SunnudagsMogginn - 05.02.2012, Qupperneq 29
29. janúar 2012 29
áhrif þannig að hópurinn fer allur að hugsa eins, til dæmis
í órum um eigið ágæti — eða situr fastur í lítt gefandi hug-
myndum um eigin takmarkanir. Þetta er ekki endilega
tjáð, en getur verið til staðar engu að síður. Góður leiðtogi
með heilbrigt innsæi gætir þess að ekki verði til slík hóp-
hugsun. Hann stendur með annan fótinn fyrir utan hóp-
inn og er vakandi fyrir því hvað er að gerast inni í hópn-
um sem hann er að vinna með.
Leiðtoginn getur viljað vel, en gert mistök vegna þess
að í honum eru virkir ómeðvitaðir, sálrænir varnarhættir.
Þeir geta verið fjölbreytilegir, einn er afneitun, annar er
vangeta til að horfast í augu við sjálfan sig sem snýst yfir í
að benda á aðra, bæling, órar, og fleira þess háttar. Leið-
toginn getur orðið hræddur við samstarfsmenn og und-
irmenn sína, jafnvel heilu starfseiningarnar, og dregur sig
þess vegna í hlé og sækir ekki til þeirra. Hann getur farið
að upphefja einhvern hóp í kringum sig eða annars staðar
og lítilsvirt annan hóp. Allt þetta bendir til virkra varn-
arþátta sem geta gert leiðtogann mistækan.“
Stjórnmálamenn í frumstæðum átökum
Þegar þú kemur inn í skipulagsheildir og sérð að leið-
toginn ræður ekki við verkefnið, segirðu honum það þá
hreint út?
„Hlutverk mitt er að segja honum nokkuð beint hvað
ég er að upplifa. Fyrir það fæ ég borgað. Það er svo allur
gangur á því hvað kemst til skila af því sem ég segi. Fólk
er misjafnlega móttækilegt þegar kemur að því að hlusta á
álitið sem veitt er. Það getur jafnvel verið að það hafi ekki
forsendur til að skilja það, að minnsta kosti ekki á þeim
tíma. Ég man eftir einum góðum manni sem fékk að
heyra mikilvægt álit í nóvember — sem gerði hann mjög
ósáttan — en náði ekki að skilja það fyrr en í mars, en þá
kom sá skilningur of seint fyrir þetta tiltekna verkefni. Ef
leiðtoginn hefur vald þá getur hann ákveðið að taka mark
á gagnrýninni og vinna út frá henni, eða að taka ekkert
mark á henni. Mitt hlutverk er ekki alltaf að tryggja að
viðkomandi vinni úr gagnrýninni heldur að koma skila-
boðum á framfæri.“
Er reynsla þín að fólk eigi erfitt með að taka gagn-
rýni?
„Það er allur gangur á því. Sumir verða mjög þakklátir.
Aðrir verða hugsandi og virða hreinskilnina en vita
kannski ekki alveg hvernig þeir eiga að umgangast þann
sem hefur gagnrýnt það. Það er því miður lenska í landi
hér að setja samasemmerki milli gagnrýni og neikvæðni.
En ég lærði heimspeki meðal annars hjá Páli Skúlasyni og
Þorsteini Gylfasyni og guðfræði meðal annars hjá Þóri Kr.
Þórðarsyni og Birni Björnssyni og var alinn upp í því að
gagnrýni væri góð og æskileg og að nauðsynlegt væri að
beita gagnrýnni hugsun og vinna með það sem best er
vitað. Sálusorgun snýst um að meðtaka staðreyndir, sál-
greiningin er menntun til raunveruleikans og gott há-
skólastarf snýst um að viðurkenna það sem best er vitað
og hafna öðru. Og þetta ætti líka að einkenna alla góða
ráðgjöf.“
Stundum er sagt að þjóðin eigi enga sterka stjórn-
málaleiðtoga. Myndirðu skilgreina leiðtoga stjórn-
málaflokkanna sem veika leiðtoga?
„Stundum hugsa ég: Er þetta ekki eins gott og það get-
ur orðið? Stjórnmálamenn eru ekki eyland, heldur hluti af
þjóðinni og þjóðin fær þá leiðtoga sem hún á skilið. Það
vantar ekki vinnusemi og seiglu hjá fólki í öllum flokkum.
Það má taka ofan fyrir þeim stjórnmálamönnum sem
nenna að vakna á hverjum morgni og hugsa: Nú tek ég
þennan slag enn einn daginn. Enn einn daginn ... Enn
einn daginn. Líf íslenskra stjórnmálamanna minnir á ör-
lög einstaklingsins sem Bill Murray lék í Groundhog Day –
stöðugt endurtekning í sérkennilegum aðstæðum.
Það er hins vegar slæmt að í þjóðfélagsumræðunni og á
þinginu búa menn sér til víglínur sem þeir benda stöðugt
yfir. „Við-þið“-sálfræði ræður ferðinni. Sá sem vinnur
við sálfræðilega meðferð veit að það er frumstæð sálræn
viðleitni til að komast hjá því að horfast í augu við sjálfan
sig. Sannleikurinn um málefni sem varða velferð sam-
félagsins fellur þá oft milli skips og bryggju. Kosturinn við
fyrirkomulagið er að stjórnmálamennirnir eru að vinna í
frumstæðum átökum í tiltölulega öruggu rými. Og svo fer
þetta allt einhvernveginn.“
Að vera þjónn fólksins
Ert þú meðlimur í stjórnmálaflokki?
„Ég er ekki í stjórnmálaflokki. Á stúdentsárunum
stofnaði ég stjórnmálaafl, Íslenska stúdentafélagið, sem
hélt stofnfund á Dómkirkjuloftinu. Þessi samtök áttu að
vera hagsmunasamtök stúdenta, til höfuðs Vöku og
Röskvu sem okkur félögunum fannst vera æfingabúðir í
pabba- og mömmupólitík. Þegar við félagarnir vorum
farnir að skipuleggja okkur urðum við strax eins og hinir,
notuðum sömu frasana og þeir, og sýndum sama frum-
stæða áhugann á að öðlast áhrif og völd.
Ég var einn af Maurunum, undirbúningshópnum sem
vann að því að Þjóðfundurinn 2009 var haldinn. Þetta var
viðleitni til að fara upp úr hjólförum. Mér fannst merki-
legt að sjá hvernig viðmót fólks í pólitík breyttist þegar ég
var, að því er það taldi, orðinn hluti af stjórnmálaafli.
Þetta var: „Er hann með okkur eða á móti okkur?“ við-
horfið sem er, enn og aftur, sálrænn varnarháttar, við-
brögð við einhverju sem ógnar sjálfsvitund eða sjálfs-
mynd viðkomandi.
En talandi um þjóðfélagsmál og stjórnmál þá finnst mér
eins og fólk í opinberum störfum átti sig ekki alltaf á því
hvað það þýðir að vera þjónn fólksins. Í samtíma okkar er
oft mikil áhersla á ytri veruleika, eins og það hver sé á
forsíðu blaðanna, og hver sé að tala við hvern í hvaða par-
tíi. Ég má til dæmis búast við auknum áhuga fólks sem
viðbrögðum við þessu viðtali, þó að ég sé einn og hinn
sami fyrir og eftir að það birtist. En þessi áhugi er tak-
markandi og beinlíns hættulegur til dæmis fyrir opinbera
stjórnsýslu, eins og gerist þegar unnið er samkvæmt
þessari áherslu fremur en á grundvelli þess sem best er
vitað og samkvæmt þeim skilningi að embættismaðurinn
eða stjórnmálamaðurinn sé í þjónustuhlutverki við al-
menning og þurfi að nýta innsæi sitt í þágu hans. Í slíkum
aðstæðum móta tíðarandinn og fjölmiðlarnir, og valdið
sem þetta tvennt veitir, þann sem á að vera þjónn fólks-
ins, og hann blaktir eins og strá í vindi í stað þess að
standa keikur.
Íslenskir fjölmiðlar eru annað merkilegt mál. Í mínum
huga er góður blaða- og fjölmiðlamaður einstaklingur
með sterkan karakter sem er þrautþjálfaður í að rýna af
rökvísi í málefni, sjá þau í hlutlægu ljósi, og er fær um að
draga skynsamlegar ályktanir á grundvelli upplýsinga og
innsæis. Í íslenskri fjölmiðlastétt eru of margir ekki færir
um þetta. Þar er mikið af fordómafullu ungu fólki sem býr
yfir litlu innsæi. Það svífst einskis, sem getur verið nokk-
ur kostur, en höfuðgallinn er að það skautar oft yfir það
sem máli skiptir vegna þess að það sér það ekki. Í frétta-
flutninginn skortir yfirlegu, ígrundun, rökvísi, siðfágun
og það að taka næsta skrefið. Oft les maður hálfkaraðar
fréttir sem stimplaðar eru þótta unglingsins, og lesandinn
spyr sig — ef hann þá spyr sig, og þar er hættan — Hvað
svo? Hvað merkir þetta? Hvernig á að túlka þetta? Ég tel
að íslenskir blaða- og fjölmiðlamenn ættu að setja markið
hærra og miða sig faglega við rótgróna fjölmiðla á borð við
New York Times.“
Þú hefur nokkrum sinnum nefnt innsæi í þessu við-
tali. Hefurðu mikla trú á innsæi?
„Við lifum í umhverfi sem við erum stöðugt að leggja
mat okkar á. Sá sem hefur ekki innsæi hefur takmarkaðar
forsendur til að leggja mat á það sem er að gerast í kring-
um hann. Hann er grunnhygginn og veit ekki af hverju
hann túlkar umhverfið eins og hann túlkar það. Sá sem er
djúpsær og býr yfir innsæi er betur fær um að leggja mat á
umhverfi sitt. En innsæið verður ekki til af sjálfu sér. Við
þurfum að rækta innsæið, vinna með það og þroska það.
Sterkt innsæi er eitt besta vinnutæki mannshugans og það
sem einstaklingar, teymi, skipulagsheildir og íslenskt
samfélag í heild þarfnast — já, og þá auðvitað biskup og
forseti framtíðarinnar.“
Haukur Ingi Jónasson: Sá sem
er djúpsær og býr yfir innsæi,
er betur fær um að leggja mat
á umhverfi sitt. En innsæið
verður ekki til af sjálfu sér.