Bændablaðið - 17.10.2013, Blaðsíða 26

Bændablaðið - 17.10.2013, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 17. október 2013 Fura ehf. málmendurvinnsla í Hafnarfirði gangsetur nýja viðarkurlverksmiðju í Hafnarfirði: Ætlunin að framleiða um 4.000 tonn af undirburði fyrir hross Eigendur Furu ehf. málm- endurvinnslu í Hafnarfirði hafa nú gangsett endurvinnslu á timbri þar sem framleitt verður timburkurl undir nafninu Furuflís. Er það einkum hugsað sem undirburður fyrir hross, kjúklinga og annan búfénað. Verksmiðjan, sem er í nýju 1.000 fermetra stálgrindarhúsi, var formlega gangsett föstudaginn 4. október. Úlfar Haraldsson er framkvæmda- stjóri Furu ehf.. Hann segir að þarna sé verið að útvíkka endurvinnslu- starfsemi Furu ehf. sem fram til þessa hafi að mestu verið að kurla margvíslega málma sem seldir eru til málmbræðslu í útlöndum. Þar á meðal eru ónýtir bílar sem búið er að afskrá. Á þriðja hundrað milljóna króna fjárfesting „Ætli þetta sé ekki ein stærsta endurvinnsluverksmiðja sem reist hefur verið á Íslandi á síðustu árum. Við erum búnir að vera að vinna við að setja þetta upp síðastliðið ár; reisa húsið og setja inn vélarnar, sem koma að mestu frá Bretlandi, en pökkunarvélin er frá Ítalíu. Það komu menn að utan til að setja búnaðinn upp. Þetta er fjárfesting upp á um 250 til 280 milljónir króna,“ segir Úlfar. – Hvað reiknið þið með að geta tekið mikið af hráefni hér í gegn? „Við reiknum með að um fjögur þúsund tonn fari hér í gegn á ári og þá erum við að miða við að reka þetta bara á einni vakt. Síðan er auðvitað hægt að keyra þetta á tveim vöktum en ætli við förum ekki varlega til að byrja með. Fyrir hrossaræktina er í dag verið að flytja inn um 10-12 þúsund tonn á ári, þannig að í framleiðslu okkar ætti að felast töluverður gjaldeyrissparnaður, svo ekki sé talað um þá innspýtingu í atvinnulífið sem þetta fyrirtæki skapar. Við reiknum með tveimur föstum starfsmönnum í kringum framleiðsluna og síðan er sölumennska og dreifing, en ég er með Þorvald Gíslason með mér í því verkefni. Við stílum inn á að taka hér inn hreint timbur, það er ómálað og ófúa- varið.“ Úlfar segir að til að byrja með verði ekki tekið á móti grisjunarviði úr skógrækt en það verði skoðað í samræmi við hvað markaðurinn leyfi. Mikil sjálfvirkni Verksmiðjan er mjög fullkomin, en inn í hana kemur timbrið grófkurlað eftir ferli sem fer fram utanhúss á lóð fyrirtækisins. Grófkurluðu timbrinu er síðan mokað í síló inni í verksmiðjunni og fer þaðan eftir færibandi í fínkurlun og eru naglar og aðrir málmhlutir teknir úr hráefninu með sterkum seglum. Síðan fer hreint efnið í gegnum ellefu metra langan þurrkara sem kyntur er með heitu vatni. Rakastigið í kurlinu er eftir það um 7-8%. Síðan fer það í gegnum blásara og sótthreinsandi útfjólubláa ljósgeisla. Áfram flyst hráefnið eftir færiböndum og er síðan ýmist stýrt í 400 kg stórsekki eða í gegnum pökkunarvél sem pakkar kurlinu inn í ferkantaða 33 kg plastbagga. Allt gerist þetta sjálfvirkt og á enda línunnar er þjarki sem tekur baggana af færibandinu og staflar þeim á bretti. Brettin fara síðan í gegnum filmupökkun þannig að pakkarnir hreyfist ekki í flutningi. – Getið þið keppt í verði við innflutt viðarkurl? „Já, við ætlum að gera það og koma sterkir inn á markaðinn með gott verð. Við höfum verið að dreifa þessu fyrir austan fjall og fyrir norðan og leyfa hestamönnum að prófa. Þeir hafa tekið vörunni mjög vel. Útlitið er því bara gott og við komum inn á markaðinn með þetta á réttum tíma, þar sem hestamenn eru að fara að taka hrossin í hús.“ /HKr. Við grófkurlaðan viðarbing sem er að fara í frekari vinnslu í nýju verksmiðjunni. Úlfar Haraldsson (til vinstri), framkvæmdastjóri og einn af eigendum hinnar nýju viðarkurlverksmiðju Furu ehf., og Þorvaldur Gíslason, framleiðslustjóri verksmiðjunar og hestamaður með meiru. Myndir / HKr. eða í 400 kg stórsekkjum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.