Hús & Búnaður - 01.06.1968, Blaðsíða 5

Hús & Búnaður - 01.06.1968, Blaðsíða 5
LITLA- BÍÓ Stundum verður maður undrandi yfir hversu margar dyr virðast standa opnar fyrir ýmsa, sem við svo- nefndan ,,bisness“ fást. Virðist litlu máli skipta við hvað er fengizt. Aðalatriðið er, að ,,bisnessinn“ gangi. Ráðist hins vegar einhver í fyrirtæki eða framkvæmd, sem þjóðnýtt og menningarlegt gildi hefur, eru allt í einu komnir slagbrandar fyrir hverjar dyr. Slíkir menn geta jafnvel árum saman þurft að standa við luktar dyr og knýja á, án þess hin daufu eyru heyri og opnað sé í hálfa gátt. Flestir hafa raunar áður gefizt upp. En svo getur þyrnirósarsvefninn rofnað hægt og hægt. Hinn ferski blær morgunsins hefur þá gjarnan breytzt í lognmollu síðdegisins, og dökkir hundraðkall- arnir varpa skuggum yfir sviðið. Kvikmyndagerð er ný starfsgrein hér á landi. Fram til þessa höfum við of lítið haft af listgildi kvikmynd- anna að segja. Þekking okkar á þessu sviði hefur fremur náð til glanstrúða og ofurmenna, ekki til list- arinnar sjálfrar. Að vísu hafa verið sýndar hér afburða góðar myndir, en þær heyra þó undantekningunum til. Litlar tilraunir hafa verið uppi til að skipuleggja og þroska listáhuga fólks, heldur önnur sjónarmið verið látin vísa veg. Dyrnar hafa sem sagt staðið opnar. Nú er loks í undirbúningi stofnun nýs félags. Nefn- ist það ,,Kvikmyndaklúbburinn“. Markmið hans er að koma á fót kvikmyndasafni, efla kvikmyndagerð hér á landi og auka kynningu og fræðslu um kvikmynda- list. Starfsemin er raunar tvíþætt, þótt hún sé samofin: Annars vegar starfar Kvikmyndasafnið, sem er sjálfs- eignarstofnun er safnar og varðveitir sýningarmyndir. Rekur það hið nýstofnaða kvikmyndahús að Hverfis- götu 44 undir nafninu „Litla-bíó". Hinsvegar er unnið að stofnun kvikmyndaklúbbs áhugafólks um þessi málefni. Helzti hvatamaður klúbbsins er Þorgeir Þor- geirsson kvikmyndagerðarmaður. Félagar kvikmyndaklúbbsins geta allir gerzt, sem orðnir eru 16 ára eða eldri og uppfylla skilyrði hans. Félagsgjaldið er kr. 250.00 á ári, en það veitir auk þess rétt til aðgöngu að fjórum sýningum safnsins. Meðlimir geta síðan fengið viðbótarkort, sem kosta þá aðeins kr. 120.00 og gilda einnig að fjórum sýn- ingum. Af þessu má sjá, að auk þess að fá þannig aðgang að góðum sýningum er aðgangseyrinum mjög í hóf stillt. Árgjöld félagsmanna renna til starfsemi safnsins. Við áttum stutt viðtal við Þorgeir þar sem hann var önnum kafinn við starf sitt í Litla-bíói. Sagði hann okk- Atriði úr kvikmyndinni Barnæska Gorkís. ur, að starfsemi þessi væri enn á byrjunarstigi. Auö- fundið væri að áhugi almennings, einkum unga fólks- ins, væri að vakna á þessum efnum, en framtíðarverk- efnin sem biðu væru meiri en séð yrði út yfir. Starf- semin hefst hér í Reykjavík, en auk þess er æskilegt, að hún geti breiðst víðar út um land. Hann óskaði eftir að komast í samband við sem flest áhugafólk. Hér sem annars staðar yrði lítið gert nema áhugi almennings kæmi fram. Undirtektir hafa þó orðið mjög góðar, það sem af er, og vaxandi aðsókn fólks er léti skrá sig i Kvikmyndaklúbbinn. Er ástæða til að ætla, að margir vilji hagnýta sér þetta tækifæri, sem nú gefst. Þeim sem áhuga hafa á að ganga í klúbbinn og taka þátt í sýningarstarfsemi hans skal bent á, að skírteini eru afgreidd í Litla-bíói Hverfisgötu 44, eftir kl. 4 á dag- inn, en einnig er hægt að hringja í síma 16698. Litla-bíó hóf starfsemi sína með sýningum á fjórum myndum eftir Þorgeir Þorgeirsson, en sýningarskráin yfir júní-júlí lítur þannig út: 7/6 til 12/6 kl. 9 verður sýnd myndin „Við nánari at- hugun". Það er tékknesk mynd, gerð árið 1965 eftir I. Passer. Aukamynd verður írsk mynd „Yeats Country". Sömu daga kl. 6 myndin „Barnæska Gorkís", rúss- nesk mynd eftir M. Donskoj, gerð 1938. 14/6 til 19/6 kl. 9 „Barnæska Gorkís", kl. 6 „Fláskól- ar mínir" eftir M. Donskoj, gerð 1940. 21/6 til 26/6 kl. 9 „Háskólar mínir", kl. 6 myndin l'Atalante", frönsk mynd eftir Jean Vigo, gerð 1934. Aukamynd ,,TNP“ einnig frönsk eftir G. Franju. 28/6 til 3/7 kl. 9 „l'Atalante", kl. 6 myndin „Okkar er frelsið" frönsk mynd eftir R. Clair, gerð 1932. 5/7 til 10/7 kl. 9 „Okkar er frelsið", kl. 6 „Úr djúpun- um", frönsk mynd eftir J. Renoir, gerð 1937. 12/7 til 17/7 kl. 9 „Úr djúpunum", kl. 6 verða sýndar stuttar myndir frá ýmsum löndum. Engar sýningar eru á fimmtudögum.

x

Hús & Búnaður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hús & Búnaður
https://timarit.is/publication/1071

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.