Morgunblaðið - 21.11.2014, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 21.11.2014, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 21. NÓVEMBER 2014 ✝ Unnar JónKristjánsson fæddist í Reykjavík 12. maí 1966. Hann lést 9. nóvember 2014. Unnar var yngst- ur sjö systkina. For- eldrar hans eru Kristján V. Krist- jánsson, f. 5.8. 1920, d. 9.11. 1998, og Ragnhildur Magn- úsdóttir, f. 1.8. 1924. Systkini hans eru: a) Sigurlína Sjöfn Kristjánsdóttir, f. 1.5. 1947, d. 2.4. 2009, gift Trausta Björns- syni. b) Sylvía Hrönn Kristjáns- dóttir, f. 11.9. 1952. c) Kristján Kristjánsson, f. 1.4. 1954. d) Magnús Helgi Kristjánsson, f. 3.5.1955, d. 27.6. 2007. e) Jóhann- es Bragi Kristjánsson, f. 7.1. 1960, kvæntur Svövu Hans- dóttur. f) Auður Gróa Kristjáns- dóttir, f. 22.7. 1963 gift Guð- mundi Bragasyni. Eiginkona Unnars er Guðný Einarsdóttir, f. 16.1. 1968, en þau Lambhól í tvö ár áður en ákveðið var að flytja búferlum austur fyr- ir heiði og setjast að í Hveragerði þar sem hann undi sér vel þaðan í frá. Hann gekk í Melaskóla og síð- an Hagaskóla þaðan sem hann lauk gagnfræðaprófi. Hann hóf starfsævi sína afar ungur að ár- um en aðeins 12 ára fékk hann vinnu á grásleppubáti sem gerði út frá Garðavör við Ægisíðu. Næstu ár þar á eftir sótti hann sjóinn og vann við tamningar hrossa, m.a. í Þykkvabæ. Unnar hóf svo störf í Sláturfélagi Suður- lands með föður sínum rétt fyrir tvítugt og hafði hug á að leggja kjötiðn fyrir sig. Eftir nokkurra ára starf í sláturfélaginu hóf hann störf við byggingavinnu, m.a. við virkjun í Blöndu. Árið 1991 hóf Unnar svo störf hjá Landflutningum þar sem hann starfaði til dánardags að einu ári undanskildu þegar hann starfaði við garðyrkju í Hveragerði. Unnar var virkur í félagslífi og ber þar helst að nefna að hann var í stjórn Postulanna og afar virkur í starfi þeirra samtaka. Útför Unnars verður gerð frá Digraneskirkju í dag, föstudag- inn 21. nóvember, og hefst kl. 13. Jarðsett verður í Kotstrand- arkirkjugarði. giftust hinn 8.8. 1998. Börn þeirra eru: a) Kristján Óð- inn Unnarsson, f. 22.9. 1987, í sambúð með Birgittu Dröfn Sölvadóttur, f 12.1. 1987. b) Unnur Sylvía Unnars- dóttir, f. 14.10. 1989. Barn hennar er Unnar Logi Sig- fússon, f. 8.9. 2008. Unnar ólst upp í foreldra- húsum á Lambhól við Þormóðs- staðaveg í Reykjavík. Ungur að árum bjó Unnar þó á Seyðisfirði ásamt fjölskyldu sinni í skamman tíma. Hann stofnaði heimili á árinu 1987 þegar hann flutti ásamt Guðnýju og nýfæddum syni úr foreldrahúsum í Máva- hlíðina í Reykjavík þar sem þeim fæddist dóttir. Nokkrum árum síðar flutti fjölskyldan á Kárs- nesbraut í Kópavogi þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið. Næst var flutt á æskuslóðir Unnars og bjó hann ásamt fjölskyldu sinni á Mikið afskaplega getur lífið verið hverfult, hverjum hefði dott- ið það í hug að síðasta skiptið sem ég talaði við þig yrði okkar síðasta spjall? Ef ég hefði haft þá vitn- eskju hefðu þær samræður orðið allt öðruvísi. Það er svo margt sem ég hefði sagt þér sem ég fæ núna ekki tækifæri til. Ég hefði þakkað þér fyrir svo ótal margt. Þú hefur kennt mér svo margt um lífið og tilveruna. Þú kenndir mér meðal annars að sérhver einstaklingur býr yfir einhverju góðu og hversu mikilvægt það er að einblína ekki á það slæma heldur það góða bæði í einstaklingum og ekki síst lífinu. Einnig gafstu mér besta ráð sem ég hef fengið en það er að njóta tímans í dag og ekki vera að bíða eftir morgundeginum. Ég mun ætíð vera þér þakklát fyrir hversu vel þú stóðst við bakið á mér í öllum erfiðleikum og óvæntum atburðum í lífi mínu, ekki síst þegar ég átti Unnar Loga, afastrákinn þinn. Þótt ég ef- aðist oft um ágæti mitt og hæfni í því hlutverki var ekki eitt augna- blik sem þú efaðist. Þú varst ætíð til staðar bæði fyrir mig og hann og tókst við því hlutverki að kenna honum hluti sem ég hafði ekki þekkingu á. Þú varst ekki síður fyrirmynd hans líkt og þú varst mín. Ég hef ávallt verið stolt af því að vera dóttir þín enda er ekki annað hægt, betri föður er varla hægt að hugsa sér og betri vin ekki heldur. Hjartað í mér ræður ekki við þá hugsun hvernig lífið verður án þín, sársaukinn er óbærilegur. Ég veit að með tím- anum munu sárin gróa en örin hverfa aldrei, ég mun ávallt sakna þín og hugsa um allar þær góðu minningar sem ég bý að um þann tíma sem okkur var gefinn saman. Himnaríki vantaði engil og þú varst kallaður heim en hver á núna að detta með mér í spjall um sögu heimsins og stjórnmál? Ég mun alltaf elska þig, elsku pabbi minn. Unnur Sylvía Unnarsdóttir. Elsku pabbi. Það er svo ótal- margt sem ég lærði af pabba í gegnum tíðina sem mun um ókomna tíð reynast mér vel. Það mikilvægasta sem ég lærði af hon- um voru þau viðhorf sem hann hafði til lífsins og tilverunnar. Hann var alltaf glaður, kátur og tók sig ekki of alvarlega. Hann kom ávallt til dyranna eins og hann var klæddur og var ekki að látast vera einhver annar en hann var. Þetta eru dæmi um lexíur sem ég mun reyna að lifa eftir það sem eftir er. Hinn 9. nóvember síðastliðinn fékk ég skelfilegasta símtal sem ég hef nokkru sinni fengið, pabbi var í hjartastoppi og verið var að reyna endurlífgun. Ég þaut af stað en þegar ég kom á staðinn blasti við mér blákaldur raunveru- leikinn, pabbi var látinn, aðeins 48 ára gamall. Pabbi hélt áfram að leggja mér lífsreglunar út yfir gröf og dauða en af þessum at- burði lærði ég enn eina lexíuna frá honum sem ég mun hafa í huga í öllum mínum athöfnum hér eftir, en hún er sú að maður á að lifa líf- inu í núinu þar sem maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér eða hvort morgundag- urinn kemur yfir höfuð. Ég hef alltaf verið lokaður og átt erfitt með að tjá þær tilfinn- ingar sem bærast innra með mér en engu að síður er ég handviss um að pabbi vissi nákvæmlega hvað mér fannst um hann og hvaða tilfinningar ég bar til hans. Fallinn er frá einstakur maður sem er fyrirmynd fyrir okkur sem eftir lifum og verður hans sárt saknað um ókomna tíð. Þá mun ég halda minningu hans á lofti og segja ófæddu barni mínu sögur af afa sínum sem það fær því miður ekki að kynnast af eigin raun. Þinn sonur, Kristján Óðinn (Stjáni). Það var haustið 1973 sem leiðir okkar Unnars lágu saman þegar við byrjuðum í sjö ára bekk í Melaskóla. Með okkur þróaðist vinskapur sem dafnaði næstu árin og áratugina. Margar æskuminn- ingar tengjast Unnari og uppá- tækjasemi hans og áræði. Unnar var fyrstur okkar félaganna til að komast yfir skellinöðru og seinna var hann einnig fyrstur til að eign- ast bíl. Í því naut hann stuðnings Kristjáns bróður síns sem ávallt var reiðubúinn til að hjálpa litla bróður og á stundum að hafa vit fyrir honum. Unnar hafði alltaf tröllatrú á sjálfum sér og sínum farartækjum og gaf lítið fyrir úr- töluraddir okkar félaganna, sem sumir töldu betra að fara sér að- eins hægar. Þetta sama sjálfsör- yggi dugði honum afar vel þegar hann stofnaði fjölskyldu með Guð- nýju, að sjálfsögðu fyrstur af fé- lögum sínum. Ákaflega minnis- stæð er stundin þegar við Unnar vorum staddir í heimsókn hjá sameiginlegum vini okkar og Unnar sagði okkur frá því að nú væri hann að verða pabbi. Þarna varð hann í einni svipan fullorðinn og einhvern veginn sást strax að hann myndi standa sig í því hlut- verki. Unnar var mikill fjölskyldufað- ir strax frá upphafi og urðu börnin tvö, Kristján Óðinn og Unnur Sylvía. Aldrei hef ég vitað nokk- urn eiga meira skilið vinning en þegar þau Unnar og Guðný unnu í Lottóinu í árdaga sinnar sambúð- ar. Unnar leyfði sér að kaupa eina haglabyssu en afgangurinn af vinningnum fór í íbúðarkaup. Allt- af var gaman að heimsækja Unn- ar og Guðnýju og smám saman stækkaði húsakosturinn. Þegar flutt var inn í húsið við Kamba- hraun í Hveragerði var ljóst að Unnar var kominn þangað sem hann vildi vera. Þarna var líka pláss fyrir lítinn afastrák sem Unnar var afar stoltur af. Að sjálf- sögðu var Unnar einnig fyrsti af- inn í hópnum. Unnar var ákaflega harður af sér og mikið hörkutól. Þegar velt er fyrir sér hvers konar menn það voru sem tóku sig upp og lögðu á opið haf fyrir meira en þúsund ár- um til að nema nýtt land, þá sé ég alltaf fyrir mér menn eins og Unn- ar. Hann var tilbúinn að leggja mikið á sig til að ná sínum mark- miðum og hefði án efa lagt ótta- laus út á hafið eins og forfeðurnir forðum til að skapa sér nýtt líf. Mikill sjónarsviptir er að Unnari, en mikil gæfa var að fá að eiga hann að vini. Arnbjörn Ólafsson. 9. nóvember er dagur sem ég mun aldrei gleyma. Eitt símtal breytti lífinu þannig að það tók stóra U-beygju. Höggvið var skarð sem aldrei verður fyllt og alltaf verður sár djúpt í hjartanu sem með tímanum breytist í ör. Þín verður sárt saknað elsku Unn- ar minn og maður spyr sig hver tilgangurinn sé en það er ekki okkar að vita. Það er svo margt sem við áttum eftir að ræða um, m.a. komandi barnabarn en ég veit að þú hefðir reynst því afar vel vegna þess að ég sá hversu gott samband var á milli þín og afastráksins þíns Unn- ars Loga, en það var afar sérstakt og sást langar leiðir að þetta hlut- verk átti svo vel við þig. Væntan- legt barnabarn mun fara á mis við mikið að eiga þig ekki að en fær engu að síður að kynnast þér því við munum halda minningu þinni á lofti um ókomna tíð. Við munum segja því sögur af fallega vernd- arenglinum á himnum sem passar það og okkur. Ég mun sakna allra samtalanna um sameiginlegt áhugamál okkar, hundana, og geta ekki leitað ráða varðandi Sófa. Það er svo margt sem mig lang- ar að skrifa og segja við þig en ætla að geyma það uns við hitt- umst á ný. Ég vil þakka þér og Guggu fyrir að „gefa“ mér einn stærsta demantinn í lífi mínu, Stjána, en fyrir það er ég ykkur afar þakklát. Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðm- lagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. „Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. „Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. „Einstakur“ er orð sem best lýsir þér. (Terri Fernandez) Þín tengdadóttir, Birgitta. Síminn hringir snemma á sunnudagsmorgni. Sulla systir er í símanum og segist vera með dap- urlegar fréttir. Unnar bróðir okk- ar sé dáinn. Hann hafi orðið bráð- kvaddur þar sem hann var staddur með Guggu sinni á Hótel Rangá þar sem þau höfðu farið út að borða á laugardagskvöldinu. Það var skrítin og óraunveru- leg stund sem við eftirlifandi systkini, ásamt mömmu, áttum saman skömmu síðar um morgun- inn heima á Lambhól hjá mömmu. Hvernig gat þetta gerst? Hvað hafði gerst? Hver þarna „hinum megin“ ákveður svona nokkuð ef það er þá ákveðið „hinum megin“. Unnar, yngsta systkinið í sjö systkina hópi, kveður skyndilega án nokkurs fyrirvara sem gaf svona nokkuð til kynna. Höggið er þeim mun þyngra þar sem við höf- um misst Línu elstu systur okkar og Magga miðjubarnið líka svona skyndilega á undanförnum sjö ár- um. Systkinahópurinn okkar, sem alltaf hefur verið svo samheldinn og náinn og gert svo margt skemmtilegt saman alveg síðan við vorum krakkar úti á Lambhól við Skerjafjörðinn fyrir svo mörg- um árum. Unnar bróðir var glaðlynt barn, alltaf kátur og glaður. Hann var bara tólf ára þegar hann „byrjaði til sjós“ með honum Bjössa sem gerði út á grásleppu frá Garðavör- inni skammt frá æskuheimili okk- ar við Skerjafjörðinn. Unnar var alltaf duglegur til vinnu og kom víða við á sínum yngri árum. Hann var ekki gamall þegar hann fékkst við hestatamningar uppi í Víðidal og mátti fara þangað í strætó úr Vesturbænum. Hann vann við sveitastörf, vann í sláturhúsinu í Króksfjarðarnesi, við kartöflu- rækt í Þykkvabænum og í bygg- ingarvinnu í Reykjavík svo fátt eitt sé talið. En undanfarin 23 ár hefur hann unnið hjá Landflutn- ingum Samskipum, nú síðast sem lestunarstjóri. Unnars verður sárt saknað víð- ar en í systkinahópnum og meðal venslafólks. Hann hefur alltaf ver- ið mjög félagslyndur og kynntist mjög mörgum í gegnum tíðina sem hafa orðið góðir vinir hans og kunningjar. Við Unnar vorum saman í mótorhjólaklúbbnum Postulunum þar sem hann var í stjórn og alltaf mjög virkur og vin- sæll félagi. Ég ferðaðist oft með Unnari bróður og ef stoppað var einhvers staðar var Unnar alltaf kominn á kjaftatörn við einhvern sem hann þekkti á staðnum. Systkinahópurinn hefur haldið vel saman í gegnum árin og við verið dugleg að heimsækja hvert annað af ýmsum tilefnum, eða að tilefnislausu. Við, með fjölskyld- um okkar, hófum byggingu sum- arbústaðar í Selsundi á Rangár- völlum á landi föðurfjölskyldu okkar 1993, þegar börn okkar systkinanna voru lítil. Þar sýndi Unnar vel hversu verklaginn hann var og gat gengið í hvaða iðnaðar- mannastarf sem var og leyst það mjög vel af hendi. Þetta voru ómetanlegar stundir sem við systkinin og fjölskyldur okkar og ekki síst börnin okkar áttum þar saman í vikutíma á hverju sumri í mörg ár við smíðar og skemmti- legheit. En mestur er missirinn hjá Guðnýju (Guggu) konunni hans, börnunum Stjána og Unni, tengdadótturinni Birgittu, afa- barninu Unnari Loga og mömmu okkar sem sér á eftir sínu þriðja barni. Góður guð styrki þau og okkur öll í þessari sorg. Kristján Kristjánsson. Á sorgarstundu ber hug manns inn í heim minninga, minninga um góðan dreng. Bróður sem ég var svo lánsamur að eiga að sem vin. Ég minnist allra samverustund- anna sem við áttum, við tveir og með fjölskyldum okkar. Hugurinn ber mig inn í ferðalögin sem við fórum saman eftir að við báðir höfðum stofnað fjölskyldu og börnin fæddust eitt af öðru. Ég minnist veiðiferðanna sem við fór- um saman í, þar sem margt var skrafað og húmorinn aldrei langt undan hjá þér enda sögumaður góður. Matarklúbburinn okkar sem spannar yfir 20 ár og hefur gefið okkur hjónum svo ótalmarg- ar ærslafullar og ómetanlegar minningar með þér og elskulegu Guðnýju þinni. Hugurinn flytur mig austur í Hraunsel, bústaðinn okkar sem er okkur svo kær, ekki síst fyrir þann griðastað sem hann er okkur. Staður þar sem svo sannanlega var hægt að vinda ofan af sér dag- legt amstur, þú með þínar fimu hendur, reynslu og útsjónarsemi við smíðar og annað sem til féll, ýmislegt dundur sem við báðir höfðum svo mikla ánægju af. Oft ræddum við saman um hinar ýmsu útfærslur og leiðir við smíð- ar og annað sem við höfum dund- að okkur við í gegnum tíðina og ósjaldan þurfti ekki að klára setn- inguna. Það sem var ósagt sagði svo margt. Það er undarlegt hvernig mannshugurinn virkar. Á sorgarstundu kveð ég þig, minn kæri vinur og elskulegur bróðir, en hugurinn reikar áfram. Hann flytur mig til fjölskyldunnar sem þú unnir og lifðir fyrir. Elsku Guðný, Kristján Óðinn, Unnur Sylvía, Unnar Logi og Birgitta, megi Guð og góðar minn- ingar styrkja ykkur á þessari erf- iðu stundu. Jóhannes Bragi Kristjánsson. Það er sárara en nokkur orð geta lýst að sitja og skrifa minn- ingarorð um Unnar mág minn. Hann sem var svo lífsglaður og hamingjusamur, búinn að skila með stolti börnunum sínum Stjána og Unni upp á fullorðins- árin og eignast lítinn nafna, hann Unnar Loga sem var svo mikið ljós í lífi afa og ömmu. Maður hitti Unnar varla án þess að hann segði manni einhverjar skemmti- legar sögur af honum. Og ekki eyðilagði það gleðina og eftir- væntinguna þegar hann sagði okkur að von væri á öðru litlu ljósi í lífið þar sem Stjáni og Birgitta væru að koma með sitt fyrsta barn. En stærsta hamingjan í lífi hans var þó Gugga, konan hans. Það ríkti svo mikil vinátta og virð- ing milli þeirra. Minningarnar streyma fram, minningar sem er svo gott að eiga á stundum sem þessum. Minningar frá því ég kom fyrst inn í Lambhóls-fjöl- skylduna, en þá var Unnar ný- fermdur. Honum fannst svo spennandi að Jói bróðir væri kominn með kærustu og forvitinn um hagi unga parsins. Minningar frá því við Jói bjuggum á Blöndu- ósi og Unnar bjó hjá okkur um tíma og var að vinna í sláturhús- inu. Það voru góðir og skemmti- legir tímar. Allt í einu var þessi litli bróðir orðinn fullorðinn mað- ur og svo mikill vinur okkar. Minning frá því hann og Bjössi frændi þeirra bræðra komu í heimsókn til mín upp á fæðing- ardeild, þegar við Jói eignuðumst fyrsta barnið okkar, með lítinn barnagalla sem þeir sögðust hafa valið alveg sjálfir á litlu frænkuna. Minning þegar hann, nokkrum mánuðum síðar, hringir og segir okkur að hann sé sjálfur að verða pabbi. Ómetanlegar minningar frá öllum heimsóknunum til okkar norður með Guggu og börnunum og var þá ekkert verið að setja fyrir sig veður eða færð. Skemmtilegar minningar frá öll- um ferðalögunum sem við fórum saman með börnin okkar um landið svo ég tali ekki um allar Selsundsferðirnar og góðar stundir sem við áttum saman í sumarbústaðnum okkar. Minn- ingar frá því við Jói flytjum aftur til Reykjavíkur og heimsóknum sem farnar voru á milli heimil- anna, gamlárskvöldunum sem við áttum saman og svona má lengi telja. Skemmtilegar minningar úr matarklúbbnum sem við stofnuð- um ásamt nokkrum öðrum hjón- um fyrir um tuttugu árum. Minn- ing frá brúðkaupsdeginum þeirra þar sem Jói stóð stoltur við hlið bróður síns sem svaramaður hans. Já, minningarnar eru alveg ómetanlegar á tíma sem þessum. Allar stundirnar sem við áttum saman og við sem héldum að við ættum allan tíma í heimi til að gera enn þá meira. En lífið er svo óútreiknanlegt og óvægið á köfl- um, það hefur elsku tengda- mamma og þau systkinin fengið að reyna þar sem Unnar er þriðja systkinið sem kveður, svo snöggt og fyrirvaralaust. Með þessum fá- tæklegum orðum vil ég kveðja Unnar minn og bið algóðan Guð að vernda hann og styðja fjölskyldu hans á þessum erfiða tíma. Ferjan hefur festar losað, farþegi er einn um borð, mér er ljúft af mætti veikum mæla nokkur kveðjuorð. Þakkir fyrir hlýjan huga, handtak þétt og gleðibrag, Unnar Jón Kristjánsson Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, ÓSKAR KATÓ AÐALSTEINN VALTÝSSON, áður til heimilis að Hafnarbraut 8, Dalvík, lést á Dalbæ 17. nóvember. . Soffía Guðmundsdóttir, Guðmundur H. Óskarsson, Arna G. Hafsteinsdóttir, Rakel M. Óskarsdóttir, Gunnar Guðmundsson, Þóra K. Óskarsdóttir, Haukur Jónsson, Óskar A. Óskarsson, Anna H. Jóhannesdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær sambýlismaður minn, faðir okkar, fósturfaðir, tengdafaðir, afi og langafi, RÓSINKRANS KRISTJÁNSSON leigubílstjóri, lést á hjúkrunarheimilinu Grund föstudaginn 7. nóvember. Ath. Áður auglýstri útför hefur verið frestað vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Aðstandendur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.