölbreytt. Í ritinu „Á spre- kamó“, afmælisriti sem tileinkað er Helga sjötugum, er birt ritaskrá hans og skrá yfir óprentuð handrit, alls 32 blaðsíður í bókinni. Efnið spannar afar fjölþætt svið. Stærsti kaflinn er náttúrufræðilegt efni sem skiptist í fjölda efnisflokka jurta og dýra. Þar á eftir kemur kafli um náttúruvernd með mörgum undir- flokkum. Annar höfuðkafli ritskrárinnar er þjóðfræðilegt efni. Einn undirkafli hans er þjóðtrú og þjóðtrúarfræði, þar sem huldufólki og álfum eru gerð góð skil. Þessir landar þjóð- arinnar frá fyrstu tíð hafa vart átt sér betri talsmann. Er þá margt ótalið í ritaskrá Helga en stærsta ein- staka verkið er bókin Lagarfljót – Mesta vatnsfall Íslands. Ritaskrá Helga lýkur á lista yfir rit- fregnir, sem hann hefur skrifað, um 350 að tölu. Ætla má að einhvern tímann hafi verið orðið áliðið dags við vinnslu þeirra. Undirritaður var búsettur í Fljótsdal á árunum 1962-1971. Á þeim tíma höfðu hvorki Fljótsdælingar né þjóðin yfirleitt fundið upp lífs- gæðakapphlaupið þó að bú bænda færu þá stækk- andi með vaxandi tækni. Samheldni og greiðvikni var hins vegar áberandi í samskiptum fólks. Jón M. Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum sagði mér eitt sinn að hann ætti nagla í öllum nýjum þökum í Fljótsdal undan- gengin 30 ár. Gangnaskil í Fljótsdal á haustin voru um 360 dagsverk og engum datt í hug að bregðast þeim. Það er úr þessum jarðvegi sem Helgi Hallgrímsson er vaxinn og hefur jafnframt byggt ofan á með þeim hæfileikum sem honum eru gefnir í ríkum mæli; skarpri hugsun og þolgæði. Á hinn bóginn hefur hann ekki hirt um háar prófgráður eða fastar stöður. Ég minnist þess frá fyrstu starfsárum Helga fyrir norðan að félagar hans höfðu áhyggjur af því hvort hann væri nógu góður skaff- ari. Þær raddir hljóðnuðu fljótlega. Helgi Hallgrímsson stendur nú í fremstu röð íslenskra náttúru- fræðinga um fjölþætta þekkingu og miðlun hennar. Á sama tíma hefur hann hafið sig upp úr fræðunum. Á öllum öldum hafa verið uppi menn sem talað hafa máli dulinna nátt- úrulögmála. Náttúruvísindin hafna, eðli málsins samkvæmt, slíkum kenningum. Það gera trúarbrögðin einnig nema þær falli að kenninga- kerfi þeirra. Helgi gengur á hólm við öll þessi kerfi. Fræðimennska hans sem raunvísindamanns er óumdeild en hann lætur ekki þar við sitja. Hann réttir hinum duldu öflum hönd sína eins og algengt er og hefur lengst af verið með þjóðinni. Ljóð Guðmundar skólaskálds og lag Árna Thorsteinssonar, „Hún amma mín það sagði mér“, snertir þjóðarsálina á ljúfan hátt. Hvað Helga varðar er náttúran heilög og sá sem vinnur henni mein skaðar um leið sjálfan sig. Huldufólk er persónugervingur hennar. Með afdráttarlausum skoðunum sínum og skrifum um náttúruvernd er Helgi í fremstu röð náttúruverndar- sinna hér á landi. Ætt Helga og uppruni, uppeldi og umhverfi, auðvelda skilning á honum og þeim málum sem hann ber fyrir brjósti. Ævistarf hans er á hinn bóginn eins og hver önnur himnasending fyrir íslenskt fræða- og menningarsamfélag, en það er einnig skilningur hans á því að til- veran á sér leyndardóma sem mann- inum mun seint eða aldrei takast að skilja. Að lokum skal þess getið að Sveppabók Helga Hallgrímssonar hlaut Íslensku bókmenntaverð- launin árið 2010 í flokki fræðirita. Matthías Eggertsson. Sveppabókin – Íslenskir sveppir og sveppafræði Ritfregn Helgi Hallgrímsson.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.