Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.11.2014, Page 48

Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.11.2014, Page 48
Viðtal 48 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 2.11. 2014 Í slenska reggísveitin AmabAdamA gefur út í næstu viku sína fyrstu breiðskífu, Heyrðu mig nú, hjá Re- cord Records. Hún átti sumarsmell- inn í ár, „Hossa, hossa“, sem er ekki ofsögum sagt að hafi heillað alla frá tveggja ára til 82 ára. Bókstaflega allir sungu með bros á vör: „Láta’allt gossa,/ hrista bossa,/ég vil sjá tungukossa,/kveikja’ í kroppum ástarblossa,/allir saman hossa hossa.“ Salka Sól Eyfeld og Steinunn Jónsdóttir eru söngkonur sveitarinnar en þær eiga margt sameiginlegt og óhætt er að segja að þær séu báðar listrænar og fjölhæfar. „Ég ólst upp í Vesturbænum og svo í Kópavogi. Ég var allan grunnskóla og menntaskóla í mjög miklum tómstundum. Ég var í kór frá því að ég var fjögurra ára hjá Möggu Pálma, ég var alltaf í dansi og útskrifaðist úr menntaskóla af nútímadansbraut, var í Listdansskóla Ís- lands. Síðan var ég að læra á víólu í tólf ár og lærði einsöng,“ segir Steinunn, sem fékk síðan áhuga á leiklist og kvikmynda- gerð. Hún fór í nám í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands en á eftir að skrifa loka- ritgerðina. „Ég ætlaði að skrifa hana í sumar en þá fengum við plötusamning,“ segir Steinunn en það má sannarlega segja að hjólin hafi snúist hratt hjá hljómsveitinni að undanförnu. Steinunn og Salka hafa kynnst mjög vel eftir að þær byrjuðu saman í hljóm- sveitinni. Þær segja að það sé nánast ekkert sem þær séu ósammála um og lýsir Salka þeim sem sálarsystrum. Salka ólst líka upp í Vesturbænum og í Kópavogi. Hún segist samt vera minna í dansinum „en meira í tónlistinni“ skýt- ur Steinunn að. Salka segist hafa sungið mikið sem barn og tónlist hefur alltaf leikið stórt hlutverk í hennar lífi. Hún spilar tónlist, hlustar á tónlist og hefur kynnt sér tónlist mikið frá öllum hliðum, sem kemur sér vel í starfi hennar sem útvarpskona á Rás 2. Þar vakti hún fyrst athygli í Sumarmorgnum með Dodda litla og er núna við hljóðnemann síðdegis í Popplandinu. Safnar hljóðfærum Salka safnar hljóðfærum og telst til að hún eigi um 25 hljóðfæri og segist geta „gutlað“ á þau flest. „Ég held það sé ekkert hljóðfæri sem ég hef lagt frá mér án þess að kunna eins og eitt lag á það,“ segir hún. Eina hjóðfærið sem hún spilar ekki á er sekkjapípa en þar spilar skortur á að- gengi stærra hlutverk en annað. „Það er víst bara einn maður á landinu sem á sekkjapípu. Mig vantar að hafa uppi á þessum manni,“ grínast hún. Hljómsveitin AmabAdamA hefur verið til frá árinu 2011 og er stofnuð upp úr annarri sveit sem Magnús Jónsson, eða Gnúsi Yones, var forsprakkinn í, Gnúsi Yones & The Crackers. Núverandi mynd sveitarinnar hefur hins vegar ekki verið til nema í rúmt hálft ár en Salka gekk til liðs við sveitina í mars. Það eru tíu í sveitinni og þau eru þrjú í framlínunni, Gnúsi, Steinunn og Salka, sem syngja öll. Steinunn og Gnúsi eru jafnframt par og eiga saman rúmlega eins og hálfs árs gamlan son, Jón Braga. Gnúsi hefur líka verið lengi í tónlist en hann er ennfremur þekktur fyrir veru sína í rappsveitinni Subterranean. Auk þess að vera helsti lagahöfundurinn og eiga marga texta tók Gnúsi plötuna upp og hljóðblandaði. „Það voru mikil mannaskipti og hljóm- sveitin var í fæðingu í svolítið langan tíma,“ segir Steinunn en fyrir um ári komu hljóðfæraleikararnir inn og síðan Salka nokkru síðar. Eru báðar Reykjavíkurdætur Söngkona hætti í sveitinni en um það leyti sáu þau Sölku taka lag með reggí- sveit á MH-balli og sáu að hún myndi smellpassa inn. Salka var til í slaginn og tímasetningin var góð. Steinunn og Salka þekktust hins vegar fyrir þetta en þær voru saman í rappsveitinni Reykjavík- urdætrum. Þær eru ekki virkar Reykja- víkurdætur en gefa þó ekki titilinn upp á bátinn. „Einu sinni Reykjavíkurdóttir, allt- af Reykjavíkurdóttir. Svona eins og í skátunum,“ segja þær. Þær segja Reykjavíkurdætur skemmti- legan félagsskap, sem snúist líka um að virkja konur. Dæturnar eru líka allar með húðflúr, öfugan þríhyrning með punktum uppi á, sem er tákn fyrir kvenlega orku. „Við vorum að spila á tattúráðstefnu og fengum borgað með tattúi,“ segir Stein- unn. Það er að minnsta kosti nóg af fram- bærilegum konum í hljómsveitinni en óhætt er að segja að það hafi verið skortur á kvenfyrirmyndum í rappi. Sjálfar eru þær fyrstu íslensku reggí- söngkonurnar en það hafa verið nokkrar rappkonur. „Mér finnst mikilvægt að vera fyrir- mynd,“ segir Salka og rifjar upp að þeg- ar hún var táningur og langaði að læra á gítar hafi verið skortur á þannig fyrir- myndum. „Hera var sú eina sem var að spila og syngja á þessum tíma og hún hafði áhrif á mig. Ég vona innilega að Reykjavíkurdætur og AmabAdamA geti verið fyrirmyndir einhverra,“ segir hún en reggívígið er að minnsta kosti fallið með þeim tveimur. Steinunni finnst líka mikilvægt að vera fyrirmynd og finnst leiðinlegt að upplifa það sem henni finnst vera afturför í fem- ínisma síðustu ár. „Það er búið að afbaka hugtakið femínismi mjög mikið. Ungir krakkar virðast halda að það sé eitthvað allt annað en það er; að það sé eitthvert karlahatur.“ Henni finnst líka sorglegt að horfa upp á fordómana gagnvart innflytjendum og öðrum trúarbrögðum í þjóðfélaginu og að það sé til stjórnmálaflokkur sem ali á ótta þessa fólks. Skemmst er að minnast moskumálsins og góðs gengis Framsókn- arflokksins í borgarstjórnarkosningunum í kjölfarið. „Ég trúi því varla að við séum á þessum stað í dag og það ríki svona mikil þjóðernishyggja,“ segir Steinunn. „Þetta er algjört ábyrgðarleysi,“ segir Salka. Báðar minnast þær á kommentakerfin en þar virðist oft grassera lægsti sam- nefnari samfélagsins og margir láta ljót orð falla. „Með samfélagsmiðlum er þetta allt svo ótrúlega breytt. Ég reyni að halda mig frá því en dett stundum inn í að lesa kommentin. Hvaðan kemur þetta fólk? Það er ekki í kringum mig,“ segir Salka og endurspeglar áreiðanlega það sem margir hafa hugsað. Pólitískir textar Það ætti því ekki að koma á óvart að textarnir hjá hljómsveitinni séu pólitískir. „Við erum ekkert að skafa utan af því sem við erum að segja,“ segir Steinunn. Textinn við „Hossa, hossa“ sker sig þá kannski aðeins úr þótt hann sé vissulega um mikilvægt málefni en það er gott fyr- ir sálina að dansa og það þurfa allir að hafa ást í lífinu. Á væntanlegri breiðskífu er sungið um allt milli himins og jarðar með áherslu á hið síðarnefnda. Nýjasta lagið sem er í spilum með sveitinni heitir „Gaia“ og er einmitt óður til jarðarinnar. Textann skrifaði Gnúsi og vitnar Salka í eina línuna: „Því ef við klúðrum þessu hvert förum við þá?“ Þær eru báðar náttúruverndarsinnar og segjast bara vona að við séum ekki búin að klúðra þessu en hljómsveitin spilaði á styrktartónleikum í vikunni fyrir nímenn- ingana sem voru dæmdir í Gálgahrauns- málinu. „Hossa, hossa“ gaf sveitinni vissulega gott start. „Við vorum búnar að vera að spila lagið með Reykjavíkurdætrum og AmabAdamA og það var alltaf tekið rosa- lega vel í það. Eftir að lagið varð vinsælt tók maður eftir að við fengum meiri at- hygli og það var farið að sækjast eftir okkur á stærri gigg og kannski öðruvísi en við hefðum annars fengið,“ segir Stein- unn. „Við vorum búin að vera að spila þetta á tónleikum og bjuggumst við góðum við- tökum,“ segir Salka en þær útskýra að markhópurinn hafi orðið annar og lagið höfðað til stærri hóps en þær bjuggust við. „Við vorum með annað lag sem við ætl- uðum að setja í spilun fyrst. En okkur fannst svo gaman að búa þetta lag til og spila það að við ákváðum að byrja á því,“ segir Salka. Reggí virðist höfða til Íslendinga en hjómsveitin Hjálmar hefur notið mikilla vinsælda um árabil. Ojba Rasta er síðan nýrri sveit sem hefur látið að sér kveða að undanförnu og síðan sló AmabAdamA í gegn í sumar. Akurinn hefur því verið plægður og búið að þjálfa reggíeyra Ís- lendinga, bæði í útvarpi og svo einnig með danskvöldum sem haldin eru undir nafninu Reykjavík Soundsystem sem AmabAdamA tengist. Einlægar sálarsystur SALKA SÓL EYFELD OG STEINUNN JÓNSDÓTTIR ERU LISTRÆNAR OG FJÖLHÆFAR SÖNGKONUR REGGÍSVEITARINNAR AMABADAMA. ÞÆR EIGA MARGT SAMEIGINLEGT, FINNST MIKILVÆGT AÐ VERA FYRIRMYNDIR, HVETJA TIL GAGNRÝNINNAR HUGS- UNAR OG ERU EKKERT AÐ SKAFA UTAN AF HLUTUNUM. Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is * Það er svo mikil mötun í samfélag-inu. Það er alltaf verið að troða einhverju ofan í okkur, hvað við eigum að gera og hvernig við eig- um að vera.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.