Morgunblaðið - 03.11.2014, Síða 15
FRÉTTIR 15Erlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 3. NÓVEMBER 2014
Hjálp,
jólin koma!
S: 528 8200
Annasamt í eldhúsinu
Grimmur grillhanski kostar 600 kall,
viðarsleif eða steikarspaði 300 kr.
svunta með yfirvaraskeggi
á vasanum 900 kall.
Villidýr á verði
tiger.is · facebook.com/tigericeland
Sendum í póstkröfu
Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is
Menn geta ekki haldið áfram að
nýta jarðefnaeldsneyti á borð við
kol, olíu og gas sem orkugjafa.
Draga þarf verulega úr nýtingu þess
á næstu 30-40 árum og hætta henni
alfarið fyrir lok þessarar aldar til
þess að menn og annað líf á jörðinni
geti staðið af sér þær breytingar á
loftslagi sem nýtingin hefur og mun
valda. Þetta er niðurstaða skýrslu
loftslagsnefndar Sameinuðu þjóð-
anna sem birt var í gær.
Skýrslan, sem byggist á vinnu
þúsunda vísindamanna um allan
heim, er sú afdráttarlausasta hingað
til um afleiðingar loftslagsbreytinga
og að ríkisstjórnir heims þurfi að
bregðast skjótt við. Þetta er meðal
annars í fyrsta skipti sem kveðið er
upp úr um að hætta þurfi alfarið að
brenna jarðefnaeldsneyti.
Styrkur gróðurhúsalofttegunda í
andrúmslofti jarðarinnar er nú 40%
meiri en fyrir iðnbyltinguna og hef-
ur ekki verið meiri í að minnsta
kosti 800.000 ár. Mikil aukning í los-
un manna á koltvíoxíði og metani
undanfarin sextíu ár er orsök nær
allrar þeirrar hlýnunar sem hefur
átt sér stað á jörðinni.
Glugginn að lokast
Loftslagsbreytingar eiga sér stað
á jörðinni nú þegar og ekki er hægt
að snúa þeim við, að því er kemur
fram í skýrslunni. Jafnvel þótt menn
hættu alveg að brenna jarðefnaelds-
neyti gætu sumar afleiðingarnar
varað í nokkrar aldir vegna losunar-
innar sem þegar hefur átt sér stað.
Yfirborð sjávar mun til dæmis halda
áfram að rísa lengi fram yfir árið
2100 vegna bráðnunar íss.
Þannig stendur reikistjarna okk-
ar frammi fyrir öfgakenndara veð-
urfari, hækkandi yfirborði sjávar og
áframhaldandi bráðnun íss á heim-
skautunum.
Spurningin er hvort ríkisstjórnir
heims geti tekið sig saman um að
draga úr losun gróðurhúsaloftteg-
unda og hægt nægilega á hlýnuninni
þannig að menn og vistkerfi jarð-
arinnar nái að aðlagast breytingun-
um. Frá árinu 2009 hefur verið mið-
að við að takmarka hlýnunina við
2°C. Að öðrum kosti er hættan sú að
afleiðingar loftslagsbreytinga verði
harkalegri og óafturkræfar.
„Glugginn til þess að bregðast við
á hagkvæman, eða á skilvirkan hátt,
er að lokast hratt,“ segir Michael
Oppenheimer, prófessor í jarðvís-
indum við Princeton-háskóla, sem
lagði sitt af mörkum til skýrslunnar.
Stórauki hlut hreinnar orku
Þrátt fyrir þessa dökku mynd
sem dregin er upp í skýrslunni er
ekki öll nótt úti. Menn geta enn
brugðist við með því að draga hratt
úr notkun jarðefnaeldsneytis.
„Má ég auðmjúklega leggja til að
stefnumótendur forðist að láta það
sem virðist vonleysi þess að taka á
loftslagsbreytingum þyrma yfir sig.
Það er ekki vonlaust. Það þýðir þó
ekki að það verði auðvelt,“ sagði
Rajendra Pachauri, formaður
nefndarinnar, þegar meðlimir henn-
ar hófu að fara yfir hana í síðustu
viku.
Nú þegar hafa menn losað um tvo
þriðju af því magni gróðurhúsaloft-
tegunda sem áætlað er að sé leyfi-
legt ætli þeir sér að forðast alvarleg-
ustu áhrif loftslagsbreytinga. Til að
gera það á sem ódýrastan hátt hefur
nefndin reiknað út að losunin þurfi
að ná hámarki sínu árið 2020 og
hætta með öllu fyrir lok aldarinnar.
Á meðal þess sem þarf að gerast
til þess að menn nái að hemja breyt-
ingar á loftslaginu er að hlutur end-
urnýjanlegra orkugjafa, þar á meðal
kjarnorku, verði aukinn úr 30% í
80% fyrir árið 2050. Þetta þýðir að
auka þarf fjárfestingar í hreinni
orkugjöfum um hundruð milljarða
dollara á ári fram til 2030. Verði því
seinkað að draga úr losun muni
kostnaðurinn aukast mikið.
„Haft er fyrir satt að aðgerðir í
loftslagsmálum muni kosta mikið en
aðgerðaleysið verður okkur mun
dýrkeyptara,“ segir Ban Ki-moon,
aðalritari Sameinuðu þjóðanna.
Endalok jarðefnaeldsneytis
AFP
Afdráttarlaus skýrsla Ban Ki-moon, aðalritari SÞ (þriðji.f.v.), og Rajendra Pachauri, formaður loftslagsnefndar-
innar (annar frá hægri), voru á meðal þeirra sem kynntu skýrsluna á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í gær.
Loftslagsnefnd SÞ afdráttarlaus um loftslagsbreytingar Dregið verði stórlega úr notkun jarð-
efnaeldsneytis á næstu 35 árunum og alveg hætt við lok aldarinnar Aðgerðaleysi talið dýrkeyptara
Útlit er fyrir að repúblikanar nái
meirihluta í öldungadeild Banda-
ríkjaþings í þingkosningum sem fara
fram í landinu á morgun. Kosið er um
33 sæti í öldungadeildinni auk allra
435 sætanna í fulltrúadeildinni.
Repúblikanar eru nú þegar með
meirihluta í fulltrúadeildinni og því
hafa sjónir manna beinst að barátt-
unni um sætin í öldungadeildinni. Til
þess að ná meirihlutanum þar þurfa
repúblikanar að vinna sex sæti. Skoð-
anakannanir benda til þess að þeir
séu líklegir til að bæta við sig átta
sætum. Takist þeim það munu hend-
ur Baracks Obama forseta vera enn
bundnari af þinginu en fram að þessu
síðustu tvö ár kjörtímabils hans.
Áhugaleysi demókrata
Nær öruggt er talið að repúblik-
anar nái fimm af þeim sex sætum sem
þeir þarfnast en möguleikar demó-
krata á að halda meirihlutanum velti
á því að þeir nái að hafa nauma sigra í
nokkrum ríkjum.
Vitað var að það yrði erfitt fyrir
demókrata að halda meirihlutanum
þar sem í síðustu kosningum höfðu
þeir unnið sigra í ríkjum sem repú-
blikanar hafa yfirleitt getað gengið að
vísum.
Áhugi á kosningunum er lítill í
Bandaríkjunum og kemur það verr
niður á demókrötum en keppinautum
þeirra. Rannsókn Pew-rannsóknar-
miðstöðvarinnar bendir til þess að af
þeim sem eru ekki skráðir á kjörskrá
eða eru ólíklegir til að kjósa hallist
51% að demókrötum en aðeins 30%
að repúblikönum.
Svo gæti þó farið að úrslitin liggi
ekki ljós fyrir á kosninganótt því lík-
legt er að kjósa þurfi aftur í Lúisíana
og mögulega Georgíu. Ef mjótt verð-
ur á mununum í Alaska gæti það tek-
ið marga daga að telja aftur atkvæði í
afskekktum bæjum. kjartan@mbl.is
Ná meirihluta í
báðum deildum
Kosið í Bandaríkjunum á morgun
AFP
Óvinsæll Obama forseti heilsar
fólki á kosningafundi um helgina.
Kjarnorka er eitur í beinum
margra umhverfisverndarsinna,
aðallega vegna geislavirks úr-
gangs sem verður til við fram-
leiðsluna. Í skýrslu loftslags-
nefndarinnar kemur hins vegar
fram að kjarnorka sé einn af
valkostunum á móti jarð-
efnaeldsneyti.
Úran er það efni sem kjarn-
orkuver heimsins nota til að
framleiða orku. Fjölmargar þjóð-
ir rannsaka nú hins vegar mögu-
leikann á að
nota efnið þórí-
um í staðinn
enda er það tal-
ið hafa marga
kosti umfram
úranið.
Á meðal
þessara kosta
er að umtals-
vert meira er til
af þóríum á jörðinni en úrani. Tal-
ið er að hægt sé að vinna orku úr
því á skilvirkari hátt og þar með
ódýrari. Minni orkuver þyrfti í
kringum framleiðsluna og úr-
gangurinn er minni. Geislavirkni
úrgangsins minnkar á nokkur
hundruð árum í stað tuga þús-
unda í tilfelli úrgangs frá úran-
orkuverum.
Frekari rannsókna og þróunar
er þörf á notkun þóríums til að
beisla kjarnorku en mögulegt er
talið að efnið geti orðið einn af
framtíðarorkugjöfum mannkyns.
Margir kanna kosti þóríumkjarnorkuvera
MÖGULEGUR ORKUGJAFI FRAMTÍÐARINNAR
Orka Kjarnorkuver
í Frakklandi.